„Ég verð að gefa mig alla svo ég geti gert almennilegt málverk,“ segir listakonan Rut Rebekka.
„Ég verð að gefa mig alla svo ég geti gert almennilegt málverk,“ segir listakonan Rut Rebekka. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Myndlistarkonan Rut Rebekka Sigurjónsdóttir verður áttræð nú í mars. Í tilefni afmælisins er vegleg yfirlitssýning á verkum hennar á Hlöðulofti SÍM á Korpúlfsstöðum. Þar eru um 150 verk, málverk og grafíkverk sem spanna allan feril hennar

Myndlistarkonan Rut Rebekka Sigurjónsdóttir verður áttræð nú í mars. Í tilefni afmælisins er vegleg yfirlitssýning á verkum hennar á Hlöðulofti SÍM á Korpúlfsstöðum. Þar eru um 150 verk, málverk og grafíkverk sem spanna allan feril hennar.

Rut Rebekka, sem er lærð hjúkrunarkona, var um fertugt þegar hún hélt fyrstu myndlistarsýningu sína. Hún segist ekki hafa sem barn litið á sig sem verðandi listamann. „Pabbi var mjög listrænn og flinkur teiknari og vildi verða listmálari en varð málarameistari. Foreldrar mínir skildu þegar ég var tveggja ára þannig að ég ólst ekki upp hjá pabba en við systkinin heimsóttum hann reglulega og þar sá ég nokkuð af myndum. Í æsku fannst mér gaman að teikna og fékk góða einkunn hjá Jóni Bros í Miðbæjarskólanum sem var fyrsti teiknikennarinn minn.

Ég fór í lýðháskóla í Svíþjóð og foreldrar herbergisfélaga míns tóku okkur báðar með í ferðalag um Evrópu. Ég fór með þeim á listasöfn í Kaupmannahöfn, París, London og Amsterdam og þá kynntist ég þessum stórkostlegu listamönnum heimsins Van Gogh, Vermeer, Turner og öllum hinum.“

Svaraði kalli

Blaðamaður spyr Rut Rebekku af hverju hún hafi á sínum tíma ákveðið að leggja fyrir sig hjúkrun. „Ég átti fatlaðan bróður sem var stöðugt veikur. Það lá beint við að ég færi í hjúkrun. Enginn sagði mér það, en umhverfið litaðist af veikindum bróður míns og ég var með stöðuga sektarkennd vegna þess að ég var ekki veik eins og hann. Mér fannst óréttlátt að hann fengi ekki að njóta lífsins meðan ég fengi það.

Það hafði líka áhrif á mig að vera í sveit hjá mjög góðri og yndislegri konu sem sagði að göfugasta starf í heimi væri að vera hjúkrunarkona. Ég vissi að í því starfi hefði ég örugga vinnu. Ég sé ekki eftir því að hafa farið í hjúkrun. Ég fór í Hjúkrunarkvennaskólann og bjó á heimavist þar sem voru strangar reglur. Fimm sinnum í mánuði máttum við vera úti lengur en til tólf. Í skólanum byrjaði ég að mála smávegis en þorði ekki að sýna neinum verkin.“

Eftir útskrift úr Hjúkrunarkvennaskólanum gifti Rut Rebekka sig og barneignir tóku við ásamt vinnu við hjúkrun. „Listin kallaði á mig og ég innritaði mig á myndlistarnámskeið en hætti eftir einn dag. Mér fannst að þetta væri eitthvað sem ég gæti ekki gert. Seinna fór ég á annað námskeið og það sama gerðist. Ég var hrædd við kennarann og fannst ég ekkert geta.

Þegar ég varð ólétt að þriðja barninu byrjaði ég að mála. Ég keypti mér bækur, How to Paint og fleiri í þeim dúr, og fór að mála og teikna. Eftir að barnið fæddist hélt ég á því og málaði. Mér leið alveg óskaplega vel. Eitthvað hafði gerst. Ég var að svara kalli. Mér varð ljóst að mig langaði til að feta þessa slóð. Ég vissi að ég ætti langt í land en ætlaði að gefa myndlistinni tækifæri. Ég fór aftur á námskeið og þá opnaðist myndlistarheimurinn fyrir mér og um leið opnaðist líka eitthvað í hjarta mér.

Fyrsti kennarinn var Sigfús Halldórsson og þegar hann sagði eitt sinn yfir hópinn meðan hann benti á mynd eftir mig: Hver málaði þessa mynd? þá hugsaði ég að kannski ætti ég möguleika á að verða myndlistarmaður.“

Leit að sjálfri sér

Rut Rebekka lauk myndlistarnámi frá Myndlista- og handíðaskólanum árið 1982. „Þegar ég var krakki voru svo að segja allar konur heimavinnandi, settlegar og vel klæddar. Síðan fór Rauðsokkahreyfingin að láta í sér heyra og þegar ég var í Myndlistarskóla Reykjavíkur var ég komin í mussu, brjóstahöldurum var hent og engar snyrtivörur settar á andlitið. Ég ætlaði mér ekki að vera sæt og fín,“ segir Rut Rebekka.

Hún hætti ekki að vinna sem hjúkrunarkona. „Ég var að ala upp börn á þessum tíma og sem hjúkrunarkona var ég mikið á kvöldvöktum og helgarvöktum svo ég hefði frið á virkum dögum þegar krakkarnir voru í skólanum.“

Fyrstu myndlistarsýningu sína hélt hún árið 1984. Einkasýningar hennar hér heima og erlendis eru fjölmargar og sömuleiðis samsýningar. Mörg verka hennar eru í opinberri eigu.

Konur eru afar áberandi í verkum hennar. „Ég var í ljósmyndakúrs í Myndlistarskólanum og fór um bæinn með myndavél. Í einni ferð kom ég auga á hattabúðina Hödd á Hverfisgötu og þar voru í útstillingu þessar gömlu gínur með hatta. Ég tók myndir af þeim og fór að mála konur með hatta. Konur sem voru fyrirmynd þegar ég var krakki en síðan var gerð uppreisn gegn.“

Af hverju málarðu konur en ekki karla? spyr blaðamaður og fær svarið: „Ætli það sé ekki bara leitin að sjálfri mér.“

Konurnar á myndum hennar eru oft dansmeyjar og hljóðfæraleikarar. „Tónlistin hefur togað mikið í mig og ég fór oft á tónleika. Ég sá alltaf hina sjónrænu fegurð, manneskjuna, hljóðfærið og einlægnina. Það spilar enginn vel nema hann gefi sig allan í list sína. Þetta minnir mig líka á það að ég verð að gefa mig alla svo ég geti gert almennilegt málverk.“

Glímir við sjóndepurð

Rut Rebekka hefur gefið úr eina ljóðabók, Málverk og ljóð. „Ég var með sýningu þegar ég var sjötug og þá fannst mér að ég þyrfti að gera eitthvað meira en myndirnar. Ég tók hvert og eitt málverk fyrir sig, stillti því upp, settist niður, horfði á verkið og leyfði ljóði að koma. Svo þýddi ég ljóðin á ensku og gaf út bók með myndum og ljóðum á tveimur tungumálum. Það hefur örugglega haft sín áhrif á ljóðin að á þessum tíma var ég að stunda jóga. Það er mikil sátt í jóganu sem ég held að hafi smitast inn í ljóðin, sem eru mjög mjúk.“

Rut Rebekka vinnur enn að list sinni, en glímir við sjóndepurð. „Ég hef ennþá mikla sköpunarþrá en er með augnbotnahrörnun. Ég þrjóskast við og get málað en það tekur lengri tíma en áður. Ég er löngu hætt að keyra bíl og get ekki lesið og þegar ég er að mála lendi ég í vandræðum með túpurnar því ég sé ekki hvort eitthvað kemur út úr þeim. Þetta tefur mig en ég læt ekkert stoppa mig.“