Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon
Til að skapa betra samfélag þurfum við að fara eftir formúlum meistaranna.

Einar Ingvi Magnússon

Samkvæmt Vedafræðum Indverja, sem sumir kalla hindúatrú, lifum við á tímum sem kallast: Kali-Yuga. Þetta er tímabil deilna og hræsni, mannvonsku, illra verka, andlegs myrkurs og eymdar. Fólk á tímum Kali-Yuga, eða þrætualdar sem svo er stundum nefnd, á mjög erfitt með að skilja guðstrú og andleg málefni. Það er matað á ógrynni af gagnslausum upplýsingum, en engu sem raunverulega máli skiptir.

Kristur Jesús minntist einnig á hina síðustu daga við lærisveina sína og sagði um þá, að lögleysið myndi magnast og kærleikur alls þorra manna kólna.

Daníel spámaður kallaði þetta tímabil hörmungatíð, slíka sem aldrei hefði fyrr verið né verða myndi. Ritningarnar tala einnig um landskjálfta og hungursneyð sem þessum tímum fylgja.

Það vantar svo sem ekki háskólagráðurnar hjá áhrifamönnum nútímans, en virðist að litlu gagni koma til uppbyggingar betra samfélags, betri afkomu og kærleiksríkari samskipta.

Þurfum við ekki að setjast niður saman, tendra í friðarpípu við kertaljós og spyrja okkur hvað raunverulega skipti máli í lífi okkar mannanna?

Í Prédikaranum 12:13 er ritað: „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ Við getum vitað hver boðorð alföður og almóður alheimsins eru með því að lesa heilagar ritningar.

Míka spámaður sagði: „Hvers krefst Drottinn annars af þér, en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum.“ (Míka 6:8)

En það þarf auðmýkt til að taka við boðskap æðri máttar og fara eftir honum. Ekki hlaupið að því á tímum Kali-Yuga.

Til að skapa betra samfélag ber okkur að fara eftir formúlu meistarans, sem sagði lærisveinum sínum: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12) Ef við færum eftir boðorðum og leiðbeiningum meistaranna myndum við skapa betra samfélag og búa afkomendum okkar betri heim.

Höfundur er áhugamaður um trúmál.