Nýliði Andri Már Rúnarsson skoraði í sínum fyrsta A-landsleik.
Nýliði Andri Már Rúnarsson skoraði í sínum fyrsta A-landsleik. — Ljósmynd/Jozo Cabraja
Ísland vann sannfærandi sigur á Grikklandi, 33:22, í vináttulandsleik þjóðanna í handknattleik karla sem fram fór í Aþenu í gær. Þetta var fyrri viðureignin af tveimur en sú síðari fer fram í grísku höfuðborginni í dag

Ísland vann sannfærandi sigur á Grikklandi, 33:22, í vináttulandsleik þjóðanna í handknattleik karla sem fram fór í Aþenu í gær.

Þetta var fyrri viðureignin af tveimur en sú síðari fer fram í grísku höfuðborginni í dag. Með leikjunum lýkur æfingatörn íslenska liðsins sem kom saman í Grikklandi á mánudaginn.

Þrír nýliðar léku sinn fyrsta A-landsleik, bræðurnir Arnór Snær og Benedikt Gunnar Óskarssynir, sem leika með Gummersbach og Val, og Andri Már Rúnarsson, leikmaður Leipzig í Þýskalandi.

Fyrri hálfleikur var jafn en íslenska liðið seig fram úr á lokaspretti hans og var yfir þegar flautað var til leikhlés, 15:13.

Ísland jók forskotið upp í fjögur mörk á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks en stakk síðan Grikkina af og ellefu mörkum munaði á liðunum þegar upp var staðið.

Skoraði 100. markið

Andri Már skoraði í sínum fyrsta landsleik og Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir A-landsliðið.

Arnar Freyr Arnarsson skoraði sitt 100. mark fyrir Ísland, í sínum 95. landsleik, en hann gerði tvö mörk í leiknum.

Mörkin dreifðust á tólf leikmenn Íslands þar sem Óðinn Þór Ríkharðsson og Viggó Kristjánsson skorðu mest.

Mörk Íslands: Óðinn Þór Ríkharðsson 6, Viggó Kristjánsson 5, Sigvaldi Björn Guðjónsson 4, Ómar Ingi Magnússon 3, Haukur Þrastarson 3, Stiven Tobar Valencia 3, Elvar Örn Jónsson 2, Arnar Freyr Arnarsson 2, Janus Daði Smárason 2, Andri Már Rúnarsson 1, Orri Freyr Þorkelsson 1, Einar Þorsteinn Ólafsson 1.