Marteinn Hafsteinn Gíslason fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 12. janúar 1952.

Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Fellsenda í Búðardal 29. febrúar 2024.

Foreldrar Marteins Hafsteins voru Gísli Hvanndal Jónsson og Jóna Kristlaug Einarsdóttir. Gísli Hvanndal, f. 3 desember 1929, d. 12. nóvember 2016. Foreldrar hans voru Jón Þórarinsson, f. 26 mars 1892, d. 15. júlí 1969 og Jónína Sesselja Jónsdóttir, f. 3. febrúar 1891, d. 20. nóvember 1958. Jóna Kristlaug, f. 13. apríl 1935, d. 6. nóvember 2023. Foreldrar hennar voru Guðrún Dagbjört Sigvaldadóttir, f. 15. júlí 1900, d. 12. júlí 1997 og Einar Einarsson, f. 15. ágúst 1901, d. 30. október 1952.

Systkini Marteins Hafsteins: Jón Thor, f. 2 mars 1957, Dagbjört Gísladóttir, f. 2. júlí 1963, d. 19. september 2023, Elín Björk, f. 22. júní 1966, Jónína Sesselja, f. 20. október 1969. Hálfsystir Marteins Hafsteins er Jónína Brynja Gísladóttir, f. 18. september 1947 (móðir Anna Eyjólfsdóttir, f. 16. júlí 1930, d. 30. janúar 2008).

Marteinn Hafsteinn, eða Matti eins og hann var venjulega kallaður, bjó alla sína tíð í Hafnarfirði eða þar til fyrir 12 árum að hann fluttist vegna veikinda á Hjúkrunarheimilið Fellsenda í Búðardal. Hann starfaði um árabil sem verkamaður hjá Hafnarfjarðarbæ . Það fór ekki mikið fyrir Matta, en þeir sem þekktu hann báru honum vel söguna, enda var hann drengur góður. Hann spilaði ekki á hljóðfæri, en músíkin átti hug hans allan, allt þar til yfir lauk og voru Elvis og Bítlarnir þar efstir á blaði.

Útför fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 15. mars 2024, klukkan 13.

Elsku Matti bróðir. Nú hefur þú kvatt okkur. Fylgt á eftir elsku mömmu og Döggu systur inn í aðra vídd þessarar veraldar okkar. Öll hafið þið kvatt okkur á þessum eina og sama vetri. Þungbært er að sjá á eftir ykkur, fólkinu sínu, á svona skömmum tíma. En minningarnar sitja eftir og verma hjörtu okkar. Margar dýrmætar og bjartar minningar. Æskuminningarnar! Svöluhraunið! Við áttum góða æsku og vorum mjög samrýnd systkinin. Margt var brallað og mikið hlegið. Matti var mikill tónlistarunnandi. Hann safnaði að sér miklu safni hljómplatna og diska og hélt hann ávallt vel utan um þetta safn sitt. Ætíð ef eitthvað var tilefnið hvort sem það var afmæli, jól, ferðalög eða jafnvel bara föstudagskvöld þá lagði hann mikið í að setja saman spilunarlista með lögum sem hentuðu hverju tilefni. Öll þessi lög óma í bakgrunni æskuminninga minna. Elvis Presley, Bítlarnir, Fats Domino, Björgvin Halldórsson, Haukur Morthens og fleiri. Músíkin var hans ástríða. Matti var líka góður söngvari og naut sín sjaldan betur en þegar tækifæri gáfust til að syngja. Lagið „Buona sera kemur upp í huga mér. Sé þig elsku bróðir ljóslifandi fyrir mér syngja það af mikilli innlifun. Matti var einstaklega hjartahlýr, barngóður og gjafmildur. Hann elskaði að gefa veglegar gjafir. Það var alltaf tilhlökkun á jólunum, hjá okkur systrum og síðar börnum okkar, að fá pakka frá Matta.

Elsku bróðir, síðustu árin voru þér erfið þar sem veikindi öllu því að þú undir þér ekki vel. Ég trúi að þér líði núna betur. Nú ert þú hjá mömmu, pabba og Döggu systur og sálir ykkar vaka yfir okkur sem enn sitjum jörðina. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera systir þín og þakklát þér kæri bróðir fyrir að hafa litað æsku okkar af allri þessari yndislegu tónlist. Minning þín er ljós í lífi okkar.

Faðmi þig ljósið,

friðarins engill

fylgi þér nú

á æðri stig.

Virðing og þökk,

vegferðin öll

vel í huga geymd.

(Aðalsteinn Á. Sigurðsson)

Þín systir,

Jónína Sesselja Gísladóttir.

Ég heyrði þá sögu að þegar Marteinn var lítill, bara nokkurra ára gamall, hafi hann safnað saman krökkunum í hverfinu og látið þá setjast á tröppurnar fyrir framan húsið hjá sér á Norðurbrautinni í Hafnarfirði; lét hann svo alla syngja og stjórnaði sjálfur kórnum. Þetta var fyrir mína tíð, enda Matti stóri bróðir minn og heilum fimm árum eldri, en þetta lýsir honum vel; músíkin átti hug hans allan og hjarta.

Hann passaði mig stundum þegar foreldrar okkar fóru í bíó og þá sátum við við gluggann í stofunni sem lá út að götunni og skrifuðum niður númerin á bílunum sem fóru framhjá. Einu sinn þegar við vorum uppteknir við þessa iðju kviknaði í húsinu á móti og allt fylltist af forvitnu fólki fyrir framan gluggann og slökkviliðið kom, sjúkrabíllinn og lögreglan og þótti okkur mikið til koma. Það var mikill léttir fyrir mömmu þegar hún kom með pabba á bílnum úr bíóinu og sá okkur Matta í glugganum, opinmynnta og með glampa í augunum. Hún óttaðist að við hefðum verið að leika okkur með eldspýtur og kveikt í.

Og svo komu táningsárin og Matti átti plötuspilara og plötur með Elvis Presley og Bítlunum. Hann lærði líka að spila á básúnu og var góður í fótbolta. En þessi ár uppvaxtar voru honum líka erfið, hann féll með tímanum einhvern veginn ekki inn í vinahópinn og byrjaði að draga sig meira og meira inn í eigin veröld. Eyddi stöðugt meiri tíma í herberginu sínu á Svöluhrauninu. Þar átti hann sitt athvarf, þar leið honum vel með öllum plötunum, sem urðu stöðug fleiri og fleiri. Hann var líka góður að syngja og söng yfirleitt með lögunum sem hann spilaði á grammófóninn. Hann æfði einu sinni með hljómsveit en kom aldrei fram með henni. Þessi heimur þarna úti var ekki hans. Herbergið var hans veröld, en þar gat hann verið allt, líka frægur söngvari. Maður gæti sagt að hann hafi verið mannfælinn, en það er ekki alveg rétt, því þegar vinir mínir komu í heimsókn til mín litu þeir yfirleitt við í herberginu Matta sem var á leiðinni inn í herbergið mitt. Þar var að jafnaði tekið vel á móti þeim og það var hlegið og gantast, rætt um tónlist og það nýjasta sem var að gerast á poppmarkaðnum, en hann var vel með á nótunum og kröfuharður, vissi hvað var gott.

Hann bjó síðar um árabil uppi á Holti í Hafnarfirði þar til að hann, vegna heilsubrests, gat ekki búið lengur einn. Þá fluttist hann á hjúkrunarheimilið Fellsenda í Búðardal. Þar var gott fólk sem sá vel um hann.

Þegar fólkið okkar fjölskyldunnar kom saman á árum áður til að gleðjast var Matti í essinu sínu. Fjölskylda okkar er með eindæmum söngelsk og þegar hún hittist var mikið sungið og trallað og þá var það hann og enginn annar sem stjórnaði söngnum, líkt og gerðist forðum daga þegar hann lét börnin syngja á tröppunum fyrir framan húsið á Norðurbrautinni.

Matti var góð sál og bjó yfir ýmsum góðum hæfileikum sem hefðu kannski mátt nýtast betur, en hann var eins og hann var og svona kaus hann að lifa. Ég var alltaf stoltur af stóra bróður mínum. Blessuð sé minning hans.

Jón Thor Gíslason.

Nú eru þau þrjú farin á fimm mánuðum. Dagga systir fór fyrst eftir stutta baráttu við krabbamein, mamma fer á eftir henni og nú Matti bróðir. Hvað er hægt að leggja á eina fjölskyldu spyr ég, ég á ekki orð. Myrkrið grúfir yfir okkur, en mikilvægt er að leyfa því ekki að ná yfirhöndinni heldur hleypa ljósinu að, svo að myrkrið hverfi úr hugum okkar og hjörtum.

Ég held á pennanum, horfi út um gluggann og hugur minn fer aftur í tímann á æskuheimilið mitt Svöluhraun 12 í Hafnarfirði, þar sem ég ólst upp með systkinunum mínum. Matti elsti bróðir minn var falleg sál, sem auðvelt var að þykja vænt um og vildi engum mein gera. Hann var alltaf vel til hafður og mikill fagurkeri. Fallega röddin hans ómar í minningu minni, hann náði svo háum tónum að maður fékk gæsahúð að hlusta á. Bróðir minn var mikill tónlistarunnandi, tónlistin ómaði úr herbergi hans alla daga á æskuheimili mínu, sem fylgdi mér út í lífið. Ég er alæta á músík í dag, en það hef ég Matta bróður mínum mikið að þakka, því tónlistin er mér svo mikilvæg á öllum stundum lífs míns.

Bræður mínir Nonni og Matti stofnuðu hljómsveit sem hét „Nýtt afbrigði“ ásamt vinum sínum og voru þeir mikið að æfa heima á Svöluhrauninu: Mamma að bera fram bakkelsi og drykki, tónlistin ómar um allt húsið og allir taka undir. Þessi tími er mér svo minnisstæður. Jólin, jólatónlistin sem Matti spilaði af stökustu snilld, spennan hjá okkur systrum yfir því hvað kæmi upp úr stóru pökkunum frá Matta, því gjafmildi hans var einstök. Fallega brosið hans, gleðin og hláturinn sem hann gaf okkur og allar þessar minningar sem ég átti í uppeldi mínu með honum gleymast aldrei. Stóri sterklegi bróðir minn sem bjargaði lífi mínu einn daginn, þegar ég var tólf ára. Ég hafði verið að leika mér með glerkúlu uppi í munninum og hún hrökk ofan í kok og ég náði ekki andanum, engin hjálp dugði fyrr en Matti birtist og greip um mig fyrir ofan magann, þrýsti og kúlan spýttist út. Ég minntist oft á þetta atvik við hann, til að minna hann á hversu þakklát ég var honum fyrir hjálpina.

Við fjölskyldan vorum bróður mínum mikilvæg og það skein af honum hlýjan til okkar og hann var með hjarta úr gulli. Hann fór í gegnum góða og erfiða tíma á lífsævi sinni sem endaði allt of snemma. Hafnarfjörður var alltaf hans bær, þótt hann byggi þar ekki síðustu árin, en nú er hann kominn til Ólafsfjarðar, æskustöðva mömmu, þar sem hann verður jarðsettur á sama stað og foreldrar okkar og Dagga systir hvíla. Elsku bróðir átti afmæli 12. janúar síðastliðin og áttum við gott símtal þennan dag sem ég endaði á þessum orðum: „Ég elska þig elsku bróðir.“ Ekki átti ég von á að þetta yrði okkar síðasta símtal.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(H.J.H)

Megi Guð blessa þig og vernda sál þína.

Takk fyrir allt, elsku bróðir.

Þín systir

Elín Björk.

Elsku Matti frændi, við minnumst þín með þakklæti og kærleika í hjarta. Takk fyrir góðvild þína við okkur öll. Blessuð sé minning þín.

Nú ertu farinn elsku frændi minn.

Frá okkar veröld lausn fékk andi þinn.

Á himinboga blika stjörnur tvær.

Hve brosi í augum þínum líkjast þær.

Nú gengur þú til fundar Frelsarans.

Friðargjafans, náðar sérhvers manns.

Þar englar biðja í bláum himingeim

og bíða þess þú komir loksins heim.

(Svava Strandberg)

Þín systkinabörn:

Gísli, Linda, Þorsteinn, Kristófer, Jóna, Helga, Sandra, Guðrún, Leander og Alexander Smári.