Fjölhæf Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir sinnir ýmsu og kemur víða við.
Fjölhæf Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir sinnir ýmsu og kemur víða við. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Galdrafár á Ströndum nefnist fornnorræn listahátíð sem Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir hefur skipulagt ásamt Önnu Björgu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra Galdrasýningar á Ströndum. Boðið verður upp á tónleika, fyrirlestra, vinnustofur, víkingaþorp og fleira á Hólmavík 19.-21

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Galdrafár á Ströndum nefnist fornnorræn listahátíð sem Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir hefur skipulagt ásamt Önnu Björgu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra Galdrasýningar á Ströndum. Boðið verður upp á tónleika, fyrirlestra, vinnustofur, víkingaþorp og fleira á Hólmavík 19.-21. apríl.

„Þetta verður mikilfenglegur viðburður,“ segir Hrafnhildur. Hún hafi viljað rými fyrir listsköpun og hlýju og því ákveðið að halda þessa alþjóðlegu hátíð. „Við bjóðum upp á skemmtun og fræðslu um áhugaverð efni, sem viðkoma fornri menningu á Íslandi og víða í Evrópu.“

Sérfræðingar víða að

Hrafnhildur er í listamannahópnum Northern Fire, þar sem félagsmenn sérhæfa sig í fornnorrænni þekkingu. Hún segir að Sean Parry, húðflúrari í Wales og stofnandi samtakanna, hafi mikinn áhuga á þessu sviði. „Hann er með fingurna í öllu sem þessu viðkemur. Við í hópnum komum saman að minnsta kosti árlega til að deila visku okkar á milli og Galdrafár er liður í því, en hátíðin verður mun umfangsmeiri en ég lagði af stað með í upphafi.“

Undanfarinn rúman áratug hefur Hrafnhildur starfað sem húðflúrari og farið sem slíkur víða um heim (habbanerotattoo.com). „Ég hef starfað víða sem gestur á erlendum húðflúrstofum og flúrað á mörgum hátíðum, meðal annars á Indlandi.“ Hún á og rekur stofuna Örlög á Laugavegi ásamt Zivu Ivadóttur og Bylgju Thorlacius, en sérstök húðflúrráðstefna verður á hátíðinni, þar sem verðlaunaðir húðflúrarar láta til sín taka. „Ég nota ekki vél heldur pota blekinu með húðflúrnál beint í húðina og var fyrsti Íslendingurinn til að flúra faglega með þessari aðferð.“

Boðið verður upp á fyrirlestra um ýmis málefni. Meðal annars verður fjallað um völvur og seið, sögu flúra í fornri Evrópu, leðurvinnu á miðöldum, mikilvægi fornra þjóðdansa í nútímamenningu, myndun fóstbræðralaga í Íslendingasögum, íslenska jurtagaldra og huldufólk.

Tónleikar verða alla dagana og koma margar hljómsveitir fram. Þar á meðal eru Kælan mikla, Umbra, Taranau, Svartþoka, Línus Orri & Kvæðakórinn, Krauka og Vévaki, en Hrafnhildur er í síðastnefnda bandinu ásamt Will Hunter, forsprakka þess, Sigurboða Grétarssyni, eiginmanni sínum og húðflúrara, og Gísla Gunnarssyni framleiðanda tónlistarinnar. „Hljómsveitin er innblásin af norrænni heiðni og fornum kvæðum.“ Ný plata sé í undirbúningi og hljómsveitin spili á Airwaves í haust. „Svo syng ég líka með Kvennakór Reykjavíkur.“

Víkingafélagið Rimmugýgur setur upp víkingaþorp, þar sem gestir geta fræðst um sögu víkinga, reynt sig í ýmsum þrautum og fylgst með bardaga auk þess sem haldin verður sérstök barnaskemmtun.

Fyrsta kvöldið verður brenna þar sem fólk kemur saman og blótar, syngur og dansar. Frítt verður á galdrabrennublótið, inn í víkingaþorpið og á sölubásasvæði en hægt er að kaupa heildarpassa á sýninguna eða dagpassa. Allar nánari upplýsingar eru á heimasíðu Galdrafárs, sorceryfestival.is.