Guðjón Jensson
Guðjón Jensson
Við þurfum að huga að því hvernig við getum stuðlað betur að friði um allan heim.

Guðjón Jensson

Á dögunum hnaut ég um hugleiðingu Bryndísar Haraldsdóttur þingmanns Mosfellsbæjar um að taka þátt í sameiginlegum her á vegum Norðurlanda. Ég hrökk eðlilega við enda hefur Bryndís reynst einn af okkar bestu þingmönnum ásamt þeim Katrínu Jakobsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur að öðrum ólöstuðum.

Líklegt þykir mér að Bryndís hafi ekki kynnt sér nægjanlega vel hvað býr að baki þátttöku í herkostnaði.

Skoðum þetta mál ögn betur. Á upplýsingasíðu Browns-háskólans í Richmond í Bandaríkjunum má skoða þær gríðarlega háu upphæðir sem um er að ræða og bundnar eru varnarmálum. Það orð er í raun skrautyrði yfir stríðskostnað, sjá nánar: https://watson.brown.edu/costsofwar/figures/2021/BudgetaryCosts

Þarna kemur fram fjárhæðin átta trilljónir bandaríkjadala, sem er engin smáfjárhæð eða 8x10 í átjánda veldi. Þetta er einungis ein hlið málsins, því á meðfylgjandi töflu má sjá að hernaður þar sem Bandaríkjaher hefur komið við sögu frá aldamótum hefur kostað nær milljón manns lífið. Og hver er árangurinn? Hann verður að teljast fremur rýr miðað við allar fórnirnar og tilkostnaðinn. Kannski hefði verið betra heima setið en af stað farið.

Vel gæti ég trúað að kostnaður við kaup á einni fullkominni herflugvél sé á við kostnað við rekstur allra leikskóla höfuðborgarsvæðisins. Og þá er reksturinn eftir. Því miður hefur Sjálfstæðisflokkurinn oft talið þörf á að taka þátt í hernaði en oft hefur þeim sömu hrosið hugur við kaup á fullkominni þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna til björgunar- og hjálparstarfa.

Þegar um hernaðarmál er fjallað er því miður ekki horft á þá gríðarlegu hagsmuni hergagnaframleiðenda sem um er að ræða. Hvergi kemur fram hvaða fólk kemur þar við sögu eða stendur þar að baki. Ætla má að þessir hagsmunaaðilar hafi gríðarleg ítök í stjórnkerfum ótalmargra landa. Þessir aðilar sæta engu eftirliti né gagnrýni þó svo tortryggni gagnvart hergagnaframleiðendum ætti að vera nokkur. Þarna eru takmörkin á okkar lýðræði. Þessir aðilar gæta þess vel að ekkert berist út til fjölmiðla um hvað þeir aðhafast eða taka ákvarðanir um. En þeir eru meira og minna með fjöldann allan af stjórnmálamönnum í vasanum, gagnrýnislaust. Þessir hagsmunaaðilar sjá einungis framtíðina með því að blása sem mest að glæðum ófriðar, kynda undir átökum og efla tortryggni og hatur milli þjóða.

Við þurfum að huga að því hvernig við getum stuðlað betur að friði um allan heim og sýnt þeim aðilum tortryggni sem vilja ala á ófriði. Það ætti bæði að vera hagkvæmara og okkur til meira gagns og gleði. Verkefnin eru ótalmörg og það kallar á nýja grein.

Höfundur er rithöfundur, leiðsögumaður og eldri borgari í Mosfellsbæ.

Höf.: Guðjón Jensson