Eftir grunnskólann lá leiðin í Versló og svo í fjölbraut í Garðabæ þaðan sem Böðvar útskrifaðist sem stúdent. „Eftir menntaskólann fór ég til Bandaríkjanna í nám þar sem ég kláraði fyrst bachelor-gráðu í viðskiptum og svo meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum. Eftir námið bauðst mér að fara til Rússlands að vinna hjá sjávarútvegsfyrirtæki í eigu Íslendinga en þeir voru með útibú um allt svo ég fékk ekki bara tækifæri til að upplifa Moskvu heldur líka rússnesku sveitina. Ég var mikið í borg sem heitir Perm og hún var eins og að labba inn á sett í bíómynd frá 8. áratugnum,“ segir hann.
Var með skrifstofur í World Trade Center
Eftir þriggja ára dvöl í Rússlandi var Böðvari boðin vinna í New York í tengslum við internetbóluna svokölluðu. „Fyrirtækið sem réð mig hét Bepayd.com en þeir fengu mig til að opna skrifstofu á Manhattan á 84. hæð í World Trade Center. Þessi bóla sprakk svo í kringum 2000 og þá fengum við ekki áframhaldandi fjármögnun, kannski sem betur fer því að allir vita hvernig fór fyrir turnunum þann 11. september 2001. Þetta hafði gífurleg áhrif á mig enda bjó ég rétt hjá Tvíburaturnunum. Ég fór því stuttu eftir árásirnar að skoða rústirnar sem var skelfilegt.“
Íslensk hönnun í miklu uppáhaldi
Hann segir að þessi ár í Rússlandi og New York hafi vissulega mótað sig og haft áhrif á ýmislegt, svo sem fatastíl svo fátteitt sé nefnt, en hann tekur fram að hann sé enginn tískunörd.
„Ég hef aldrei spáð mikið í tískuna en hef minn fatastíl sem hefur ekkert breyst mikið í gegnum tíðina. Reglulega fer ég í gegnum fataskápinn minn og grisja og þá kemst ég iðulega að því að ég nýti svona 30% af fötunum í honum. En ég nota flestar þær flíkur sem ég kaupi núorðið mjög mikið. Íslensk hönnun er í miklu uppáhaldi hjá mér og þá ber helst að nefna Kormák og Skjöld en þeir hanna mikið sjálfir og vörulínurnar þeirra eru alltaf að verða stærri og fleiri. Nýlega opnaði annar íslenskur hönnuður verslun á Skólavörðustíg sem ég er mjög hrifinn af en hann heitir Arason. Nú og svo er Farmers Market líka í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hvet alltaf fólk til að styðja við íslenska hönnun og versla við þessi merki og sérbúðirnar í bænum.“
Alla miðaldra karlmenn dreymi um að vera kúrekar
Böðvar segist vera öruggur í fatastíl sínum og hann viti eftir öll þessi ár hvað klæði hann og hvað ekki. „Ég klæði mig mikið í gallaföt, sérstaklega eftir að ég fór að horfa á þáttaröðina Yellowstone, það eiga nefnilega allir miðaldra karlmenn sér draum um að vera kúrekar,“ segir hann glettinn á svip.
„Þótt ég sé enginn sérstakur áhugamaður um tísku þá spái ég auðvitað í hvað ég klæðist. Ég veit hvað fer mér og hvað ég vil, með árunum hef ég skapað minn stíl sem er sennilega einhvers konar „casual-rústik-stíll“. Ég er mikið í gallabuxum, gallaskyrtum og í jakka yfir og ég heillast líka af tweed-vörulínunni hjá Kormáki og Skildi og klæðist til dæmis tweed-jakkafötum ef ég fer í leikhúsið.“ Hann segir svo og að uppáhaldslitir hans séu blár, grænn og appelsínugulur. En ef hann ætti að bjarga einni flík úr brennandi húsi væri það frakkinn frá Farmers Market sem nefndur var í höfuðið á honum fyrir mörgum árum.
Föt við hæfi sýni virðingu
En skyldi Böðvar hafa klætt sig öðruvísi þegar hann bjó erlendis?
„Auðvitað klæðir maður sig eftir því í hvaða starfi maður er, ef ég væri í banka myndi ég án efa vera í jakkafötum. Þegar ég var í Rússlandi var ég alltaf í jakkafötum en aftur á móti var þetta aðeins slakara í internetheiminum. Þar var maður kannski í gallabuxum og skyrtu og svo var ég reyndar oft í bleiserjökkum sem ég skil ekki í dag. Auðvitað klæðir maður sig eftir því hvað verið er að gera eða fara, mér finnst ég sýna umhverfinu virðingu með því að vera í fötum við hæfi, ég meina, maður mætir ekki í jogginggalla í leikhúsið,“ bætir hann við.
Útlitið tengt heilsunni
Gott útlit er ekki fötin ein og sér heldur einnig lífsstíllinn sem Böðvar segist hugsa vel um. „Ég hef alltaf passað vel upp á að hreyfa mig en undanfarið hef ég aukið verulega að ganga. Um daginn tók ég 30 km göngu um borgina, það var sérlega skemmtilegt því maður upplifir umhverfið einhvern veginn öðruvísi þegar maður er fótgangandi. Ég fer líka í ræktina þótt mér finnist það ógeðslega leiðinlegt og þrátt fyrir að ég eigi lélega æfingu þá er ég alltaf ánægður með að hafa mætt og gert eitthvað. Ég stunda auk þess bæði golf og skíði.“ Böðvar segir hreyfinguna vera mikilvæga fyrir gott útlit og vera hluta af því að hugsa vel um sig en hann bætir við að mataræðið sé enn mikilvægara.
Er í 16/8-föstu lífsstílnum
„Mataræðið tel ég vera svona 80% af góðri heilsu en það er regla hjá mér að elda alltaf matinn frá grunni og ég kaupi mér mjög sjaldan skyndibita. Ég elda yfirleitt fyrir þrjá daga í senn þannig að það er aldrei neitt vesen hvað eigi að vera í kvöldmatinn. Réttirnir sem ég geri eru bara hollur og góður matur eins og kjúklingur með grænmeti, fiskur og spagetti bolognese svo dæmi sé tekið. Brauð fer ég sparlega í en mér finnst súrdeigsbrauð einstaklega gott og það fæ ég mér stundum. Ég er mjög veikur fyrir ís og veiti mér hann stundum þegar sykurþörfin kallar. Auk þess passa ég upp á að drekka mikið vatn yfir daginn. Í um það bil þrjú ár hef ég verið í hinni svokölluðu 16/8-föstu, en það gengur út á að ég borða ekki fyrr en í fyrsta lagi klukkan 12 á hádegi og svo ekkert eftir 8 á kvöldin, en ég borða bara allt sem mig langar í á milli 12 og 8. Auðvitað breyti ég þessu ef ég fer seint út að borða eða er á ferðalögum en ég finn mikinn mun á mér eftir að ég tók upp þennan lífsstíl.“ Böðvar segist hafa lagt töluvert af eftir að hann byrjaði á 16/8-föstunni og finna fyrir mjög aukinni orku. „Mér finnst mikilvægt að passa upp á líkamann og þetta er liður í því. Þegar maður er kominn yfir miðjan aldur fer að hægjast á öllu en ef maður hugsar um heilsuna eru meiri möguleikar á að maður verði á góðum stað eftir fimm ár.“
Notar hvorki sjampó né krem
Talið berst að húð- og hárumhirðu sem Böðvar segist ekki leggja neitt sérlega mikið upp úr. „Stjúri rakarinn minn sem er með stofu inni í Kormáki og Skildi sagði við mig fyrir 15 árum að ég þyrfti ekki að nota sjampó þar sem ég færi í sund eða sturtu a.m.k. einu sinni á dag. Þannig að húð- og hárumhirða mín er þannig að ég nota engin krem eða sjampó.“
Böðvar segist hafa látið sér vaxa skegg í kringum 2008. „Ég var örugglega með þeim fyrstu sem létu sér vaxa skegg á sínum tíma, reyndar rakaði ég það af mér síðasta sumar en lét það vaxa fljótt aftur. Mér finnst bara gott að vera með skegg og það klæðir mig vel, felur smávegis undirhöku og svona,“ segir hann og hlær. Þegar talið berst að skeggumhirðu segist hann fara tvisvar í mánuði ásamt fimm félögum til Stjúra rakara til að láta snyrta bæði skeggið og hárið. „Þetta er hluti af lífsstíl mínum og er ekki síður félagslegt, þetta er eiginlega svona karlaklúbbur þar sem ákveðin mál eru rædd í góðum félagsskap yfir kaffibolla.“
Finnst ekki erfitt að vera karlmaður í dag
Þegar Böðvar er spurður hvernig það sé að vera karlmaður í dag segir hann hispurslaust að það sé bara fínt. „Hver og einn þarf bara að finna út úr því sjálfur hvað sé rétt og rangt í lífinu. Mínar áherslur eru á að vera í kringum fólkið sem ég elska, það gefur mér góða orku. Mér finnst líka mikilvægt að gefa af mér, sýna umhyggju og vera þakklátur fyrir það sem ég hef og á. Vera ánægður í eigin skinni og meðvitaður um að það er ekki sjálfgefið að vera við góða heilsu. Ég skil vel að þetta sé flókin veröld fyrir ungt fólk í dag þar sem allir eru með símana og því stanslaust að bera sig saman við einhverjar ímyndir sem eru í raun oft óraunverulegar og falskar. Veröldin sem margir reyna að skapa á samfélagsmiðlum endurspeglar ekki raunverulegt líf fólks, besta ráðið sem ég get gefið í þessum efnum er að benda fólki á að reyna að synda á móti straumnum og vera trútt sjálfu sér.“
Útlitið tengt sjálfsmyndinni
En skiptir útlitið máli?
„Já, að vissu leyti og kannski óbeint, í raun er það tengt því að hugsa vel um heilsuna. Ég meina, ég vil geta farið upp í Bláfjöll og skíðað í fimm klukkustundir eða farið í 30 km göngur. Með því að klæða sig vel ber maður virðingu fyrir sjálfum sér og því sem maður er að gera, það veitir vellíðan. Útlitið er því óneitanlega tengt sjálfsmyndinni og sjálfsörygginu, mikilvægast er samt að líða vel og reyna að vera maður sjálfur og skapa sinn eigin persónulega stíl.“