Leigubílar Alþingismenn hafa rætt við Samgöngustofu vegna ástandsins á leigubílamarkaði og svindls við próftöku og deila áhyggjum vegna þess.
Leigubílar Alþingismenn hafa rætt við Samgöngustofu vegna ástandsins á leigubílamarkaði og svindls við próftöku og deila áhyggjum vegna þess. — Morgunblaðið/Eggert
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Samgöngustofu jafnt sem okkur þingmönnum er brugðið yfir fréttum um kynferðisbrot erlendra leigubifreiðastjóra gagnvart farþegum. Síðan hafa okkur borist fréttir af meintu svindli þeirra sem tala ekki íslensku, þegar tekin eru próf til öflunar réttinda til leigubifreiðaaksturs. Það bætir ekki úr skák,“ segir Birgir Þórarinsson alþingismaður í samtali við Morgunblaðið.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Samgöngustofu jafnt sem okkur þingmönnum er brugðið yfir fréttum um kynferðisbrot erlendra leigubifreiðastjóra gagnvart farþegum. Síðan hafa okkur borist fréttir af meintu svindli þeirra sem tala ekki íslensku, þegar tekin eru próf til öflunar réttinda til leigubifreiðaaksturs. Það bætir ekki úr skák,“ segir Birgir Þórarinsson alþingismaður í samtali við Morgunblaðið.

Fulltrúar Samgöngustofu mættu til fundar við þrjá þingmenn Sjálfstæðisflokksins á Alþingi á fimmtudag, en auk Birgis sátu fundinn þingmennirnir Diljá Mist Einarsdóttir og Ásmundur Friðriksson.

„Á fundinum kom það skýrt fram að Samgöngustofa lítur þessi mál mjög alvarlegum augum, en skv. fréttum fjölmiðla hefur verið svindlað á prófum sem haldin voru hjá Ökuskólanum í Mjódd og mun Samgöngustofa fylgja því eftir gagnvart viðkomandi,“ segir Birgir.

Hann hefur það eftir fulltrúum Samgöngustofu að stofnunin hafi ekki gefið formlegt leyfi fyrir því að nemendur notuðu farsíma í prófum. Stofnunin hafi þó verið meðvituð um að farsímar væru notaðir til þýðinga og brýnt fyrir námskeiðshaldara að það væri á þeirra ábyrgð að tryggja að próftakar svindluðu ekki í prófum.

Birgir segir að þingmenn hafi fundað með fulltrúum téðs ökuskóla fyrr í vikunni. „Þar sögðu forsvarsmenn skólans að farsímanotkunin hefði verið með samþykki Samgöngustofu. Hér stendur orð gegn orði og það er ekki gott,“ segir Birgir og bætir við að þingmennirnir hafi verið fullvissaðir um að Samgöngustofa myndi bregðast við. Námskeiðshaldarar þurfi viðurkenningu Samgöngustofu til kennslu og prófa. Sé reglum ekki framfylgt sé hægt að svipta viðkomandi þeirri viðurkenningu og þar með réttindum til að kenna og prófa.

„Mér finnst það blasa við að það eigi að gera ef ekki er fylgt prófareglum. Ég veit bara ekki til þess að það megi nota síma í prófum í skólum hér á landi. Það gefur augaleið að ef það er gert þá er bara hægt að hafa samband við vin og fá svörin send um hæl,“ segir Birgir Þórarinsson.