— Morgunblaðði/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Á undanförnum árum hefur greiningardeild ríkislögreglustjóra fengið upplýsingar frá erlendum samstarfsaðilum um einstaklinga sem tengjast alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum og hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Hryðjuverkaógn hefur aukist í nágrannaríkjunum skv. áhættumati samstarfsríkja og alþjóðleg hryðjuverkasamtök hafa opinberlega hvatt til hryðjuverkaárása í Evrópu.

Þetta kemur fram í umsögn ríkislögreglustjóra um frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögreglulögum, en markmiðið með frumvarpinu er m.a. að skýra og styrkja heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna.

Í nýlegum Dagmálaþætti Morgunblaðsins var rætt við Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um útlendingamál og m.a. rifjað upp að nýlega hefði liðsmaður ISIS-hryðjuverkasamtakanna verið handtekinn á Akureyri og fluttur af landi brott ásamt fjölskyldu sinni.

Hvort fullvissa væri fyrir því að ekki leyndust fleiri slíkir hér á landi, svaraði Guðrún þannig: „Við höfum ekki fullvissu um það.“

Eftirlit með skipulögðum samtökum brotamanna

Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um heimildir lögreglu til að nýta eigin upplýsingar til greiningar sem og upplýsingar sem hún aflar, auk þess sem ráðherra er veitt heimild til að kveða nánar á um þær aðgerðir sem beita má í þágu afbrotavarna. Heimilað verður að hafa eftirlit með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulögð brotasamtök eða sem sérgreind hætta stafar af fyrir öryggi ríkisins eða almennings.

Þá er frumvarpinu ætlað að styrkja og efla eftirlit með störfum lögreglu sem ríkislögreglustjóri segir mikilvægt sem og að þau séu unnin með gegnsæjum hætti, að nauðsynlegt aðhald sé veitt og trausti til lögreglu viðhaldið.

Í umsögninni kemur fram að áhætta vegna skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi teljist mjög mikil samkvæmt skýrslu og aukin notkun brotahópa á stafrænni tækni skapi álag á ýmsum sviðum löggæslunnar. Skipulögð brotastarfsemi sé ógn við öryggi samfélags og einstaklinga.

Ríkislögreglustjóri segir að á Íslandi séu einstaklingar sem aðhyllist ofbeldi og öfgafulla hugmyndafræði. Aukning sé á hryðjuverkatengdu efni sem aðgengilegt er á netinu þ.m.t. samfélagsmiðlum. Hatursorðræða sé meira áberandi en áður og ljóst að kynt sé undir skautun samfélagsins með aðstoð gervigreindar.

Átök skapa nýjar öryggisógnir

Greiningardeild ríkislögreglustjóra metur það svo að ógn vegna hugsanlegra hryðjuverkaárása á Íslandi á þessu ári stafi fyrst og fremst frá einstaklingum sem aðhyllist ofbeldisfulla öfgahyggju, beri hatur til samfélagsins og séu reiðubúnir að fremja hryðjuverk. Segir að löggæslusérfræðingar á Vesturlöndum telji einstaklinga sem aðhyllast ofbeldisfulla hægriöfgahyggju eða ofbeldisfullan íslamisma skapa mesta ógn. Þá hafi stríðsátök fyrir botni Miðjarðarhafsins skapað nýjar öryggisógnir fyrir lögreglu á Norðurlöndum og víðar.

Bent er á að skipulögð brotastarfsemi geti tekið á sig ýmsar myndir. Segir að í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra komi fram að brot sem tengjast innflutningi, framleiðslu og/eða heildsölu á kannabis, amfetamíni og kókaíni á Íslandi séu umfangsmesti brotaflokkurinn sem við sé að eiga. Aldrei áður hafi verið lagt hald á jafn mikið magn af kókaíni og á síðasta ári og gögn sýni að samfélagsmiðlar séu notaðir í þágu skipulagðrar brotastarfsemi.

Ólöglegir fólksflutningar, mansal og smygl á fólki

Einnig er vakin athygli á því að í skýrslu Evrópulögreglunnar um skipulagða brotastarfsemi innan ESB árið 2021 komi fram að ólöglegir fólksflutningar, mansal og smygl á fólki sé stór þáttur í umsvifum skipulagðra brotahópa. Greiningardeild ríkislögreglustjóra segir að mikilvægt sé að vinna gegn starfsemi slíkra hópa sem stundi ólöglega fólksflutninga og veiti flóttafólki ólöglega þjónustu sem felst m.a. í útvegun falsaðra skilríkja.

„Þannig verður flóttafólk eða innflytjendur sem kaupir fölsuð skilríki í gegnum skipulagða brotahópa berskjaldað fyrir hagnýtingu og mansali,“ segir í umsögninni og er sagt mikilvægt að koma í veg fyrir misnotkun skipulagðra brotahópa á t.d. félagslegri þjónustu og aðstoð, þ.m.t. fjárhagsaðstoð með notkun falsaðra skjala. Það birtingarform skipulagðrar glæpastarfsemi sem líklegast er talið að beinist gegn almenningi á Íslandi sé tilraunir til fjársvika um internetið.

Að mati embættis ríkislögreglustjóra er mikilvægt að efni frumvarpsins nái fram að ganga og að lögregla hafi þau verkfæri sem hún þurfi, til að geta tekist á við breytt umhverfi og vaxandi áskoranir.