Avram Grant man tímana tvenna í knattspyrnunni.
Avram Grant man tímana tvenna í knattspyrnunni. — AFP/Sia Kambou
Ísland er smáþjóð en býr að mjög góðum leikmönnum. Ég dáist að karakter þeirra og viljastyrk.

Ekki er flókið að gera sér í hugarlund vonbrigði hinnar sparkóðu þjóðar Ísraels með þá staðreynd að þeirra mönnum hefur ítrekað mistekist að komast á lokamót HM og EM gegnum tíðina. Ekki heldur að aðdáendurnir, einkum þeir yngri, séu orðnir hundleiðir á að hlusta á gamlar sögur um fyrsta og eina skiptið sem Ísrael var með á stórmóti – HM í Mexíkó 1970.

Hvað sem því líður er áhugavert frá sjónarhóli okkar sem hlutlaus erum að heyra þá sögu, einkum ef sögumaðurinn þekkir hana af eigin raun, það er hinn 68 ára gamli Avram Grant.

„Ég mun aldrei gleyma undankeppnisleikjunum gegn Ástralíu sem skiptu sköpum árið 1969, en á þeim tíma var Ísrael í Asíu- og Eyjaálfuriðlinum. Ég var 14 ára og man að fyrir fyrri leikinn mætti ég á völlinn þremur tímum áður en flautað var til leiks. Leikurinn var háður á gamla Ramat Gan-vellinum sem 50 þúsund manns smekkfylltu. Við unnum 1:0 með marki frá Giora Spiegel úr aukaspyrnu. Ég réði mér ekki fyrir kæti og gat ekki beðið eftir seinni leiknum, sem fór fram tíu dögum síðar. Ég ætlaði að horfa á hann í sjónvarpinu en þegar á hólminn var komið gat ég það ekki, þar sem ég þurfti að vera í skólanum. Vegna mikils tímamismunar fór leikurinn fram að morgni dags í Ísrael og kennararnir tóku ekki í mál að gefa okkur tveggja tíma frí. Ég dó þó ekki ráðalaus, heldur hlustaði á lýsinguna í litla útvarpstækinu mínu. Það gekk ágætlega í ljósi þess að ég þurfti að sjálfsögðu að fela tækið fyrir kennaranum. Staðan var 0:0, sem hefði nægt okkur til að komast áfram, þangað til seint í leiknum, að Mordechai Spiegler skoraði, tíu mínútum fyrir leikslok. Þá stökk ég á fætur og fagnaði með herópi. Allir hinir nemendurnir í stofunni gerðu slíkt hið sama. Og ég sem hélt að ég væri sá eini með falið útvarpstæki í tímanum,“ rifjar hann upp hlæjandi.

Kennaranum brá

„Kennaranum brá en róaði okkur niður. Ástralía jafnaði á 88. mínútu og fékk svo færi til að skora sigurmarkið en markvörðurinn okkar, Itzak Vissoker, varði. Lokatölur urðu 1:1 og við vorum komin á HM. Á því augnabliki hygg ég að ég hafi verið sælasta barn í heimi.“

Enda þótt HM-ævintýri Ísraels hafi lokið strax eftir riðlakeppnina gátu menn snúið sperrtir heim frá Mexíkó. Þeir töpuðu 0:2 fyrir Úrúgvæ, gerðu 1:1 jafntefli við Svía og markalaust jafntefli við Ítali sem áttu eftir að leika til úrslita á mótinu gegn Brasilíumönnum.

Aðeins einu sinni, 20 árum síðar, var Ísrael nærri því að komast aftur á HM en liðið laut í lægra haldi gegn Kólumbíu í umspilsleik milli álfa (0:1 úti og 0:0 heima). Þá vegnaði Ísrael einnig vel í undanrásum HM 2006. Þá var liðið, undir stjórn Avrams Grants, í erfiðum riðli ásamt Frakklandi, Sviss, Írlandi og fleirum. Ísraelar luku keppni taplausir í þriðja sæti, jafnir Sviss að stigum og rétt misstu af sæti í umspilinu. Eftir að hafa færst yfir í Evrópuriðlana snemma á tíunda áratugnum hefur Ísrael aðeins einu sinni verið nálægt því að komast á lokamót EM. Það var EM 2000 en þeirri vegferð lauk á hryggilegan hátt með tveimur stórum töpum gegn Dönum (0:5 heima og 0:3 í Kaupmannahöfn).

En aftur til okkar daga. Ísrael gekk frekar illa í undanriðli sínum fyrir EM 2024. Liðið hlaut ekki nema 15 stig og endaði í þriðja sæti á eftir Rúmeníu og Sviss en á undan Hvíta-Rússlandi, Kósóvó og Andorra. En þökk sé því að það vann riðil sinn í B-deild Þjóðadeildarinnar, sem einnig innihélt Ísland og Albaníu, fékk það tækifæri til að berjast um farseðil á EM 2024. Eins og þið munið ábyggilega lauk báðum leikjunum við Ísland 2:2. Til að gera langa sögu stutta var frammistaða Ísraels og úrslitin ekkert til að hrópa húrra fyrir en eigi að síður kýs Avram Grant að einblína á það jákvæða í leik liðsins.

„Þetta er ungt lið sem ber sig ágætlega í núinu og á bjarta framtíð fyrir höndum. Undanfarin tvö ár hefur Ísrael gengið prýðilega á yngri mótum [annað sæti á EM 19 ára, þriðja sæti á HM 20 ára og komst í undanúrslit á EM 21 árs, innskot blm.]. A-landsliðið nýtur þegar góðs af þessu, þar sem nokkrir ungir leikmenn eiga þar nú fast sæti. Þannig að allt er á réttri leið. Yossi Benayoun, hinn nýi yfirmaður knattspyrnumála, og þjálfarinn Alon Hazan eru að vinna gott starf. Ég þekki Hazan mjög vel. Hann lék undir minni stjórn í fimm ár [meðan Grant þjálfaði Hapoel Petah Tikva, innskot blm.]. Hann var fínn leikmaður með mikla hæfileika. Ég kann líka að meta nálgun hans sem þjálfara og áhersluna á uppbyggilegan fótbolta. Hann vill SPILA fótbolta. Hann stóð sig vel með 21 árs-liðið og ég er ekki í vafa um að hann mun gera góða hluti með A-landsliðið líka.“

Grant vill ekki tilgreina einstaka leikmenn en ykkur til fróðleiks eru leikmennirnir sem gengið hafa upp úr yngri landsliðunum eftirfarandi: Leikstjórnandinn Oscar Gloukh (19 ára) frá Red Bull Salzburg, hægri útherjinn Anan Khalaily (19) frá Maccabi Haifa, miðvörðurinn Stav Lemkin (20) frá Shakhtar Donetsk og vinstri bakvörðurinn Roy Revivo (20) og miðherjinn Dor Turgeman (20), báðir frá Maccabi Tel Aviv.

En þegar ég nefndi Eran Zahavi, sem augljóslega er aftur kominn í toppform – þessi tæknilega frábæri miðherji Maccabi Tel Aviv skoraði tvisvar í 4:1-útisigri gegn Olympiacos í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar á dögunum – steingleymdi Grant þeirri reglu sinni að nefna ekki nöfn.

„Zahavi er frábær leikmaður. Fyrir utan tímann á Ítalíu hefur hann verið stórkostlegur fyrir liðin sem hann hefur leikið með; og svo að sjálfsögðu landsliðið. Það er vel að hann sé snúinn aftur í landsliðið og það gleður mig að hann sé í svona góðu formi. Það er hins vegar synd og skömm að við skulum verða án Manor Solomon [útherja Tottenham, innskot blm.] en vitað var að hann yrði lengi frá vegna alvarlegra meiðsla.“

Beðinn um að fara yfir helstu styrkleika Ísraelska liðsins færist Grant undan.

„Þú getur ekki ætlast til þess að ég fari að ræða við fjölmiðla um styrkleika og veikleika liðsins okkar! Færi ég út í þá sálma gæti ég verið að hjálpa andstæðingunum.“

Vitaskuld eru mikilvægari hlutir í þessu lífi en fótbolti. Ekki síst fyrir Ísrael, þegar við höfum í huga þá hræðilegu atburði sem hafa og eru að eiga sér stað, stríðið gegn Hamas, gíslatökuna, hörmulegt ástandið á Gasa ... Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort leikmenn ísraelska landsliðsins séu þess umkomnir að ýta öllu þessu til hliðar og einbeita sér að leiknum? Grant virðist ekki í vafa um að svo sé.

Klárir í slaginn

„Ég er sannfærður um að leikmenn okkar séu klárir í slaginn. Ég hugsa meira að segja að eftir allt sem á undan er gengið verði þeir staðráðnir í að leika vel og vinna sigur. Þeir munu finna sérstakan hvata vegna gíslanna, til að fá þá til að brosa, auk þess sem þeir munu leika fyrir fórnarlömb og þá sem lifðu af hræðilegt blóðbaðið sem Hamas ber ábyrgð á.“

Þrátt fyrir allar hörmungarnar heima fyrir gæti árið 2024 orðið sögulegt fyrir ísraelska knattspyrnu. Í sumar mun landsliðið taka þátt í Ólympíuleikunum í París og í haust mun það reyna sig við þjóðir á borð við Frakka, Ítali og Belga í A-deild Þjóðardeildarinnar. Allt er þegar þrennt er segir máltækið og stuðningsmenn liðsins vonast að sjálfsögðu einnig til þess að það komist á EM.

Ísland er fyrsta ljónið á veginum. Spurður um leikinn í Búdapest kveðst Avram Grant bera mikla virðingu fyrir íslenskri knattspyrnu.

„Ísland er smáþjóð en býr að mjög góðum leikmönnum. Ég dáist að karakter þeirra og viljastyrk. Það er ekki sjálfgefið að svo fámenn þjóð sé samkeppnisfær á alþjóðavettvangi. Vegna starfs mín í Sambíu hef ég ekki náð að fylgjast nógu vel með íslenska liðinu undanfarið en sá á hinn bóginn báða leikina gegn Ísrael í Þjóðadeildinni fyrir tveimur árum. Ég fylgdist betur með liðinu fyrir nokkrum árum þegar menn byrjuðu að styrkja innviðina og lögðu höfuðáherslu á menntun þjálfara. Það verkefni gæti orðið mörgum öðrum þjóðum fyrirmynd, ekki bara þeim smæstu. Landsliðið naut augljóslega góðs af þessu.“

Maður hefur á tilfinningunni að Grant sé ekki sérstaklega vel upplýstur um lið Íslands í dag en það er ósköp eðlilegt í ljósi þess að hann hefur einbeitt sér að starfinu í Sambíu, auk þess sem hann hefur starfað utan Evrópu undanfarin tíu ár. Spurður um persónulega reynslu og minningar af íslenskum leikmönnum eða liðum á Grant ekki margar.

„Að því er ég best man hef ég aldrei þjálfað Íslending. [Eiður Smári] Guðjohnsen var farinn frá Chelsea þegar ég kom þangað. Einu sinni mætti ég Keflavík í Evrópukeppni bikarhafa. Vindurinn var svo stífur að þegar markvörðurinn spyrnti frá marki fékk hann knöttinn hér um bil aftur í fangið,“ segir hann hlæjandi. „Muni ég rétt unnum við 2:1 og komumst áfram [þetta var veturinn 1994-95 og Maccabi vann heimaleikinn 4:1, innskot blm.]. Ég heimsótti Ísland líka einu sinni í einkaerindum og landið er í senn fallegt og áhugavert, einkum að sumri.“

En hvernig metur Avram Grant viðureign Íslands og Ísraels og hvernig henta liðin hvort öðru sem mótherjar?

„Ég sé ekki betur en að möguleikarnir séu nokkuð jafnir. Ef til vill búa ekki sömu gæði í íslenska liðinu í dag, eins og til dæmis liðinu sem lék á EM 2016, en í einum stökum leik getur allt gerst. Mögulega hefur ísraelska liðið smá forskot vegna þess að það er í toppleikæfingu, en margir úr íslenska liðinu leika með liðum á Norðurlöndunum, þar sem vetrarfríið er langt. En það er ekkert til að stóla á. Í svona leik er hvorugt liðið sigurstranglegra og betra liðið vinnur ekki alltaf. Þannig lékum við, þegar ég var með ísraelska liðið, tvo leiki við Frakka í undankeppni HM 2006, þegar þeir voru með kappa á borð við Henry, Pires og Vieira, en báðum leikjum lyktaði með jafntefli. Leiknum í París lauk 0:0. Seint í leiknum hefðum við getað skorað sigurmarkið en gátum ekki fært okkur skyndisókn í nyt, þrír gegn einum. Heimaleikurinn fór 1:1 en við áttum skilið að vinna, skutum bæði í stöng og þverslá. Hvað sem því líður á ég von á erfiðum leik en trúi á sigur Ísraels.“

Höf.: Vladimir Novak