Pása Síldarstúlkur í kaffipásu. Myndin er ekki tekin á Siglufirði 1925, heldur á sjötta áratugnum á Húsavík.
Pása Síldarstúlkur í kaffipásu. Myndin er ekki tekin á Siglufirði 1925, heldur á sjötta áratugnum á Húsavík. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1925 „Ánægjustund er það í herbúðum Bolsa, er þeir sjá slíkan ávöxt af boðskap sínum.“ Leiðarahöfundur Morgunblaðsins.

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Síldarútgerðarmönnum á Siglufirði barst laugardagskvöldið 18. júlí 1925 undirskrifað skjal frá 375 síldarstúlkum, þar sem þær boðuðu verkfall kl. 12 daginn eftir, ef þær fengju ekki eina krónu fyrir að salta tunnuna. Útgerðarmenn héldu fund með sér og kusu fimm manna samninganefnd og var Ásgeir Pjetursson formaður hennar. Buðu útgerðamenn 85 aura fyrir að salta tunnuna, en samningar ákváðu 75 aura. „400 síldarstúlkur halda nú fund og ræða málið. Getur þetta haft hinar alvarlegustu afleiðingar, ef eigi næst samkomulag bráðlega. Í dag er engin síld,“ stóð í einkaskeyti til Morgunblaðsins.

Nóttina eftir komu nokkur skip inn með síld, samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið aflaði símleiðis. Eitt af skipum S. Goos kom inn með 500 tunnur. „Stúlkur þær sem hjá honum voru ráðnar mættu allar á staðnum til vinnunnar. Lofaði hann þá að þeim yrði goldið það kaup sem alment yrði komið sjer saman um, þegar nýir samningar kæmust á,“ stóð í frétt blaðsins.

Þótti ekki nóg

En þetta þótti stallsystrum þeirra ekki nóg. Fjölmenntu þær á söltunarplássið og fengu nokkra karlmenn sér til aðstoðar. Þær aðvífandi voru um 200. „Gerðist nú hark mikið og gauragangur, hróp og sköll. Var meðal annars æpt hástöfum: „Niður með auðvaldið“, og annað í þeim tón. Með ofbeldi var söltunarstúlkum varnað að salta. Sumar sátu svo fast við sinn keip að vinna varð þeim ekki vörnuð fyrr en þær voru teknar með valdi og þær bornar burtu,“ sagði Morgunblaðið.

Gekk í þessu þjarki mikinn hluta nætur. Næsta dag komu 15 til 16 hundruð tunnur af síld til Siglufjarðar og fékkst söltun á þeim öllum. En það mun hafa orðið með því móti að útgerðarmenn höfðu búist við að gengið yrði að kaupkröfunni að gjalda eina krónu fyrir söltun tunnunnar.

Rétt áður en símanum var lokað að kvöldi 20. júlí sannfrétti Morgunblaðið að allir síldarútgerðarmenn á Siglufirði myndu framvegis greiða eina krónu fyrir tunnuna við söltun síldar. Svo virðist sem lokað hafi verið fyrir símann að næturlagi á þessum tíma.

„Hjer skal enginn dómur á það lagður hvort 75 aura kaupið var ósanngjarnlega lágt,“ stóð í forystugrein blaðsins. „En fremur virðist manni það vera sæmileg borgun, þar eð handfljótar og vanar stúlkur fá með því kaupi um og yfir 3 krónur á klst. Eins og fregnir frá Siglufirði herma […] sáu þær alt í einu sjer ekki fært að vinna fyrir það kaup. – Fjórar til fimm krónur þurfa þær hjeðan í frá að fá á klukkustund fyrir að vinna við síldarsöltun. Og síldarútgerðarmenn hafa gengið að því eða ætla að ganga að því, að greiða þetta kaup.“

Ritstjórar Morgunblaðsins á þessum tíma voru tveir, Jón Kjartansson og Valtýr Stefánsson.

Að dómi blaðsins var kaupið, ein króna eða 75 aurar, ekki aðalatriði málsins. Hins vegar önnur hlið sem kæmi öllum almenningi við, og hverju einasta mannsbarni í þessu landi. „Á Siglufirði eru ráðin nokkur hundruð kvenmanna. Gerðir eru samningar um ákveðið kaup. – Gildir það einu hvort hátt er eða lágt. Báðir aðilar hafa gengið að samningunum. Enginn veit annað en verkakonur sjeu ánægðar með það kaup, sem ákveðið er. Enginn hefir hugmynd um að nokkur óánægja eða vandræði sjeu í aðsígi. Síldarútgerðin á Siglufirði er með allra mesta móti. Hafa útgerðarmenn lagt sig fram til þess á alla lund að láta síldina ekki ganga úr greipum sjer í ár. Þeir hafa lagt mikið í hættu til þess að afla stúlkunum atvinnu, er í landi bíða og samið hafa um 75 aura kaup fyrir söltun tunnunnar.“

Ganga á gefin loforð

Allt í einu var von á því, að sögn Morgunblaðsins, að síld færi að veiðast í stórum stíl og útgerðarmenn fengju eitthvað sem um munaði upp í þann kostnað, sem þeir höfðu lagt fram – í útgerð, dagpeninga og annað. „En þá skjóta stúlkurnar á fundi, þá samþykkja þær að salta enga tunnu fyrir umsamið kaup – samþykkja í einu hljóði að ganga í gerða samninga, ganga á gefin loforð, og snerta ekki á því verki, sem þær eru ráðnar til að gera.“

Leiðarahöfundi þótti tímasetningin engin tilviljun. Von væri á síld, og yrði hún ekki söltuð jafnóðum og hún kæmi í land, þá yrði hún útgerðarmönnum að miklu leyti ónýt. „Samningnum – loforðum kasta þær góðu verkakonur fyrir borð, og nota sjer augnabils nauðsyn vinnuveitenda á þann lúalegasta hátt. Það er þessi aðferð, þetta framferði, sem kemur almenningi við, hvar á landi sem er.“

Afleiðingarnar voru sagðar augljósar. „Enginn maður, með þetta fyrir augum, getur treyst á verkamann sinn. Þó menn ráði til sín fólk fyrir ákveðið kaup til ákveðinnar vinnu, þá geta menn hjeðan af búist við því, að verkafólkið hlaupi frá gerðum samningum, hvenær sem því þóknast.“

Vinnuveitendur varnarlausir

Leiðarahöfundi þótti ekki ólíklegt, eftir fordæmi Siglfirðinga að dæma, að vakna myndi tilhneiging til samningsrofa, einmitt þegar svo stæði á, að vinnuveitendur væru varnarlausir. „Ánægjustund er það í herbúðum Bolsa, er þeir sjá slíkan ávöxt af boðskap sínum. Glaður verður Hallbjörn [Halldórsson, ritstjóri Alþýðublaðsins] og Ólafur [Friðriksson, ritstjóri Alþýðublaðsins] og alt þeirra lið. Þeir hafa sannarlega ástæðu til þess. Þeir fengu því að vísu ekki framgengt í ár, að Samband ísl. samvinnufjelaga styrkti blað þeirra. Í ár verður peningum bænda eigi varið til þess að útbreiða boðskapinn um „hágöfugt“ hlutverk samningsrofanna. Ennþá geta þeir ekki sýnt það svart á hvítu að fje bændanna sje notað til þess að grafa allan grundvöll undan verkafólkshaldi í landinu. En aðferð þeirra hefir fest rætur í sjóplássunum. Hún er notuð á Siglufirði nú. Og hver veit hve lengi íslenskir bændur geta treyst því, að verkafólkið svíki þá ekki þegar mest á ríður.“

Morgunblaðið var á því að ennþá væri mikill meirihluti íslensks verkafólks og íslenskrar alþýðu öðruvísi sinnaður en Siglfirðingarnir. „En alt tekur sinn tíma. Og hver veit hvenær Bolsar ráða í sveitunum. Hefir einn helsti frumherji jafnaðarmanna hjer á landi og samherji Ólafs Friðrikssonar, Jónas frá Hriflu, ekki ferðast um sveitirnar nú undanfarið á kostnað bænda? Er hann ekki enn í bændaflokknum? Jú, sannarlega. Þeir Ólafur Friðriksson og Hallbjörn og allir þeirra fjelagar geta átt sjer bjartar framtíðarvonir, ef íslenskir verkamenn svæfa hjá sjer alt velsæmi og sómatilfinningu og feta í fótspor Siglfirðinganna.“