Qair á Íslandi ehf. hefur lagt fram umhverfismatsskýrslu vegna undirbúnings á framleiðslu rafeldsneytis á Grundartanga. Eins og fram hefur komið eru áform fyrirtækisins að byggja upp framleiðslu á grænu eldsneyti

Qair á Íslandi ehf. hefur lagt fram umhverfismatsskýrslu vegna undirbúnings á framleiðslu rafeldsneytis á Grundartanga. Eins og fram hefur komið eru áform fyrirtækisins að byggja upp framleiðslu á grænu eldsneyti. Framleiða á vetni með rafgreiningu og áframvinna það í ammoníak sem nýta megi sem orkugjafa og verði tiltækt í orkuskiptum á sjó og landi í framtíðinni.

Alls á að framleiða um 750 þúsund tonn og er fyrirhugað að framleiðslan verði byggð upp í þremur áföngum sem hver um sig hafi um 250 þúsund tonna framleiðslugetu af ammoníaki.

Þegar matsáætlun verkefnisins var lögð fram voru settir fram þrír valkostir, þ.e. vetnisframleiðsla með áframvinnslu á ammoníaki, metanóli eða metan. Nú hefur verið ákveðið að fjalla ekki um valkostinn að framleiða metanól eða metan og er í umhverfismatinu fjallað um einn valkost fyrir þrjá áfanga framleiðslunnar þar sem framleitt verði vetni með áframvinnslu á ammoníaki.

„Stefnt er að því að fyrsti fasi framleiðslunnar verði gangsettur árið 2028. Annar fasi verði gangsettur árið 2031 og þriðji fasi árið 2034, með fyrirvara um nægilegt framboð af orku á samkeppnishæfu verði og að uppbygging raforkuflutningskerfis verði í samræmi við áætlanir sem liggja fyrir,“ segir í umhverfismatsskýrslunni. Orkuþörfin er 280 MW fyrir hvern áfanga. Reisa þarf byggingar á svæðinu sem flestar verða 10-20 metra háar en hæsta mannvirkið, um 60 metra hár turn, mun standa á vesturenda lóðarinnar.

Reiknað er með að þegar mest er starfi um 350 manns við framkvæmdirnar en að jafnaði um 150-200, og þegar framleiðsla hefst er reiknað með að um 40-50 manns starfi við fyrsta áfanga og að fjöldi stöðugilda við fullbyggða framleiðslu verði um 120-150 manns.

Í niðurstöðu matsins segir m.a. að áhrif á loftgæði séu metin „óverulega neikvæð og starfsemin er í samræmi við ákvæði í Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar um að ný starfsemi á Grundartanga losi ekki tiltekin mengunarefni í andrúmsloft. Losun er fyrst og fremst hreint súrefni og er því ekki líkleg til að fara yfir viðmiðunarmörk fyrir loftgæði.“ Mannvirkin komi til með að vera áberandi í landslaginu. omfr@mbl.is