Sigurður Garðarsson
Sigurður Garðarsson
Skilaboðin eru skýr, ef þú ert erlendur aðili er þér hampað, ef þú ert íslenskur ríkisborgari (á gamalsaldri) er þér refsað.

Sigurður Garðarsson

Meirihluti Alþingis hefur samþykkt án þess að segja það beint í væntanlegum breyttum lagatexta, að íslenskir eftirlauna- og lífeyrisþegar sem búsettir eru erlendis missi persónuafslátt sinn um næstu áramót, sbr. greinargerð með frumvarpi um þessa ráðstöfun. Tryggingastofnun hefur tilkynnt skjólstæðingum sínum, sem dvelja langdvölum erlendis, að þeir muni ekki njóta persónuafsláttar eftir árið 2024 og vísa til fyrirmæla frá Skattinum. „Ekki er gert ráð fyrir að breytingin hafi mikil fjárhagsáhrif í för með sér …“ segir enn fremur í greinargerðinni. Á hvern af þessum skattgreiðendum verður skattbyrðin þó aukin í u.þ.b. 800 þúsund krónur á næsta ári. Nefnt hefur verið að þessi ráðstöfun muni bitna á um 3.000 eldri borgurum, sem verði þá 2,4 milljarðar í auknar skattgreiðslur á þennan eftirlauna- og lífeyrisþegahóp.

Veikindi, vesæld og fjölskyldubönd

Ástæður þess að eldri borgarar færa sig um set, mest til sólarlanda, eru ýmsar. Algengt er að læknar ráðleggi vöðva- og gigtarsjúklingum að flytja til sólarlanda í lækningaskyni. Óumdeilt er að sólin og hitinn fara betur með eldra fólk en kuldinn og rokið á okkar norðlægu slóðum. Stundum er búmannsspeki í fjármálum látin ráða för, en matarkarfan og húsnæði eru í flestum tilfellum ódýrari í Miðjarðarhafsríkjunum en á Íslandi. Í sumum tilvikum kalla börn og barnabörn sem búa í öðrum löndum á að hafa ömmu og afa innan seilingar. Þetta fólk er ekkert minni Íslendingar eða öðruvísi skattgreiðendur en t.d. ellilífeyrisþegar sem hafa heimilisfesti í Grímsey eða á Raufarhöfn, en búa langdvölum á Akureyri eða í Reykjavík, í nálægð afkomenda sinna, vegna heilsufarsástæðna eða dýrtíðar vesældar.

Þegar leikmaður skautar út á hálan ís lögfræðinnar er ómögulegt fyrir hann að skilja hvernig fjögurra orða breyting í eitt orð í lagagrein eigi sérstaklega við um skattbyrði eldri borgara búsettra erlendis. Í 70. gr. lið 2 er umrædd orðalagsbreyting áætluð, þar sem „að teknu tillit til persónuafsláttar“ verður fellt úr textanum og „án persónuafsláttar“ sett í staðinn. Engar nánari skýringar eru í lagatextanum eins og t.d. um að „aðeins er átt við þá sem eru búsettir erlendis“. Næsta setning fjallar um tekjuskatt eftirlauna- og lífeyrisþega sem um ræðir, en það eru „allir menn sem njóta frá íslenskum aðilum, eða föstum starfsstöðvum hér á landi, launa fyrir störf, þar með talin stjórnar-, endurskoðenda- eða nefndarstörf, eftirlauna, biðlauna, lífeyris, styrkja eða hliðstæðra greiðslna“. Jafnframt er ákveðið hjá hverjum tekjuskattsstofninn reiknast, þ.e. meðal annars hjá „þeim sem hafa verið heimilisfastir hér á landi allt tekjuárið“ og væntanlega þeim sem eru búsettir í EU-ríki og notið hafa persónuafsláttar hingað til. Lagabreytingin missir marks nema ætlunin sé að svipta alla eldri borgara persónuafslætti. Seinni setningar málsgreinarinnar fjallar um ráðstöfun ónýtts persónuafsláttar og hvernig hann er millifæranlegur milli hjóna séu bæði eftirlaunaþegar eða lífeyrisþegar. Spunaþráður þessarar lagabreytingar er jafn ósýnilegur og nýju fötin keisarans.

Erlendum hampað með skattleysi, íslenskum refsað með skattahækkun

Hvaða tilgangi þjónar þessi skattheimtubreyting? Nýlega var sagt frá í fréttum að aðstandendum sjónvarpsþáttanna True Detective hafi verið hampað með rúmlega 4 milljarða endurgreiðslu af skattgreiðslum vegna kostnaðar við myndatöku seríunnar á Íslandi. Við vitum ekki hvað það mun kosta íslenska skattgreiðendur að hampa sýrlenskum flóttamönnum sem eru á Íslandi, með fjölskyldusameiningum frá Gasa til Íslands. Sjá þarf þessu ágæta fólki farborða í næstu framtíð. Meiningin er einnig að íslenskir gamlingjar sem hafa fært sig um set til að eiga betri elliár en þeim býðst á Íslandi og (óafvitandi) aðrir eftirlauna- og lífeyrisþegar sem búsettir eru á Íslandi, verði hverjum og einum refsað með hækkun skattbyrði um 800 þúsund krónur frá og með næstu áramótum. Gerningar í skjóli illa ígrundaðra laga frá Alþingi. Skilaboðin eru skýr, ef þú ert erlendur aðili er þér hampað, ef þú ert íslenskur ríkisborgari (á gamalsaldri) er þér refsað.

Siðlaus aukin skattbyrði

Þingmenn og ráðherrar úr Sjálfstæðisflokki þreytast ekki á að boða skattalækkanir, en úr ráðuneyti sem þeir stjórna kemur þessi siðlausa aukna skattbyrði á eftirlauna- og lífeyrisþega. Hver ræður ferð er erfitt að átta sig á. Þeir í fjármálaráðuneytinu gera ekki ráð fyrir að breytingin hafi mikil fjárhagsáhrif í för með sér. Varla meiri en t.d. ef tekin væri sú absúrdákvörðun að svipta alla íbúa +16 ára í Grindavík persónuafslætti, vegna þess að ríkissjóður ætlar að kaupa húseignir þeirra.

Höfundur er á eftirlaunaaldri.

Höf.: Sigurður Garðarsson