Sendiherra Carrin F. Patman í bústað sínum í Reykjavík. Hún hefur sem sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi lagt áherslu á aukna samvinnu.
Sendiherra Carrin F. Patman í bústað sínum í Reykjavík. Hún hefur sem sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi lagt áherslu á aukna samvinnu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sautjánda júní næstkomandi verða 80 ár liðin síðan Bandaríkin voru fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstæði Íslands. Jafnframt verða í ár 75 ár liðin síðan Ísland var ásamt Bandaríkjunum meðal stofnaðila Atlantshafsbandalagsins, NATO

Viðtal

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sautjánda júní næstkomandi verða 80 ár liðin síðan Bandaríkin voru fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstæði Íslands. Jafnframt verða í ár 75 ár liðin síðan Ísland var ásamt Bandaríkjunum meðal stofnaðila Atlantshafsbandalagsins, NATO. Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, ræddi við Morgunblaðið í tilefni af þessum tímamótum en hún var skipuð sendiherra í ágúst 2022. Patman segir Ísland mikilvægt bandalagsríki Bandaríkjanna og að mikilvægi Íslands í varnarsamstarfi sé ótvírætt. Spennustigið í heimsmálum kalli á varanlegan viðbúnað á norðurslóðum og þar sé framlag Íslands þýðingarmikið.

Sendiherrann tekur á móti blaðamanni og ljósmyndara í bústað sínum í Reykjavík. Boðið er upp á íste og útskýrir Patman að það þyki ómissandi drykkur heima í Texas.

Kúrekahattur í stofunni minnir á Texas og hefst samtalið á að ræða um heimaslóðir sendiherrans.

Var í ræðuliðinu

„Ég ólst upp í litlum bæ í Texas sem heitir Ganado en faðir minn var fulltrúi svæðisins í öldungadeildinni. Að sjálfsögðu þekkja allir alla í litlum bæ, þar bjuggu 1.600 manns. Raunar þekkja líka allir alla í Reykjavík. Ég gekk svo í menntaskóla í Austin, höfuðborg ríkisins, og var í ræðuliðinu sem er eins og Morfískeppnin á Íslandi. Ganado var samfélag í dreifbýli með bóndabýlum og búgörðum. Faðir minn var með búgarð þegar ég ólst upp. Ég var því full tilhlökkunar þegar ég heimsótti nýlega Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar leið mér eins og ég væri komin heim í sveitina. Eftir menntaskóla fór ég í Duke-háskóla í Norður-Karólínu og sneri svo aftur til Texas til að hefja laganám í Texasháskóla,“ segir Patman sem jafnframt hefur sótt námskeið við Harvard-háskóla.

„Ég ólst upp í fjölskyldu þar sem fólkið var í opinberri þjónustu. Afar mínir báðir og faðir voru kjörnir fulltrúar. Til dæmis sat föðurafi minn, Wright Patman, í 47 ár í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og kom að mikilvægri lagasetningu,“ segir Patman sem sjálf hefur verið kjörin fulltrúi í stjórn samgöngumála Harris-sýslu. Þar búa rúmlega 4,7 milljónir manna og er stjórnsýslan í Houston, fjórðu stærstu borg Bandaríkjanna.

Þú átt að baki langan feril í viðskiptum. Gætirðu stiklað á stóru?

„Ég útskrifaðist úr lagadeild Texas-háskóla árið 1982 og gekk til liðs við lögmannsstofuna Bracewell í Houston og starfaði þar í þrjá áratugi. Raunar lét ég ekki af störfum fyrr en árið 2016 en ég starfaði sem málafærslumaður. Ég gætti hagsmuna skjólstæðinga minna í réttarsal, yfirleitt sem verjandi í málum þar sem fyrirtæki tókust á. Lögmannsstofan var með nokkur hundruð starfsmenn og skrifstofur í tíu löndum.

Fyrsta konan

Ég var fyrsta konan sem sat í sjö manna stjórn stofunnar og þjálfaði með því diplómatíska hæfni. Það var ekki aðeins gott tækifæri til að ná tökum á flóknum málum heldur til að læra hvernig á að fá fólk til að vinna saman. Þegar maður er í stjórn fyrirtækis, eins og lögmannsstofunnar sem ég starfaði hjá, þarf maður að kunna að fá fólk til að vinna saman að sameiginlegu markmiði. Þetta var því góð þjálfun í því.“

Þú varst fyrsta konan í stjórn hinnar alþjóðlegu lögmannsstofu Bracewell. Telurðu þig hafa rofið glerþak?

„Já, það geri ég. Fyrirtækið hafði verið starfandi í rúma fjóra áratugi. Þannig að svarið er já; ég var að brjóta blað sem fyrsta konan í stjórninni. Tvívegis kjörin. Og það var einstakt tækifæri til að tryggja að konur og aðrir fulltrúar minnihlutahópa, sem ekki höfðu átt sér málsvara, fengju sanngjarna málsmeðferð. Ég upplifði að hafa áhrif á ákvarðanir um skaðabætur.“

Hvernig hefur hlutverk kvenna breyst síðan í upphafi ferils þíns?

„Ég tel að við höfum náð miklum framförum og lít á Ísland sem fyrirmynd í þessu efni.“

Hvers vegna?

„Vegna þess að þið eigið fyrsta lýðræðislega kjörna kvenforsetann. Við höfum ekki rofið það glerþak enn í Bandaríkjunum. Kynjahlutföll eru jöfn á Alþingi og þið eruð mjög meðvituð um réttindamálin. Ég tók þátt í kvennaverkfallinu síðasta haust og naut þess en kannanir sýna að Ísland er ýmist efst eða ofarlega á lista meðal ríkja heims þegar kemur að valdeflingu kvenna. Engu að síður telja konur hér og karlar að enn sé verk að vinna enda verður alltaf svo.“

Hvenær verður land þitt tilbúið að kjósa konu í Hvíta húsið?

„Nú ef ég bara vissi. Ég held að það sé ekki langt í það en það var mjög mjótt á mununum á milli Donalds Trumps og Hillary Clinton [í forsetakosningunum 2016]. Mjög mjótt. Því tel ég að sú staðreynd að hún var svo nærri því að verða kjörin forseti gefi góð fyrirheit.“

Efldu samgöngukerfið

Ég sé á ferilskrá þinni að þú áttir sæti í samgönguráði Harris-sýslu í Texas, Houston Metro, árið 2010. Svo gerist það árið 2016 að þú verður fyrst kvenna stjórnarformaður nefndarinnar. Vegakerfið sem heyrir undir nefndina er nokkur hundruð mílur, fjárlög hennar hljóða upp á 1,3 milljarða dala og starfsmennirnir eru rúmlega 4.100, les ég á vefnum. Þetta hefur því verið mikið starf?

„Ég var meðvituð um að við þyrftum að byggja upp samgöngukerfið og til þess þurftum við að geta gefið út skuldabréf og fá svo samsvarandi upphæð frá alríkisstjórninni til að geta byggt upp kerfi strætisvagna, lesta og annarra innviða, á borð við þjónustu við fatlaða og samfélög sem bjuggu við ófullnægjandi þjónustu. Það var því heilmikið ferli að þróa samgönguáætlunina og við þurftum að taka tillit til ólíkra hagsmuna. Sumir voru andvígir því að stækka kerfið en aðrir voru því fylgjandi en höfðu sínar hugmyndir um hvernig ætti að gera það og hvernig kerfið ætti að vera samsett. Svo í hönd fóru samningaviðræður sem stóðu yfir í tvö ár. Ég er stolt af þeirri vinnu af því að okkur tókst að fá til liðs við okkur fólk úr ólíkum áttum samfélagsins, þar með talið fólk sem hafði vanalega verið tortryggið á að byggja upp kerfið. Þetta var því afar gefandi starf.

Greina jöfnuð kynja

Við framkvæmdum líka í formannstíð minni fyrstu rannsóknina á stöðu kynjanna þar sem við bárum saman hvernig konum og körlum var umbunað fyrir störf sín, ekki aðeins fyrir sömu störf. Við leituðum líka dýpra og skoðuðum hvort stöður sem konur höfðu vanalega gegnt voru lægra launaðar en sambærilegar stöður sem karlar höfðu gegnt. Það er næsta skrefið í að greina jöfnuð kynjanna.

Þegar við höfðum smíðað nýja samgönguáætlun bárum við það undir kjósendur að gefa út skuldabréf fyrir 3,5 milljarða dala til móts við sama framlag alríkisins. Og það var samþykkt með næstum 70% atkvæða. Ég var stjórnarformaður í sex ár og er nýkomin úr þeirri opinberri þjónustu og var afar ánægð og það var mér mikill heiður að fá að nýta þessa reynslu í þessu hlutverki sem sendiherra,“ segir Patman.

Eiginmaður þinn, James V. Derrick, Jr., var áðan að segja mér frá líkindunum með Texasbúum og Íslendingum. Hvernig birtist það?

„Það hefur komið okkur ánægjulega á óvart hvernig allir hafa tekið okkur opnum örmum hér á landi. Við segjum oft að Íslendingar minni okkur á Texasbúa. Þeir eru vinalegir, opnir og hafa góða kímnigáfu. Takast vissulega á við alvarleg mál en taka sjálfa sig ekki of hátíðlega. Þetta er mjög líkt því að vera í Texas og við kunnum vel að meta það.“

Fylgjast með kafbátum

Hvað hefurðu lagt áherslu á sem sendiherra á Íslandi?

„Það styttist í að við höldum upp á að 80 ár eru liðin síðan Bandaríkin viðurkenndu fyrst ríkja sjálfstæði Íslands. Svo að ég hef sem sendiherra byggt á þeim grunni og hef leitast við að efla samstarf ríkjanna á sem flestum sviðum. Með hliðsjón af stöðu heimsmála eru öryggismálin afar mikilvæg. Sem kunnugt er þá er landfræðileg staðsetning Íslands afar mikilvæg. Siglingaleiðin norðan og sunnan landsins [sem kölluð er GIUK-hliðið í varnarmálum] er afar mikilvæg fyrir Bandaríkin og bandalagsríkin í NATO í eftirliti með ferðum kafbáta og hugsanlegum ógnum við öryggi í heiminum. Svo að ég vil byggja á því varnarsamstarfi. Frá því að ég kom hingað hafa Íslendingar af rausnarskap heimilað áhöfnum kafbáta að sækja heilbrigðisþjónustu hér á landi ef þörf krefur. Jafnframt geta áhafnirnar endurnýjað vistir. Það er afar þýðingarmikið í ljósi stöðunnar í heiminum vegna þess að auðvitað senda Rússar kafbáta sína á þessar slóðir. Og nú þegar Rússar eru orðnir ágengari í heimsmálunum er gríðarlega mikilvægt að þetta samstarf haldi áfram.“

Eftirlitið mikilvægt

Telurðu að þessum herstyrk verði viðhaldið eða er þetta aðeins tímabundið skeið?

„Nei. Ég tel að NATO verði alltaf með viðveru hér. Og við höfum hana núna. Bandaríkin eru nú að senda hingað flugvélar sem hafa eftirlit með ferðum kafbáta. Þær eru alltaf að sinna eftirliti í GIUK-hliðinu. Við höfum um 200 manna lið sem flýgur þessum vélum, kemur hingað og dvelur hér í nokkra mánuði. NATO hefur eftirlit með lofthelginni og sinnir loftrýmisgæslu með orrustuþotum þrisvar á ári. Bandaríkin senda yfirleitt þotur í þessa gæslu.“

Hvað um aðrar áherslur þínar sem sendiherra?

„Það má nefna efnahagsmálin. Ríkin tvö eiga í miklu efnahagslegu samstarfi. Bandaríkin eru helsta viðskiptaland Íslands og á suma mælikvarða stærsti erlendi fjárfestirinn. Ár hvert hittast fulltrúar viðkomandi ráðuneyta og fulltrúar Bandaríkjastjórnar, þar með talin ég, og ræða hvernig dýpka má sambandið. Svo að það fer stór hluti af mínu starfi hér í að greiða fyrir þeim viðskiptum.“

Samvinna í orkumálum

Hvað er að frétta af viðskiptasambandi ríkjanna?

„Þar má nefna orkumálin en Ísland er leiðandi á því sviði. Ekki aðeins í jarðhita heldur einnig í kolefnisbindingu. Og hingað kom Jennifer Granholm orkumálaráðherra Bandaríkjanna og við ýttum úr vör formlegu samstarfi milli Íslands og Bandaríkjanna á sviði jarðhita, kolefnisbindingar og vetnisframleiðslu.“

Allt sem viðkemur bandarískri menningu nýtur mikilla vinsælda á Íslandi. Og þú minntist á að Ísland væri á lista allra yfir lönd til að heimsækja. Hvað skýrir, að þínu mati, hin sterku menningarlegu tengsl ríkjanna?

„Þau má skýra með því að ríkin tvö eru með öflugt lýðræði. Við höfum sameiginleg gildi. Við látum okkur mannréttindi varða. Við látum okkur varða að valdefla þá sem þess þurfa. Og ég held virkilega að gildin sem við deilum geri samband okkar svo sterkt. Og hvað varðar alla ferðamennina sem koma hingað, þá er landið einfaldlega svo fallegt.“

Hvaða áskoranir fylgja því að reka sendiráðið um þessar mundir?

„Ja, við erum ekki nógu mörg,“ segir Patman og hlær við. „Við þurfum að taka í notkun fleiri rými innan sendiráðsbyggingarinnar [við Engjateig] vegna mikilvægis Íslands á alþjóðasviðinu. Athuganir leiða í ljós að við þurfum fleira starfsfólk og þurfum meira rými.“

Þekkir nú alla

Þú hefur reynslu af því að byggja upp tengslanet í stórborgum Bandaríkjanna. Er auðveldara að byggja upp tengslanet hér en í fjölmennari löndum?

„Hér eru allir svo vinalegir. Og ég hef sótt marga viðburði þar sem tilgangurinn er að byggja upp tengslanet, þar með talið meðal kvenna. Það er gaman að segja frá því að þegar við skipulögðum fyrst fjölmennan viðburð, sem var jólaboðið okkar, þekkti ég ekki marga. Og ég sagði starfsfólki mínu að við skyldum hafa nafnspjöld. Þá sagði einn starfsmaðurinn að við skyldum ekki gera það. Allir þekktu alla á Íslandi. Þá svaraði ég, „já, en ég þekki engan“, og nú eru nafnspjöld orðin venja á viðburðum okkar. Síðan þegar við héldum jólaboðið okkar núna síðast þekkti ég alla og það voru sennilega um 150 manns á svæðinu.“

Er eitthvað sem þú vilt að lokum koma á framfæri við Íslendinga?

„Það er ýmislegt sem ég vil segja. Fyrst vil ég koma á framfæri þakklæti fyrir hve vel og hjartanlega var tekið á móti okkur Jim. Við elskum það. Jafnframt vil ég þakka ykkur fyrir að standa að baki lýðræðislegum gildum. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú,“ segir Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, að lokum.

Menningin

Hreifst af Laufeyju

Það er auðheyrt að Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, hefur gert sér far um að kynna sér íslenskt samfélag. Hún hefur sótt söfnin og bókmenntahátíðir. Þar með talið nýlega glæpasagnahátíð í Hörpu, Iceland Noir, en mikið var rætt um að Hillary Clinton var boðið á hátíðina.

Patman segist hafa þekkt þau hjón Hillary og Bill í hálfa öld en hún kom að fjáröflun fyrir forsetaframboð þeirra Hillary og Joes Bidens, núverandi Bandaríkjaforseta.

Þá segir Patman að hún og eiginmaður hennar hafi haft mikla ánægju af því að sækja tónleika Laufeyjar Línar í Hörpu á dögunum og söngkonan eigi sér greinilega bjarta framtíð.