— AFP
Ísraelsstjórn ákvað í gær að senda samningamenn til Doha í Katar til viðræðna um vopnahlé á Gasasvæðinu og lausn gísla sem þar eru í haldi. Hamas-samtökin lögðu í gær fram nýja tillögu um sex vikna vopnahlé á Gasa og að 42 gíslar yrðu látnir lausir…

Ísraelsstjórn ákvað í gær að senda samningamenn til Doha í Katar til viðræðna um vopnahlé á Gasasvæðinu og lausn gísla sem þar eru í haldi.

Hamas-samtökin lögðu í gær fram nýja tillögu um sex vikna vopnahlé á Gasa og að 42 gíslar yrðu látnir lausir gegn því að 700-1000 palestínskum föngum í fangelsum í Ísrael yrði sleppt. Samtökin gerðu einnig kröfu um að Ísraelsher yfirgæfi byggð svæði á Gasa og fólki yrði leyft að snúa aftur heim.

Skip á vegum hjálparsamtaka, sem dró pramma með um 200 tonn af hjálpargögnum frá Kýpur, kom að strönd Gasa í gær og síðdegis var byrjað að afferma. Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað varað við því að hungursneyð sé yfirvofandi á svæðinu vegna þess hve hægt vistir berast þangað.