Á þeim tímamótum vildi Matthías ekki að blaðinu yrði beitt til að setja salt í sár marxista og innlendra óvildarmanna frjálslyndrar lýðræðisstefnu blaðsins.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Ekki þótti öllum sjálfsagt á síðari hluta 20. aldarinnar að Morgunblaðið birti að jafnaði erlendar fréttir á forsíðu. Aðeins stærstu innlendar fréttir fengu rými á forsíðunni. Efnisval í blaðinu var stundum þannig að fimm síður voru helgaðar erlendum fréttum, forsíðan og tvær innblaðsopnur.

Þetta var þegar Matthías Johannessen var ritstjóri Morgunblaðsins, frá 29 ára aldri í 41 ár. Hann andaðist 94 ára mánudaginn 11. mars og er nú víða minnst.

Metnaður Matthíasar setti sterkan svip á Morgunblaðið og þar með áhugi hans á að vandaðar erlendar fréttir og skýringar á alþjóðlegum menningar- og stjórnmálastraumum bærust til lesenda blaðsins. Sjálfur lagði hann mikið af mörkum í því efni, ekki síst með viðtölum sínum við merka útlendinga sem hingað komu. Á ógleymanlegum ritstjórnarfundum hafði hann innblásin áhrif á samstarfsfólk sitt. Fylgdi andi hans öllum sem fundina sátu.

Matthías var náinn vinur rússneska píanósnillingsins Vladimírs Ashkenazys og birti við hann viðtöl í blaðinu sem snerust um líf og list undir harðstjórn kommúnista í Sovétríkjunum.

Félagi orð (útg. 1982) er ein af tugum bóka Matthíasar. Þar segir frá samtali hans við Ashkenazy og rússneska sellóleikarann Mstislav Rostropovits. Hér er stuttur kafli frá hádegisverði á hóteli í Reykjavík í júní 1978:

„Ég sagði honum [Rostropovits], að margt ungt fólk hugsaði ekki um hættuna af Sovétríkjunum. Ef við nefndum kommúnista eða heimsvaldastefnu Sovétríkjanna, segðu margir, að Morgunblaðið þjáðist af kaldastríðsgrillum og væri að reyna að vekja upp „rússagrýlu“. Nauðsynlegt væri, að andófsmenn minntu sífellt á ástandið, þar sem kommúnisminn ræður ríkjum eins og í heimalandi hans, því að fólk gleymdi öllu jafnóðum, jafnvel innrás í Ungverjaland eða Tékkóslóvakíu. Margir Íslendingar létu sér ekki einu sinni til hugar koma, að hætta stafaði af sovézka flotanum umhverfis landið, hvað þá að Ísland gæti einn góðan veðurdag orðið heimsvaldastefnu Sovétríkjanna að bráð. Það væru þá helzt Kínverjar sem skildu þetta, og gætu komið einstaka manni í skilning um hættuna. „Já, það eru einmitt þeir, sem skilja þetta bezt,“ sagði Rostropovits. Og Ashkenazy tók undir það. „Þeir hata rússnesku stjórnina,“ bætti Ashkenazy við. En Rostropovits sagði, að Íslendingar yrðu að fara gætilega; þeir mættu ekki undir neinum kringumstæðum láta varnarliðið fara frá Íslandi, hvað þá hætta þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, „þá verðið þið einir og yfirgefnir hér í N-Atlantshafi“. Rússnesk yfirvöld kynnu þetta. […] Stórveldi kunni að laumast bakdyramegin inn í smáríki með því að gera þau efnahagslega háð sér. „Þið verðið að fara gætilega. Þið verðið að vera vel á verði.““

Matthías segir að þetta hafi Rostropovits sagt við sig „án þess að neinn hefði ymt að því af fyrra bragði“. Og hann bætir við: „Ég fór að velta því fyrir mér, hvort engir menn í heiminum sæju Sovétstjórnina í réttu ljósi nema Kínverjar og sovézkir andófsmenn.“

Það varð Matthíasi mikið undrunarefni eftir að kínverskur sendiherra kom hingað snemma á áttunda áratugnum hve stíft hann varaði við hættunni af Sovétríkjunum.

Eitt er að lesa þessa gagnorðu lýsingu Matthíasar, annað að minnast þess af hve miklum krafti og sannfæringu hann sagði frá slíkum samtölum og tengdi þau af skáldlegu innsæi við viðburði líðandi stundar.

Undir ritstjórn Matthíasar gættu blaðamenn þess af kostgæfni að birta ekkert án þess að réttmæti þess væri sannreynt eftir þeim leiðum sem þá voru til þess. Morgunblaðið lá undir stöðugum ásökunum frá málsvörum Sovétríkjanna um að flytja lygar um það sem þar gerðist. „Rússagrýlan“ var sögð við stjórnvölinn.

Við hrun Sovétríkjanna fyrir rúmum 30 árum sannaðist að „Moggalygin“ lýsti sovéskum veruleika og oft á mildan hátt. Á þeim tímamótum vildi Matthías ekki að blaðinu yrði beitt til að setja salt í sár marxista og innlendra óvildarmanna frjálslyndrar lýðræðisstefnu blaðsins – ekki ætti að magna sársauka þeirra í rústum eigin heimsmyndar.

Áherslan á traustar erlendar fréttir í ritstjóratíð Matthíasar og óhagganlegur stuðningur Morgunblaðsins við varnarsamninginn við Bandaríkin og aðildina að NATO réð miklu um að hér var sama meginstefna og meðal bandamanna Íslendinga. Andstæðingum stefnunnar var þetta ljóst.

Nú er miðlun erlendra frétta í íslenskum fjölmiðlum svipur hjá sjón miðað við það sem áður var. Þetta litar allar umræður um alþjóðamál. Grunnhyggni setur svip á þær og lítill munur er gerður á því sem beint snertir hagsmuni þjóðarinnar og stöðu í heiminum og hinu þar sem enginn hefur áhuga á því sem við höfum til málanna að leggja.

Íslenskir stjórnmálamenn sem taka þátt í umræðum á alþjóðavettvangi skynja þetta. Þeir koma héðan með innlend ágreiningsefni um alþjóðamál efst í huga og átta sig á að þeir eru einfaldlega á annarri bylgjulengd en viðmælendur þeirra.

Fyrir skömmu sagði Diljá Mist Einarasdóttir, formaður utanríkismálanefndar alþingis, að á fundum með erlendum starfssystkinum bæri hæst þunga stöðu í Úkraínu, framferði Rússa, samheldni og samstarf illra afla í heiminum og baráttu þeirra fyrir gjörbreyttri heimsmynd. Þetta endurspeglaðist „einhvern veginn ekki alveg hér“. Hún sagði „áherslur okkar og þras frá degi til dags“ frábrugðið því sem væri hjá nágranna- og vinaþjóðum ekki síst í fjölmiðlum.

Gegn slíkri nesjamennsku vildi Morgunblaðið sporna með Matthías Johannessen við stjórnvölinn.