Sauðárkrókshöfn Verktakafyrirtæki Árna Helgasonar frá Ólafsfirði rekur niður stálþil.
Sauðárkrókshöfn Verktakafyrirtæki Árna Helgasonar frá Ólafsfirði rekur niður stálþil. — Morgunblaðið/Björn Björnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú er dag farið að lengja, sól hækkar á lofti og fallegt veður er dag eftir dag. Að vísu er hann kaldur þegar andar að norðan, og svo á auðvitað eftir að koma páska-, sumarmála-, hrafna- og kaupfélagsfundarhret eða hvað þau heita öll hretin sem hellast yfir á hverju vori

Úr bæjarlífinu

Björn Björnsson

Sauðárkróki

Nú er dag farið að lengja, sól hækkar á lofti og fallegt veður er dag eftir dag. Að vísu er hann kaldur þegar andar að norðan, og svo á auðvitað eftir að koma páska-, sumarmála-, hrafna- og kaupfélagsfundarhret eða hvað þau heita öll hretin sem hellast yfir á hverju vori. En hér í Skagafirði búa menn sig bara undir það og taka því sem að höndum ber.

Um síðustu mánaðamót lauk sýningum Leikhóps FNV á verkinu Með allt á hreinu, eftir 12 sýningar fyrir fullu húsi. Að sögn leikstjóranna Sigurlaugar Vordísar og Eysteins Ívars kom hugmynd að verkefni fram í október og fljótlega var hafist handa um ritun leikverks upp úr kvikmyndahandriti Stuðmanna að þeirra þekktu samnefndu mynd.

Áður hafði leikverk eftir myndinni verið gert, en hér varð að hafa annan hátt á til að sýningin rúmaðist á litlu sviði Bifrastar. Sagði Sigurlaug að mesta púslið hefði verið að nýta sviðið sem best og ná flæði á milli atriða þannig að enginn þráður rofnaði. Og ekki síður þar sem það mikil aðsókn nemenda var til þátttöku að skrifa varð inn í verkið nokkrar nýjar aukapersónur, auk þess að hafa nánast enga leikmynd en nýta ljós og hljóð til fullnustu. Hefur verið orðað við hópinn að sýna verkið í nágrannabyggðum en um það hefur engin ákvörðun verið tekin.

Allir sem sýninguna sáu ljúka upp einum munni um frábærlega skemmtilegt verk, þar sem hvergi var veikur blettur, hljóðfæraleikur og söngur í hæsta gæðaflokki og enginn dauður punktur eða vandræðagangur í sýningunni. Burðarhlutverkin voru í höndum Emelíönu L. Guðbrandsdóttur, Ísaks Agnarssonar, Alexanders V. Jóhannessonar og Haraldar Más Rúnarssonar.

Á vegum Skagafjarðarveitna er stefnt að því að bora eftir heitu vatni á svæði veitnanna í Sauðármýrum. Útvíkka á svæðið því fullvíst er talið að verulega meira vatnsmagn sé að finna, þó ef til vill verði að fara dýpra eftir því. Að sögn verkstjóra veitnanna, Gunnars Björns Rögnvaldssonar, er minnkandi þrýstingur í holunum þó enn hafi ekki þurft að koma til dælingar, en íbúum svæðisins hefur fjölgað og er nú talin þörf á auknu vatni, en nýting vex um 2% á milli ára. Þá er ljóst að hefja verður leit að köldu vatni fyrir Sauðárkrók, en um árabil hafa verið nokkur vandræði með öflun þess fyrir bæinn.

Á þriðjudag hófust framkvæmdir við niðurrekstur á nýju stálþili við Norðurgarð Sauðárkrókshafnar. Að sögn Dags Þ. Baldvinssonar hafnarstjóra verða í þeim áfanga sem nú er tekinn sett niður þil á 90 metra kafla, en síðari áfangi, sem er um 110 metrar, verður látinn bíða um sinn. Umferð um höfnina hefur verið svipuð og á síðasta ári, og gert er ráð fyrir ámóta umsvifum áfram. Auk þess er að vænta níu skemmtiferðaskipa næsta sumar. Það er Árni Helgason, verktaki frá Ólafsfirði, sem kemur með sín stórvirku tæki og annast framkvæmdirnar við þilið.

Hjá Steinullarverksmiðjunni liggur fyrir ósk um verulega stækkun, þó ekki hafi nein ákvörðun verið tekin um þá framkvæmd. Ljóst er að þörf er á mikilli aukningu á framleiðslugetu hvort sem byggð verður ný verksmiðja við hlið hinnar gömlu eða núverandi húsnæði stækkað og sett upp ný vinnslulína, sem mundi auka afköst um 40 til 50%. Að sögn Stefáns Loga Haraldssonar framkvæmdastjóra er ljóst að nú í kringum páska verður um u.þ.b. tíu daga uppihald vegna reglubundins viðhalds á brennsluofni.

Stefán sagði að unnið hefði verið á árinu á þrískiptum vöktum og síðasta ár hefði verið fjórða stærsta framleiðsluárið frá upphafi, og veltan verið 2 milljarðar og 75 milljónir og framleiðslan 10.130 tonn. Hins vegar væri það áhyggjuefni að ekki hefði tekist að halda uppi því góða þjónustustigi sem verið hefði vegna verulega meiri eftirspurnar umfram framleiðslugetu.

Á vegum sveitarfélagsins er margt á döfinni. Lokið verður öllum framkvæmdum við nýjan leikskóla á Hofsósi haustið 2025 og áfram verðu unnið af fullum krafti að viðhaldsframkvæmdum við Árskóla þ.m.t. gluggaskiptum og fleiru. Borun nýrrar holu á vegum veitnanna er að fara í útboð, og komnar eru í útboð pípu- og raflagnir vegna viðbótarframkvæmda við sundlaug og rennibraut kemur á næsta ári.

Þá styttist í útboð á nýjum grjótgarði á ytri höfninni sem verður til verulegra bóta þar sem dýpi er meira og lega fyrir stærri og djúpristari skip. Svo er lokið gerð deiliskipulags fyrir nýtt byggingarsvæði sem hlotið hefur nafnið Sveinstún í Áshildarholti, og gætu þar risið 45 til 50 íbúðir, í einbýlis-, par- og raðhúsum. Væntanlega verður byrjað á gatnagerð þar í sumar.

Svo sem sjá má er margt að gerast, og svo er menningarviðburðurinn Sæluvika fram undan í lok apríl og mun þá Leikfélagið setja á svið Litlu hryllingsbúðina í leikstjórn Valgeirs Skagfjörð, og fleira gott verður á döfinni, og þeir sem lengra telja sig sjá, spá góðri tíð í vor og sumar og þá er nú ekki yfir miklu að kvarta.

Höf.: Björn Björnsson