— A24
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mig langar að reyna á þanþol þitt,“ segir Lou, ung kona sem rekur líkamsræktarstöð, við ástkonu sína, Jackie, í kvikmyndinni Love Lies Bleeding. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart í ljósi þess að sú síðarnefnda leggur stund á og keppir í vaxtarrækt

Mig langar að reyna á þanþol þitt,“ segir Lou, ung kona sem rekur líkamsræktarstöð, við ástkonu sína, Jackie, í kvikmyndinni Love Lies Bleeding. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart í ljósi þess að sú síðarnefnda leggur stund á og keppir í vaxtarrækt. Hversu langt má þrýsta henni? Myndskýrendur hafa einnig metið það svo að leikstjórinn, Rose Glass, sé um leið að ávarpa áhorfandann enda tekur hún formið, gamla góða tryllinn, víst til kostanna í myndinni. Blóð ku slettast upp um alla veggi og viðbjóðurinn hvergi sparaður – enda persónurnar útbólgnar af sterum.

Glass sýndi strax í sinni fyrstu mynd, Saint Maud frá 2022, að hún er ekki kona málamiðlana. Þar var hryllingurinn í öndvegi en Love Lies Bleeding er á hinn bóginn skilgreind sem rómantískur spennutryllir. Sögusviðið er Nýja-Mexíkó undir lok níunda áratugarins. Ofsafengið ástarsamband aðalpersónanna, Lou og Jackie, leiðir þær út á háskalegar brautir ofbeldis og glæpa. Sem í tilviki Lou er ekki langsótt enda fjölskylda hennar lítið fyrir að vinna sín verk fyrir opnum tjöldum. Þar er fremstur meðal jafningja faðir Lou, sem einnig heitir Lou, leikinn af Ed Harris sem lofar svo sannarlega góðu, ef marka má stikluna, með ofurlítið ýkta Óttars Proppé-klippingu. Er það ekki líka aðeins tilfinningalega truflandi að faðir skuli láta skíra dóttur sína í höfuðið á sjálfum sér? Lái þeim stöllum, Lou og Jackie, hver sem vill að þær skeri upp herör og gangi í skrokk á feðraveldinu.

Gagnrýnandi vefsíðu BBC segir leikarana hvern upp af öðrum löðrandi í töfrum, þar á meðal Kristen Stewart sem fer með hlutverk Lou yngri, en Katy O’Brian, sem leikur Jackie, beri þó af. „Það er ekki á hverjum degi sem leikkona í rómantískri kvikmynd tekur svo mikið pláss,“ segir gagnrýnandinn og vísar þar í holdlegt atgervi leikkonunnar. „Enda þótt hún sé eins mjúksnjáldra og Maria Schneider líkjast limir hennar stólpum og skuggamynd hennar er tröllaukin. Það tók O'Brian, sem áður æfði blandaðar bardagaíþróttir, um tíu vikur að skapa þetta útlit. Vöðvarnir eru með öðrum orðum ekta.“

Vön að æfa eins og skepna

Í samtali við tímaritið W segir O’Brian að sér hafi verið ljúft og skylt að æfa eins og skepna með einkaþjálfara fyrir hlutverkið. Það hafi hún oft gert áður, meðan hún lagði af kappi stund á vaxtarrækt. Raunar viðurkennir hún að hafa fundið fjölina sína í því ágæta sporti sem á sama tíma leiddi hana út í leiklist. „Sjálfstraustið jókst, mér fór fram sem leikara og ég fékk þá flugu í höfuðið að draumar mínir væru innan seilingar,“ segir hún.

Þegar O’Brian, sem sjálf er samkynhneigð, frétti fyrst að Glass ætlaði að gera hinsegin kvikmynd um vaxtarræktarsenuna í áttunni gerðist hún djörf og tísti á Twitter, sem þá var og hét: „Ég er laus!“ Hana blóðlangaði í hlutverkið. „Auðvitað leið mér aðeins kjánalega en vogun vinnur, vogun tapar,“ segir hún við W. O’Brian þurfti að sjálfsögðu að mæta í prufu en án tístsins er óvíst að það hefði gerst.

Andlega kveðst hún á augabragði hafa tengt við Jackie og skynjað hvernig henni átti að líða á hverjum tíma í myndinni. Sitthvað sé þó ýkt í framvindunni og þá hafi bæði Larry Moss, leiklistarþjálfari hennar, og Glass sjálf reynst betri en enginn. „Rose var æðisleg og sagði gjarnan: Í þessari senu viljum við hafa þetta stórt og mikið – ég meina risastórt og mikið,“ segir O’Brian.

W spyr um margslungið samband aðalpersónanna og hvernig þær hafi nálgast það. O'Brian svarar: „Kristen, Rose og ég samlásum og fórum yfir hverja og eina senu, takt fyrir takt. Þegar kom að því að leika senurnar treystum við hvor á aðra. Þarna er meðal annars sena þar sem við ýtum bíl fram af hengiflugi og Lou fleygir Molotov-kokteil á eftir honum. Hann sprakk í raun og veru með óhljóðum og eldtungan reis upp. Hver þremillinn, hugsuðum við, og mér varð litið á Kristen sem skellihló meðan ég var í áfalli. Það var geggjað að sjá viðbrögð hennar, sem ég hefði alls ekki búist við.“

Hinsegin-kóðuð?

Lesbísk pör eru ekki oft í forgrunni í hasarmyndum og W spyr O’Brian hvaða þýðingu það hafi.

„Ég fæ yfirleitt viðbrögð við hlutverkum mínum vegna þess að ég virðist vera hinsegin-kóðuð, ef svo má að orði komast. Sérstaklega fékk ég á baukinn þegar ég var í Stjörnustríði. „Hvernig dirfist þið að bjóða upp á hinsegin persónu í Stjörnustríði“ og þar fram eftir götunum. Og ég sem gerði ekki nokkurn skapaðan hlut sem gat talist hinsegin. Satt best að segja velti ég þessu ekki mikið fyrir mér, vegna þess að fólki mun bara finnast það sem því finnst. Von mín er eigi að síður sú að einhverjum finnist þeir eða þær vera sýnilegar og eigi sér fulltrúa á tjaldinu [í Love Lies Bleeding]. Ekki á einhvern ofbeldisfullan, eitraðan hátt – frekar að fólk upplifi kvikmynd um ýmislegt annað, ekki bara það að vera hinsegin. Ég er í öllu falli sjálf komin á þann stað og vonandi skilar þessi mynd okkur fram veginn.“

Kristen Stewart talaði á svipuðum nótum á kynningarfundi með blaðamönnum fyrir skemmstu. „Við verðum að hætta að klappa hvert öðru á bakið og finnast við hafa unnið okkur inn fyrir smáköku með því að skapa rými fyrir jaðarsettar raddir, þegar þær tala aðeins um það eitt. Við höfum öll verið hérna allan tímann og ég held að sá tími að hinsegin mynd sé bara hinsegin mynd sé liðinn.“

Var áður í löggunni

Katy O’Brian fæddist í Indianapolis 12. febrúar 1989 og er því nýorðin 35 ára. Hún heillaðist ung af bardagaíþróttum, svo sem karate og hapkido, auk þess sem hún æfði um tíma vaxtarrækt. O’Brian vann um sjö ára skeið sem lögreglumaður í Carmen, Indiana, áður en hún sneri sér alfarið að leiklistinni.

Hún kom fram í sinni fyrstu kvikmynd 2012 en O’Brian hefur mest leikið í stuttmyndum. Hlutverkið í Love Lies Bleeding er hennar langstærsta á hvíta tjaldinu til þessa. Í sumar verður hún í hamfaramyndinni Twisters. O’Brian hefur hins vegar talsvert látið að sér kveða í sjónvarpi, í myndaflokkum á borð við The Mandalorian, Z Nation og Agents of the S.H.I.E.L.D.

O’Brian býr ásamt eiginkonu sinni, Kylie Chi, í Los Angeles.