Karl Gunnlaugsson fæddist 17. ágúst 1966. Hann lést 2. mars 2024.

Útför Karls var gerð 13. mars 2024.

Kalli var annar af tveimur hálfbræðrum mínum og jafnframt elstur. Ég og Kalli deilum sama pabba. Þó svo að við höfum ekki alist upp saman var alltaf góður systkinakærleikur á milli okkar og mikið grínast þegar við hittumst. Átta ár skildu á milli okkar og fórum við svolítið á skjön við hvort annað á lífsleiðinni, þ.e.a.s. á þann hátt að þegar hann var kominn með aldur til að skemmta sér og hafa gaman, þá var ég of ung til að falla í hópinn, og þegar ég var svo loksins komin með aldur til að skemmta mér, þá var hann kominn með kærustu og farinn í barneignir. Þegar hann var svo kominn með nokkuð stálpuð börn og til í tjúttið aftur, þá náði ég mér í kærasta og fór í barnauppeldi. Það var ekki fyrr en núna sem við vorum farin að ræða að ég kæmi ein upp í bústað og að við tækjum almennilegt djamm saman. Já, það er ekki alltaf gott að fresta hlutunum og halda alltaf að einn tími sé betri en annar fyrirhitting. Það er víst aldrei of oft sem maður hittir ættingja sína og vini. Ég hélt að ég ætti nú alveg góð 20 ár eftir meðbrósa. En við komumst svo sannarlega að því á laugardagsmorgni 2. mars að dauðinn þarf ekki að gera nein boð á undan sér eins og gerðist í Kalla tilfelli.

Erfiðast finnst mér að loksins þegar tími var kominn til að lifa og njóta tóku örlögin svona við. Það er enginn tilbúinn fyrir svona fréttir.

Elsku Helga, Gulli, Stefanía og fjölskyldur, mínar dýpstu samúðarkveðjur og Kalli, ef þú heyrir, takk fyrir að vera bróðir minn í næstum 50 ár.

Þín systir,

Áslaug Tóka.

Það var í febrúar 2007 sem ég hitti hina nýju nágranna mína fyrst. Kalli og Helga í Þ28. Við fyrstu kynni áttaði ég mig á því að nýja húsið okkar Bryndísar var ekki það besta við húsið, heldur voru það nágrannarnir í næsta húsi sem fylgdu alveg frítt með í kaupunum.
Kalli og Helga voru líka í nýju húsi og ég veit að við Bryndís gerðum betri kaup en þau m.t.t. nágranna.
Gulli og Stefanía voru að slíta barnsskónum á þessum tíma og ekki leið á löngu þar til búið var að ráða Stefaníu til að passa Karlana okkar, sem hún gerði með stakri prýði og strákarnir okkar elskuðu þær vaktir. Gulli var töffarinn á KTM-hjólinu sem drengirnir héldu varla vatni yfir þegar hann brunaði inn götuna.
Það hellast yfir mig þúsund góðar minningar þar sem ég sit og í raun er að meðtaka það að Kalli sé farinn. Allar eru þessar minningar uppfullar af húmor, góðum mat og drykk. Aldrei er Thule langt undan og við vorum báðir sammála um að lífið væri of stutt fyrir vondan mat. Þess vegna elduðum við aldrei vondan mat. Enda tekur það jafn langan tíma að elda góðan mat eins og það tekur að elda vondan mat.
Humarhalar og vængir voru í sérflokki á Karl's bar and grill. Það var ómissandi þáttur í matarboðinu að mæta snemma, knúsa Helgu og horfa á Kalla meðhöndla matinn, opna Thule og skiptast á sögum. Aldrei náði glasið að tæmast og aldrei var manni litið á klukkuna í nærveru Kalla. Við rökræddum þjóðmálin og vorum skoðanabræður í langflestum málum.
Mér er ofarlega í huga hversu ánægður þú varst með Karlana okkar Bryndísar og þú stóðst í þeirri meiningu að þeir væru allir skírðir í höfuðið á þér, enda heita þeir allir Karl að millinafni. Þó að um tilviljun hafi verið að ræða væri ég stoltur af því ef þeir tileinkuðu sér kosti þína, elsku Kalli. Kærleikur, vinátta, réttsýni, greiðasemi, gleði, tillitssemi og trygglyndi eru allt orð sem eiga vel við um þig. Mannkostir sem ég óska að Karlarnir mínir tileinki sér út lífið.
Það er auðvelt að verða reiður, leiður og sár í þeirri hugsun hversu ósanngjarnt það er að þú skulir hafa kvatt svo snemma og svona óvænt. Það ná engin orð yfir það í raun.
Það er mikilvægt að horfa til baka með þakklæti á þann tíma sem við öll áttum með Kalla. Það að elska þær minningar sem við eigum í stað þess að syrgja allt það sem ekki verður er okkar besta leið til að komast áfram og um leið heiðra minningu hans. Það mun ég gera og ég er sannfærður um að það sé nákvæmlega það sem Kalli myndi vilja að við öll gerðum.
Elsku Helga, Gulli, Kolla, Karl og Emil, Stefanía, Ingó og Hinrik Karl. Það ná engin orð yfir þá samúð sem ég hef með ykkur á þessum tíma.
Megi Guð gefa ykkur styrk og æðruleysi til að takast á við þennan nýja veruleika.

Sigmar Vilhjálmsson.