Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur samþykkt kaup Símans á félögunum BBI ehf., Dengsa ehf. og Billboard ehf. Tilkynnt var um kaup Símans á félögunum um miðjan janúar sl. en kaupverðið er rúmlega fimm milljarðar króna

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur samþykkt kaup Símans á félögunum BBI ehf., Dengsa ehf. og Billboard ehf. Tilkynnt var um kaup Símans á félögunum um miðjan janúar sl. en kaupverðið er rúmlega fimm milljarðar króna.

Orri Hauksson forstjóri Símans sagði í samtali við Morgunblaðið í lok janúar að hann sæi fyrir sér að rekstur félaganna yrði stærsta tekjustoð Símans.

Í tilkynningu sem Síminn sendi á Kauphöllina í gær kemur fram að með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum teldi Samkeppniseftirlitið ekki tilefni til frekari rannsóknar eða íhlutunar í málinu og lauk því meðferð málsins af hálfu eftirlitsins í svonefndum fyrsta rannsóknarfasa. Enn fremur segir að í samræmi við kaupsamning megi reikna með að framkvæmd viðskiptanna eigi sér stað á næstu vikum, þó í síðasta lagi í lok apríl 2024, að öðrum skilyrðum samningsins uppfylltum.