Árás Rússar gerðu flugskeytaárás á borgina Odesa í Úkraínu í gær og lét á annan tug manna lífið. Á myndinni sést björgunarmaður slökkva í rústum.
Árás Rússar gerðu flugskeytaárás á borgina Odesa í Úkraínu í gær og lét á annan tug manna lífið. Á myndinni sést björgunarmaður slökkva í rústum. — AFP/Oleksandr Gimanov
Rússar halda áfram að fremja alvarleg mannréttindabrot og stríðsglæpi í Úkraínu, þar á meðal kerfisbundnar pyntingar og nauðganir að sögn sérstakrar rannsóknarnefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem hefur rannsakað ástandið í Úkraínu eftir innrás Rússa í landið fyrir tveimur árum

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Rússar halda áfram að fremja alvarleg mannréttindabrot og stríðsglæpi í Úkraínu, þar á meðal kerfisbundnar pyntingar og nauðganir að sögn sérstakrar rannsóknarnefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna sem hefur rannsakað ástandið í Úkraínu eftir innrás Rússa í landið fyrir tveimur árum.

Rannsóknarnefndin segist hafa séð nýjar vísbendingar um útbreitt ofbeldi. Þá lýsti nefndin einnig áhyggjum af því að áfram séu gerðar sprengjuárásir á svæðum þar sem óbreyttir borgarar búa og það staðfesti að rússneskir hermenn láti sig öryggi almennings engu varða.

Erik Mose, formaður rannsóknarnefndarinnar, sagði við blaðamenn að gögn sýndu að rússnesk stjórnvöld hefðu brotið gegn alþjóðlegum mannréttindalögum og framið stríðsglæpi í Úkraínu. Frekari rannsókna sé þörf til að meta hvort þessi brot megi flokka sem glæpi gegn mannkyni.

Viðtöl við 800 manns

Nefndarmenn sögðust byggja nýjustu­­ skýrslu sína á viðtölum við yfir 800 manns í 16 heimsóknum til Úkraínu. Sögðu þeir að meðferð Rússa á úkraínskum stríðsföngum væri hryllileg. Í skýrslunni eru rakin tilvik þar sem konum var nauðgað eða þær beittar öðru kynferðislegu ofbeldi sem jafna má við pyntingar. Þá eru einnig rakin tilvik þar sem karlkyns stríðfangar voru pyntaðir með kynferðislegum hætti og hótunum um nauðganir.

Nefndin sagðist einnig hafa fengið viðbótarupplýsingar um að úkraínsk börn hefðu ferið flutt með ólöglegum hætti til svæða sem Rússar ráða.

Þá rannsakaði nefndin í fyrsta skipti hvernig Rússar fóru ránshendi um úkraínskar menningarminjar og skjalasöfn, einkum í borginni Kerson, sem Rússar hernámu fyrst í mars 2022 en Úkraínumenn náðu aftur á sitt vald 8 mánuðum síðar. Segir nefndin að í október og nóvember 2022 hafi rússnesk stjórnvöld flutt að minnta kosti 10 þúsund gripi úr listasafni borgarinnar og um 70% skjala úr borgarskjalasafninu til Krímskaga. Flokkar nefndin þetta framferði sem stríðsglæp.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson