[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ökumenn sem í bríaríi leggja bifreið sinni næturlangt á einkastæðum Röntgen Domus við Egilsgötu 3 þurfa að greiða hátt í tíu þúsund krónur fyrir stæðið. Fyrirtækið skipti nýlega um þjónustufyrirtæki við stæðið og greiða notendur nú gjaldið í gegnum Parka-appið

Baksvið

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Ökumenn sem í bríaríi leggja bifreið sinni næturlangt á einkastæðum Röntgen Domus við Egilsgötu 3 þurfa að greiða hátt í tíu þúsund krónur fyrir stæðið. Fyrirtækið skipti nýlega um þjónustufyrirtæki við stæðið og greiða notendur nú gjaldið í gegnum Parka-appið.

Verðið er ekki gefið upp á skiltinu sem nýlega var sett upp, en á vef Parka kemur í ljós að fyrsta klukkustundin kostar 320 krónur og hver klukkustund eftir það 800 krónur.

Röntgen Domus skipti áður við Bílastæðasjóð en Sólveig Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Röntgen Domus, segir að fyrirtækið hafi viljað stýra nýtingu stæðanna betur og tryggja starfsfólki sínu og viðskiptavinum stæði á dagvinnutíma.

Því hafi verið ákveðið að kaupa þjónustu Parka. Áður voru stæðin í gjaldflokki 4 hjá Bílastæðasjóði og kostaði klukkustundin 220 krónur. Var gjaldskylda milli kl. 8 og 16.

Mikilvægt að bregðast við

„Starfsfólkið okkar þarf að geta lagt í þessi stæði þegar það kemur til vinnu á morgnana. Hér er risið stórt íbúðarhús á horni Snorrabrautar og Egilsgötu og það þarf að bregðast við því. Svo er mikilvægt að hafa stýringu á þessu,“ segir Sólveig og bendir á að stæðin séu á einkalóð Röntgen Domus.

Parka vaktar svæðið með myndavélaeftirliti, þar sem bílnúmeraplötur eru skannaðar á óreglulegum tímum yfir daginn.

„Við erum með eftirlit hjá okkur sem myndar með óreglulegu millibili á stæðinu og berum það saman við skráningar í appinu,“ segir Þorsteinn Guðjónsson framkvæmdastjóri Parka.

Ekki til að græða

Systurfélag Parka, My Parking, sér svo um innheimtu greiði notendur ekki fyrir stæðin sem þeir leggja í, yfirleitt með kröfu í heimabanka.

Þorsteinn segir eftirspurn eftir þjónustu Parka vera mikla og að fyrirtæki leiti til þeirra með ólíkar þarfir. Flest fyrirtæki séu þó að reyna að stýra nýtingu á stæðum betur, frekar en að reyna að græða pening.

„Flestir eru að reyna að stýra því að það séu laus stæði fyrir starfsfólk, viðskiptavini eða íbúa, það er að segja að stæðin nýtist eins og þeim er ætlað að nýtast,“ segir Þorsteinn.

Keðjuverkun?

Spurður hvort um sé að ræða keðjuverkun eftir að Reykjavíkurborg stækkaði gjaldskyldusvæðið og lengdi tímann sem gjaldskyldan er segir Þorsteinn já.

„Þetta gerist einmitt þannig. Það má líkja bílum við vatn. Þeir leita að farvegi, fríum stæðum. Um leið og einn lokar þá leita bílarnir í önnur frí stæði. Þá fara þeir sem eiga þau stæði að reyna að bjarga sér. Um leið og einn lokar þá fáum við fyrirspurn frá næstu tveimur,“ segir Þorsteinn.

Á vef Parka má sjá að fjöldi einkafyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu nýtir sér þjónustuna. Þannig er gjaldskylda við Barónsstíg 4, Borgartún 21, Fíladelfíukirkjuna, Geirsgötu 11, Grensásveg 1, Guðrúnartún 1, Hverfisgötu 18, Höfðatorg, Kirkjusand og Laugaveg 2.

Misháar upphæðir

Upphæðirnar sem ökumenn þurfa að greiða fyrir stæðin eru misháar. Á Hverfisgötu 18 kosta fyrstu tvær klukkustundirnar 800 krónur, hver klukkustund eftir það kostar svo 1.200 krónur. Gjaldskylda er allan sólarhringinn þar. Við Barónsstíg 4 þurfa ökumenn að greiða 1.000 krónur fyrir hverja klukkustund, allan sólarhringinn.

Á sumum stæðum er mun ódýrara að leggja bílnum yfir nótt. Til dæmis kostar klukkustund yfir nóttina við Laugaveg 3 aðeins 230 krónur, en 430 krónur sé bílnum lagt þar milli kl. 8 og 18. Við Fíladelfíu kostar klukkustundin aðeins 80 krónur frá miðnætti til 8 á morgnana. Yfir daginn og á kvöldin kosta fyrstu tvær klukkustundirnar 220 krónur, en 660 krónur hver eftir það.

Þjónusta Parka teygir sig út fyrir höfuðborgarsvæðið og er Hótel Selfoss á meðal þeirra sem rukka fyrir stæði í gegnum Parka. Þar ákvað hótelið að tryggja gestum sínum stæði við hótelið. Björgvin Jóhannesson hótelstjóri segir gesti hótelsins ekki greiða fyrir stæðin. Hótelið sé á fjölförnum stað og því mikil ásókn í bílastæðin.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir