Ólafur og Libia Sýning þeirra, sem margir koma að, er verk í vinnslu og verk munu bætast við þau sem fyrir eru.
Ólafur og Libia Sýning þeirra, sem margir koma að, er verk í vinnslu og verk munu bætast við þau sem fyrir eru. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýningin Afbygging stóriðju í Helguvík stendur yfir í Listasafni Reykjanesbæjar. Sýningin er verk í vinnslu og unnin í samstarfi og samtali Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar við Töfrateymið, Andstæðinga stóriðju í Helguvík, aðra…

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Sýningin Afbygging stóriðju í Helguvík stendur yfir í Listasafni Reykjanesbæjar. Sýningin er verk í vinnslu og unnin í samstarfi og samtali Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar við Töfrateymið, Andstæðinga stóriðju í Helguvík, aðra umhverfisverndarsinna, hagfræðing, íbúa Reykjanesbæjar og nærsamfélaga og sýningarstjórann Jonatan Habib Engqvist.

Libia og Ólafur hófu samstarf sitt í Hollandi árið 1997. Þau vinna þverfagleg samvinnuverkefni í fjölbreytta miðla; m.a. vídeó, ljósmyndun, teikningar, prent, málverk, hljóðskúlptúra, gjörninga og margmiðlunarinnsetningar og umhverfi.

Verkefnin teygja sig oft út fyrir veggi sýningarrýma og tímaramma sýninga og ýta þannig við hinu hefðbundna sýningarformi. Libia og Ólafur fóru fyrir hönd Íslands á Feneyjatvíæringinn árið 2011. Þau hafa sýnt verk sín í almannarýmum í ólíkum borgum víða um Evrópu og haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum víða um heim.

Málefni sem varðar alla

„Þegar við fengum boð um að sýna í listasafninu þá fannst okkur áhugavert að skoða og vinna með fjölmenningarsamfélagið. Við höfum unnið með það í verkum okkar á Íslandi og erum héðan og frá Spáni og búum mikið erlendis. Annað sem heillaði okkur var umhverfið, náttúran og umhverfismálin. Þannig má sjá þetta verkefni sem eins konar framhald af verkefni okkar um nýju stjórnarskrána þar sem umhverfismál, náttúran og réttur hennar spilaði stórt hlutverk. Okkur varð strax hugsað til sílikonverksmiðjunnar United Silicon í Helguvík, sem okkur fannst gríðarlega áhugaverð sem dæmi og útgangspunktur,“ segir Ólafur.

Á sýningunni má meðal annars sjá teikningar á endurunninn pappa. „Þar höfum við málað sílikonverksmiðjuna, United Silicon, í Helguvík og á ýmsum tungumálum, spurninguna: Hvað nú? Við viljum ekki bara tala til íslenskumælandi íbúa landsins. Náttúruvernd skiptir alla jarðarbúa máli,“ segir Libia.

Verksmiðjan útgangspunktur

„Við spyrjum: Hvað nú? – Hvað á að verða um þessa verksmiðju og svæðið þar í kring? Gestir sýningarinnar geta svarað því með því að fylla út eyðublað með þessari spurningu. Þannig taka þeir þátt í samtalinu og hafa áhrif á verkið,“ segir Ólafur.

„Á ferlinum höfum við unnið mikið með nærumhverfi sýningarsala. Við höfum jafnvel flutt til staðarins og búið í nærumhverfinu. Á þessari sýningu höfum við tekið ljósmyndir af nærumhverfinu og þarna eru líka hefðbundnar teikningar. Við vísum í kröfuspjöld og mótmælaspjöld,“ segir Libia. „Við höfum unnið sýninguna í samvinnu við sýningarstjórann okkar, Jonatan Habib Engqvist, aktívista, umhverfissinna og arkitekt. Sýningin byggist á samvinnu og samtali við mjög marga.

Við erum líka að velta fyrir okkur framtíðinni. Á að rífa verksmiðjuna eða er hægt að nota hana á einhvern annan hátt? Samfélagið á þessum slóðum á að eiga þátt í að ákveða það.“

„Verksmiðjan er útgangspunktur sýningarinnar. Sýningin er rannsókn á verksmiðjunni og sögu hennar, því sem hún stendur fyrir og svæðinu í kringum hana. Hún átti að verða stærsta kísilverksmiðja í heimi, var rekin í tíu mánuði en komst aldrei almennilega í gagnið.

Oft hefur verið talað um fjárhagslega tapið af henni en bygging hennar var líka mikið inngrip í náttúruna sem minna er talað um. Þessi verksmiðja stendur enn og er í eigu Arion banka. Nú er hún í ferli sem íbúar hafa ekki áhrif á, bankinn ræður,“ segir Ólafur.

Borgarafundur á dagskrá

Libia og Ólafur stefna að því að halda borgarafund í fyrstu vikunni í apríl sem þau skipuleggja með safninu. Þar verður rætt um framtíð verksmiðjunnar og svæðisins. Umhverfis- og orkumálaráðherra verður boðið á fundinn ásamt bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ og vitanlega er óskað eftir þátttöku almennings í umræðunum. „Okkur finnst mjög mikilvægt að íbúar og við öll fáum að hafa meiri aðkomu að þessu ferli. Við erum að kalla eftir því með sýningunni og fundinum. Þegar fólk lætur í sér heyra þá er möguleiki að breyta hlutunum,“ segir Libia.

Sýningin verður í stöðugri þróun á sýningartímanum og verk munu bætast við þau sem fyrir eru. Meðan á sýningunni stendur lána listamennirnir verk til einstaklinga og stofnana. Þannig hefur til dæmis Norræna húsið fengið verk að láni og Dr. Gunni sömuleiðis og RÚV. „Þannig fer sýningin í umferð út fyrir safnið og inn í samfélagið. Fólk mun síðan senda okkur ljósmyndir af verkunum á nýjum stöðum,“ segir Ólafur.

Sýningin Afbygging stóriðjunnar í Helguvík stendur til 28. apríl.