Sitt er hvað kartafla og kartafla. Það skildi bréfritari vel fyrir 90 árum.
Sitt er hvað kartafla og kartafla. Það skildi bréfritari vel fyrir 90 árum. — Morgunblaðið/Golli
„Nú hafa þeir vaknað. Hreina eyðingu um alt Suðurland þurfti til, að kartöfluráðunauturinn (R. Á.) færi að tala um hættuna við að flytja kartöflur á milli hjeraða í landinu,“ stóð í bréfi af Suðurlandi, sem birt var í Morgunblaðinu á þessum degi árið 1934

„Nú hafa þeir vaknað. Hreina eyðingu um alt Suðurland þurfti til, að kartöfluráðunauturinn (R. Á.) færi að tala um hættuna við að flytja kartöflur á milli hjeraða í landinu,“ stóð í bréfi af Suðurlandi, sem birt var í Morgunblaðinu á þessum degi árið 1934.

Sagði bréfritari ráðunautinn eiga manna mestan þátt í því, auk eftirlitsleysis frá „búnaðarfrömuðum“ þjóðarinnar, að drifið hefði verið inn í landið frá útlöndum kartöflumoldviðri svo mikið til útsæðis að allt annað hefði orðið að lúta. „Um að gera að ráða öllum til þess að panta „erlend afbrigði“, og þó hafa líklega þessir menn (eða a.m. kosti kartöfluráðunauturinn) vitað, að sýkin — sem R. Á. kallar nú „mygluð“ — var landlæg í öllum löndum öðrum en Íslandi.“

Í þokkabót voru erlendu kartöflurnar allmiklu verri, að því er bragð snerti, að dómi bréfritara, en sumar íslensku kartöflutegundirnar, sem sjálfsagt hefði átt að vera að láta þroskast í friði, þótt eigi væru þær eins „bráðþroska“ og einstaka aðfluttar tegundir.