Eurovision Hera Björk vann heima og er fulltrúi Íslands í keppninni.
Eurovision Hera Björk vann heima og er fulltrúi Íslands í keppninni. — Morgunblaðið/Eggert
Meirihluti þeirra sem tóku þátt í nýrri skoðanakönnun Maskínu vill að Ísland sitji hjá í Eurovision í ár. Af þeim sem svöruðu könnuninni eru 42,2% andvíg þátttöku Íslands í keppninni en 32,3% hlynnt henni

Meirihluti þeirra sem tóku þátt í nýrri skoðanakönnun Maskínu vill að Ísland sitji hjá í Eurovision í ár.

Af þeim sem svöruðu könnuninni eru 42,2% andvíg þátttöku Íslands í keppninni en 32,3% hlynnt henni. Rúmum 25% þeirra sem svöruðu er sama hvort Ísland tæki þátt eður ei. Þá eru samkvæmt könnuninni tæplega 40% óánægð með framlag Íslands í ár, 33,4% ánægð og 27,1% er í meðallagi sátt. Í lok undankeppninnar stóð valið á milli Heru Bjarkar og Palestínumannsins Bashars Murads og þegar úrslit voru gerð kunn kom í ljós að Hera Björk hafði vinninginn.

Mál flæktust þegar kom á daginn að bilun hefði orðið í kosningaappi RÚV, svo einhver atkvæði ætluð Murad fóru til Heru. En RÚV gaf fljótt út þau skilaboð að bilunin hefði ekki haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Það er í samræmi við niðurstöðu könnunar Maskínu, en þar vildu 42% svarenda frekar að lag Heru, Scared of Heights, færi áfram í Eurovision en lag Bashars Murads, Wild West, sem 37,9% voru hrifnari af, en 20% höfðu enga skoðun á málinu.

Ekki varð ljóst hvort Ísland tæki þátt í keppninni fyrr en RÚV tilkynnti í vikunni að Hera Björk færi til Malmö og keppti fyrir Íslands hönd. Hávær krafa hafði verið uppi um að Ísland sniðgengi keppnina vegna þátttöku Ísraels og vegna vandræða með símakosninguna.