Tryggvagata Ráðist verður í miklar breytingar á Tollhúsinu áður en Listaháskólinn flytur starfsemi sína þangað.
Tryggvagata Ráðist verður í miklar breytingar á Tollhúsinu áður en Listaháskólinn flytur starfsemi sína þangað. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Undirbúningur er hafinn að flutningi Listaháskóla Íslands í Tollhúsið við Tryggvagötu. Rífa á hluta hússins og byggja við það.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Undirbúningur er hafinn að flutningi Listaháskóla Íslands í Tollhúsið við Tryggvagötu. Rífa á hluta hússins og byggja við það.

Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) hefur sent erindi til skipulagsfulltrúa þar sem óskað er eftir samtali og samráði við Reykjavíkurborg um skipulag lóðar nr. 19 við Tryggvagötu og tengingu nýrrar byggingar Listaháskóla Íslands, LHÍ, í og við Tollhúsið, við nærliggjandi umhverfi.

Fram kemur í erindinu að FSRE undirbúi samkeppnisútboð um nýja byggingu Listaháskóla Íslands við Tollhúsið. Stefnt er að því að auglýsa forval og samkeppnisútboð fljótlega.

Skólinn verði undir einu þaki

Í ágúst 2023 fór fram samráðsfundur með þáverandi borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, og Ólöfu Örvarsdóttur, sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. Þá kynnti fulltrúi FSRE verkefnið og stöðuna á því.

Stefnt er að því að starfsemi skólans og öll svið og deildir hans verði undir einu þaki. Áætlað er að rýmisþörf sé alls um 15.500 fermetrar (m2) húsnæðis (brúttó). Innan þessarar tölu er gert ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði auk viðbyggingar.

Þarfagreining og húsrýmisáætlun voru unnar af Teiknistofunni Tröð árið 2021. Núverandi bygging er 10.150 m2. Þarfagreining gerir ráð fyrir að hluti byggingarinnar verði rifinn til þess að koma allri starfsemi fyrir í húsnæðinu. Reiknað er með að niðurrif geti orðið allt að 3.650 m2 af núverandi húsnæði. Viðbygging yrði því um 9.000 m2.

„Mikil áhersla er lögð á sjálfbærni í þessu verkefni og verður byggingin svansvottuð. Matslíkan tillagna byggir m.a. á því að tillöguhöfundar í samkeppninni verða hvattir til þess að finna lausnir sem sýna fram á minna niðurrif og endurnýtingu byggingarefna,“ segir í erindi FSRE.

Húsið Tryggvagata 19 er á svæði sem skilgreint er sem „miðborg“, nánar tiltekið M1a Miðborgarkjarni. Starfsemi LHÍ falli vel inn í lýsinguna. Stofnunin bjóði upp á menningu, menntun og afþreyingu, tengingu við almenning á jarðhæð og viðburði í borgarrými við LHÍ.

Þarfagreining verkefnisins gerir ráð fyrir því að rífa þurfi hluta byggingarinnar til þess að koma allri starfsemi skólans fyrir. Til þess að minnka líkur á niðurrifi byggingar, sem er í anda stefnu um sjálfbærni, þurfi svigrúm að vera til staðar. Nýtingarhlutfall er hátt og lóð er nokkuð lítil miðað við grunnflöt hússins. Lagt er til að bæta megi við einni hæð ofan á Tollhúsið, svo lengi sem allar forsendur (burður o.fl.) standist kröfur.

FSRE leggur til að formleg breyting á deiliskipulagi verði gerð þegar samkeppnistillaga liggur fyrir.

Vistvænar samgöngur

Í anda sjálfbærni verði áhersla lögð á vistvænar samgöngur. Notendur byggingarinnar verði hvattir til þess að taka strætó, ganga eða hjóla. Á lóð er ekki gert ráð fyrir bílastæðum, hvorki fyrir starfsfólk né nemendur, en bílastæðahús eru í næsta nágrenni.

Gert verður ráð fyrir hjólaskýli, en sem fyrr segir er lítið pláss á lóðinni og erfitt verður að uppfylla alla þörf um fjölda hjólastæða. Við skólann stunda um 700 nemendur nám auk 100 -150 manns sem vinna við skólann eða allt að 850 manns.

„Ljóst er að með tilkomu nýrrar byggingar Listaháskólans við Tryggvagötu mun mannlíf miðborgarinnar aukast og blandast því sem fyrir er,“ segir í erindi FSRE.

Hugmynd er komin fram um að efna til samstarfs við borgina um hjólaskýli og -stæði í nágrenni við Tollhúsið, sem nýst geta öðrum borgarbúum og -gestum.