Vegakerfið Viðhaldsþörf vegakerfisins er áætluð 17-18 milljarðar á ári, en fjárveiting í ár nemur 12,8 milljörðum og því næst ekki að halda í horfinu.
Vegakerfið Viðhaldsþörf vegakerfisins er áætluð 17-18 milljarðar á ári, en fjárveiting í ár nemur 12,8 milljörðum og því næst ekki að halda í horfinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Það kemur ekki á óvart að Vegagerðin segi þetta, en lengi hefur því verið haldið fram að við séum áratugum á eftir í uppbyggingu samgöngukerfisins á Íslandi. Það hefur aldrei þótt góð ráðstöfun að viðhalda ekki eignum sínum, þannig að ríkið…

„Það kemur ekki á óvart að Vegagerðin segi þetta, en lengi hefur því verið haldið fram að við séum áratugum á eftir í uppbyggingu samgöngukerfisins á Íslandi. Það hefur aldrei þótt góð ráðstöfun að viðhalda ekki eignum sínum, þannig að ríkið hefur verið að pissa í skóinn sinn með því að viðhalda ekki þeirri eign sinni sem vegakerfið er,“ segir Vilhjálmur Árnason, 2. varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið.

Viðbragða hans var leitað við fréttum um að ætlunin væri að veita 12,8 milljörðum til viðhalds vegakerfisins á þessu ári, þó ljóst væri að árleg viðhaldsþörf væri a.m.k. 17 til 18 milljarðar, til þess eins að halda í horfinu. Í þeirri fjárhæð er þó ekki gert ráð fyrir að unnið sé á uppsafnaðri viðhaldsþörf sem sé á bilinu 80 til 110 milljarðar.

Vilhjálmur segir að það sé miður að hvorki hafi verið varið nægu fé til viðhalds samgöngumannvirkja né uppbyggingar samgönguinnviða síðustu árin. Umhverfis- og samgöngunefnd hafi verið meðvituð um þetta lengi og gert tillögu í samgönguáætlun árið 2019 að leiðum til að afla aukinna tekna og fjármagna með gjaldtöku stofnbrautirnar þrjár út frá höfuðborgarsvæðinu sem og jarðgöng í landinu. Þannig átti að búa til aukið svigrúm innan samgönguáætlunar, m.a. til viðhalds vegakerfisins.

„Alþingi samþykkti þetta, en samgönguyfirvöld hafa enn ekki hrint þessu í framkvæmd. Hefði það verið gert hefðu þessir vegir fengið hraðari, betri og skilvirkari uppbyggingu og við hefðum einnig haft meira svigrúm til að ráðast í aðrar samgöngubætur, bæði viðhald vega og uppbyggingu hringinn í kringum landið. En staðan er þannig í dag að þessir þrír vegir eru að soga allt fjármagn úr samgönguáætlun til sín,“ segir Vilhjálmur.

„Alþingi hefur talað í þessu máli og það hlýtur að vera framkvæmdavaldsins, þ.e. innviðaráðherrans, að fara eftir samþykkt þess,“ segir hann.