Úlfhildur Geirsdóttir fæddist 27. mars 1942. Hún lést 23. febrúar 2024.

Útför Úlfhildar fór fram 5. mars 2024.

Ég hef verið að hugsa um hvað gera skal, fór svolítið niður þegar Úlla dó. Þetta gerðist svo snöggt að maður gerði sér ekki alveg grein yfir þessu, og minnti mikið á þegar Inga mín dó. Hildur systir spurði hvort ég myndi skrifa eitthvað en ég var ekki viss. Nú er ég búinn að átta mig á þessu og langar að skrifa eitthvað smá. Úlla var rúmum þremur árum eldri en ég svo að við vorum ekki mikið saman, ég man að hún var mjög virk í öllu sem hún tók sér fyrir hendur, alltaf á hlaupum og úti um allt. Á þessum dögum var ekki búið finna upp orðið að vera ofvirk en ég held að Úlla hafi verið það. Það hefur oft verið haft á orði þegar litlar stúlkur eru orkumiklar, þá sagði pabbi oft, er nú Úlla litla komin. Úlla fór snemma að heiman að vinna og var mjög vinsæl, dugleg og ráðagóð. Vann á Álafossi, þar sem hún kynntist Silla og það varð farsælt hjónaband. Það var gott að koma á Brúarhól, þar var alltaf opið hús.

Úlla var flott söngkona, söng fallega alt-rödd sem var mjög leiðandi og mjúk, maður heyrði alltaf þegar Úlla var með, við sungum mikið saman systkinin, þá var allt raddað. Ég minnist Úllu sem góðrar konu sem hafði sínar skoðanir, góð að stjórna og finna út úr hlutum. Ef maður var í vandræðum með eitthvað var hringt í Úllu og þá var málið leyst. Það var skemmtilegt í fyrra í maí á kóramóti, þar komu saman fimm kórar, þegar allir kórarnir sungu saman sátum við fremst, ég í mínum hjólastól og Sigurjón frændi hægra megin og Úlla vinstra megin, þetta er mér ógleymanleg stund því nú sit ég einn eftir. Ég vil þakka þér fyrir allt Úlla mín, ég hugsa mikið til Silla sem nú er orðinn einn, og á virkilega bágt, vona að góður Guð sjái um hann. Svo sjáumst við saman með Ingu minni þegar minn tími kemur.

Gísli Geirsson.