75 ára Jóhann er Reykvíkingur, ólst upp á Grímsstaðaholti og gekk í Melaskóla og Hagaskóla. „Það var öll mín skólaganga fyrir utan nokkur námskeið.“
Hann hefur búið á Seltjarnarnesi um 20 ára skeið og þar áður í Frostaskjóli svipað lengi.
Jóhann stofnaði innflutningsfyrirtækið Dan-inn árið 1995 ásamt Ágústi Gunnarssyni, en þeir eru nýbúnir að selja það.
„Við fluttum inn byggingarvörur og seldum til Húsasmiðjunnar, Byko og fleiri fyrirtækja. Okkur gekk vel og vorum réttum megin við strikið allan þennan tíma, vorum með góðar vörur og góða viðskiptavini. Þar áður hafði ég verið að vinna hjá Kristjáni Ó. Skagfjörð í 30 ár svo að ég vann á tveimur vinnustöðum í 59 ár.
Ég er búinn að vera sjálfboðaliði hjá KR frá því að ég man eftir mér,“ segir Jóhann þegar hann er spurður út í félagsmálin. „Fyrst í handboltadeildinni og síðan var ég hjá knattspyrnudeildinni, sat í stjórn þar í nokkur ár, var gjaldkeri. Ég er enn þá sjálfboðaliði, sé um að grilla hamborgara á sumrin með fleiri góðum mönnum.“
Jóhann hefur verið götuskokkari frá því um tvítugt og hljóp á tímabili á hverjum degi. „Við hittumst vinnufélagar á Melavellinum og skokkuðum þaðan í Skerjafjörð. Ég er meira kominn í göngur núna og að vera á hjóli.“
Fjölskylda Eiginkona Jóhanns er Ásdís B. Pétursdóttir, f. 1949, starfsmaður hjá Úrval-Útsýn. Synir þeirra eru Stefán Emil, f. 1972, þjónn, og Ágúst Þór, f. 1977, sölustjóri og handboltaþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Val. Barnabörnin eru fimm.
Foreldrar Jóhanns voru Hákon Guðmundsson, f. 1917, d. 1966, verkamaður, og Hanna Skagfjörð f. 1919, d. 1989, húsmóðir.