Kristín Sigríður Magnúsdóttir fæddist 26. september 1929. Hún lést 14. febrúar 2024.

Útför Kristínar fór fram 13. mars 2024.

Elsku Stína amma mín.

Ég man eftir svo mörgum góðum stundum með þér.

Ég man hvað þú varst skapandi og listræn og hvað íbúðin þín var full af skemmtilegum skúlptúrum og listaverkum. Ég man líka hvað það var kósí að sitja í eldhúsinu og teikna þegar ég var hjá þér. Einu sinni, þegar ég var eitthvað um 7-8 ára, var ég að teikna mynd af þér og passaði upp á að hafa hvert einasta smáatriði með á myndinni, hverja einustu litlu hrukku (þó að þú hafir nú varla verið svo hrukkótt þá). En þú varst bara ánægð með árangurinn og myndin hékk uppi á vegg hjá þér í mörg ár.

Þó að við höfum búið hvor í sínu landinu síðan ég var lítil var það að koma i heimsókn til þín eitt af því sem ég hlakkaði mest til þegar ég kom í frí til Íslands. Ég man líka eftir öllum fallegu bréfunum og kortunum sem þú hefur sent mér gegnum árin.

Þér þótti vænt um stóru fjölskylduna þína og þú varst oft með huggulega fjölskylduhittinga þegar ég kom til landsins. Þú varst meistarakokkur og ég man ekki eftir að hafa komið til þín án þess að hafa fengið eitthvað gómsætt og gott að borða, eða án þess að fá eitt stórt ömmuknús þegar ég kom (og fór). Og hvernig þú stóðst alltaf og vinkaðir frá stóru svölunum í rokinu, meðan þú bjóst ennþá úti á Granda.

Svo man ég líka þegar þú komst til okkar í Bergen og við gerðum ýmislegt saman. Eins og að fara í verslunarferðir og skoða föt. Ég man vel þegar þú varst að leita þér að nýju pilsi og spurðir dömuna í búðinni „Har dere pils?“ og ég hló og hló og skammaðist mín ofan í skó af því að þú vissir auðvitað ekki að pils þýðir bjór á norsku.

Ég man líka eftir ljúfum dögum í yndislegu sólarlandaferðinni okkar til Grikklands fyrir rúmum 10 árum þar sem við vorum þrjár kynslóðir saman. Þú, ég og mamma að dinglast á sólarströndum og í bæjarferðum. Þú varst þá komin yfir áttrætt og öllum sem við hittum fannst svo frábært hvað þú værir hraust og spræk, komin á þinn aldur.

Ég held ég sé ekki sú eina sem á eftir að muna eftir þér sem glæsilegri og flottri konu, alltaf vel til höfð og falleg.

En það sem ég man best var hlýjan þegar við hittumst, góða ömmuknúsið og mjúku hlýju hendurnar þínar, mýkstu hendur í heimi.

Ég sakna þín elsku besta amma mín en er svo þakklát fyrir að hafa þekkt þig eins lengi og ég gerði, og vona að þér líði vel þar sem þú ert núna. Þangað til við sjáumst næst,

þín

Hildur.

Vafin barna- og vinahópi,

verða fátæk orðin mín,

en frá hópsins heillahrópi,

hækkar minninganna sýn.

Þú hefur lifað langa ævi,

litið margt á þeirri braut,

og á björtum sólarsævi,

sigldir fram hjá hverri þraut.

Þó í nálægð brysti bára,

og birtan sýndist dvína um hríð,

gegnum tíbrá æviára,

endurskín þín gæfutíð.

(Ort af Stjána bróður til systranna)

Það verður fögnuður í sumarlandinu hjá systkinahópnum frá Langabotni þegar þau taka á móti litlu systur sinni! Öll með hugann fullan af söknuði eftir bernskuárunum, gleði þeirra og sorgum. Birkiilmurinn í hugskotinu, árniðurinn og báran blá gjálfrandi við ströndina, Ýmir vaggandi á firðinum, lömbin jarmandi.

Stína systir, eins og móðir mín sagði og mín fjölskylda kallaði hana ætíð. Þær voru næstelst og næstyngst af 12 systkina hópi, Stína aðeins tíu ára þegar móðir þeirra, Hildur, deyr óvænt og lífið gjörbreytist! Jónína amma tók að sér verkstjórnina, stjórnaði af rúmstokki sínum, allir áttu sín föstu verk. Hella úr koppunum að morgni dags, sópa gólfin, sækja vatn í eldhúsið, vaska upp, allt stelpuverk! Engan fíflagang eða læti. Björg móðursystir tók hana að sér og lét hana sofa uppi í.

Fallega og glæsilega Stína systir hélt ung á vit ævintýranna, þar sem lífið var ekki eintómur dans á rósum. Víst er að heimanmundur æskuheimilisins og útsjónarsemi hjálpaði til í öllum þeim verkefnum sem henni var falið að takast á við í lífinu. Stína systir fór í Handíða- og myndlistakólann, hún var mikil listakona og skóp mörg ómetanleg listaverk alla ævi sína. Seinna lærði hún til kennslu og varð kennari.

Hlátur hennar og bros mun ekki gleymast, enda áttum við sérstakan þráð sem tengdi okkur í gegnum tímann, Stína bjó heima hjá okkur í nokkur skipti, ég passaði stelpurnar í Saltvík og tók á móti Magnúsi. Stína systir og mamma Gunna systir töluðu gjarnan saman í síma og þá fékk ég fréttirnar beint í æð, hvað væri að frétta af börnunum hennar og hvaða nöfn barnabörnin fengu og fleiri fréttir.

Stína systir var alla daga hreykin og stolt af yndislegu börnunum sínum og barnabörnum!

Hvíl í friði, kæra frænka.

Hildur Sæmundsdóttir.