Gagnaver Verne hefur starfrækt gagnaver á Ásbrú í Reykjanesbæ um árabil.
Gagnaver Verne hefur starfrækt gagnaver á Ásbrú í Reykjanesbæ um árabil.
Fjárfestinga- og sjóðastýringarfyrirtækið Ardian hefur gengið frá kaupum á 100% hlut í gagnaverum Verne af Digital 9. Verne, sem er með höfuðstöðvar í London, rekur eitt stærsta gagnaver á Íslandi sem er á Ásbrú í Reykjanesbæ

Fjárfestinga- og sjóðastýringarfyrirtækið Ardian hefur gengið frá kaupum á 100% hlut í gagnaverum Verne af Digital 9. Verne, sem er með höfuðstöðvar í London, rekur eitt stærsta gagnaver á Íslandi sem er á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Í tilkynningu Ardian segir að fyrirtækið muni leggja til rúmlega 1,2 milljarða bandaríkjadala til að fjármagna áform Verne um vöxt í Norður-Evrópu. Sem kunnugt er keypti Ardian í fyrrahaust Mílu af Símanum og hefur í kjölfarið boðað mikla uppbyggingu á fjarskiptainnviðum hér á landi.

Einnig hefur Ardian áætlanir um að fjórfalda afkastagetu gagnavera Verne næstu misserin, sem var um 29 MW árið 2023.

„Við höfum fylgst kerfisbundið með þessari grein í Norður-Evrópu um nokkurt skeið og sjáum að Verne er sannarlega sjálfbært gagnaver í samanburði við önnur gagnaver í heiminum. Þessi fjárfesting er algjörlega í samræmi við nálgun okkar um að fjárfesta í innviðum þar sem við getum lagt til fé til frekari vaxtar og aukið virði. Við munum nýta þekkingu okkar á staðháttum og virðiskeðju stafrænna innviða til að styðja við vaxtaráform félagsins. Fjárfestingin gerir félagið vel í stakk búið til að nýta tækifæri í stafrænni þróun á alþjóðavísu og styðja betur við þróun þessarar mikilvægu starfsemi í samfélaginu,“ er haft eftir Pauline Thomson, hjá Infrastructure Team Ardian.

Helstu viðskiptavinir Verne eru meðal annars fyrirtæki og stofnanir í framleiðsluiðnaði, fjármálum, rannsóknum og gervigreind. Gagnaverið er knúið áfram á rúmlega 140 MW afli.

„Við erum virkilega spennt fyrir því að vinna með Ardian að því að styrkja framtíð okkar,“ er haft eftir Dominic Ward, forstjóra Verne, í tilkynningunni.