[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undankeppni Músíktilrauna lauk á miðvikudag þegar keppt var um tvö síðustu sætin í úrslitunum og í dag kl. 17 er komið að úrslitunum í Hörpu. Alls kepptu 43 hljómsveitir að þessu sinni og tíu etja kappi saman í dag

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Undankeppni Músíktilrauna lauk á miðvikudag þegar keppt var um tvö síðustu sætin í úrslitunum og í dag kl. 17 er komið að úrslitunum í Hörpu. Alls kepptu 43 hljómsveitir að þessu sinni og tíu etja kappi saman í dag. Chögma, Cloud Cinema, Eló, Flórurnar, Frýs, Slysh, Social Suicide, Tommi G, Vampíra og Þögn. Átta hljómsveitir komust áfram í undankeppninni, tvær á hverju kvöldi, en dómnefnd valdi síðan tvær hljómsveitir úr undankeppninni til að fylla tuginn.

Hljómsveitirnar sem keppa í dag eru flestar af höfuðborgarsvæðinu en Chögma er ættuð að austan, frá Neskaupstað, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði, Slysh er úr Hveragerði og Eló og Þögn eru frá Vestmannaeyjum. Tónlistin er líka býsna fjölbreytt, ef vitnað er í gagnrýnanda Morgunblaðsins, Arnar Eggert Thoroddsen, sem lýsir því svo:

Þögn: „Tveir bassaleikarar og vel gróft, pönkað rokk.“ Frýs:
„…hefðbundið popprokk.“ Flórurnar: „… settið þeirra var eins og hrein þriggja stiga karfa lengst utan af velli.“ Eló: „Tónlistin eins og hún lýsir sjálf, lágstemmd og hugljúf, og söngvaskáldageirinn undir.“ Cloud Cinema: „Cloud Cinema lék djass ... spilamennska geirnegld.“ Tommi G.: „Gotabundin raftónlist með ofsapoppstilvísunum.“ Slysh: „Pönkað glysrokk glumdi úr mögnurum, gíturum og af trommusetti og ekki síst úr munni söngvarans.“ Vampíra: „Unglingspiltar að spila „stemningslegið“ („atmósperískt“) svartþungarokk eins og enginn væri morgundagurinn.“ Chögma: „Neskaupstaðarrokk og nánast ekki hægt að lýsa því.“ Social Suicide: „... hrátt pönkrokk, lóðbeint af kúnni.“