Panda „Á heildina litið er Kung Fu Panda 4 skemmtileg teiknimynd en hún er ekki sambærileg fyrri myndunum.“
Panda „Á heildina litið er Kung Fu Panda 4 skemmtileg teiknimynd en hún er ekki sambærileg fyrri myndunum.“
Smárabíó, Sambíó og Laugarásbíó Kung Fu Panda 4 ★★★·· Leikstjórn: Mike Mitchell og Stephanie Stine. Handrit: Jonathan Aibel, Glenn Berger og Darren Lemke. Aðalleikarar: Jack Black, Awkwafina, Viola Davis, Bryan Cranston, James Hong og Dustin Hoffman. 2024. Bandaríkin. 94 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Kung Fu Panda 4 ýtti stórmyndinni Dúna: Annar hluti (2024) eftir Denis Villeneuve af toppi íslenska bíóaðsóknarlistans. Það er því greinilegt að kvikmyndaserían á marga aðdáendur og ekki að ástæðulausu. Undirrituð er ein þeirra og horfði til að mynda á fyrstu Kung Fu Panda (2008) þrisvar á einum degi. Líkt og eflaust margir aðdáendur varð undirrituð fyrir vonbrigðum varðandi nýjustu myndina af því að það sem gerði fyrri Kung Fu Panda-myndirnar sérstakar var að myndirnar voru ekki einungis ætlaðar börnum. Það sem gerir oft gæfumuninn í góðum teiknimyndum er hvort þær ná til breiðs áhorfendahóps eða ekki. Bæði Shrek (Andrew Adamson og Vicky Jenson, 2001) og Kung Fu Panda áttu það sameiginlegt að þær náðu líka til fullorðinna og margir brandararnir voru einungis ætlaðir fullorðnum. Kung Fu Panda 4 er einfaldlega bara venjulega teiknimynd handa börnum og unglingum, brandararnir eru einfaldir og allir geta skilið þá. Töfrarnir sem voru í fyrri myndunum eru týndir.

Kvikmyndin fylgir enn og aftur hinum eina sanna drekastríðsmanni Po (Jack Black) en í þetta sinn þarf hann að velja bardagakappa sem eftirmann sinn í hlutverkinu sem drekastríðsmaður. Po á erfitt með að sleppa takinu af hlutverki sínu og taka við sem andlegur leiðtogi í Friðardalnum og má því segja að um sé að ræða ákveðna þroskasögu. Kvikmyndin yrði hins vegar leiðinleg ef það væri eina stóra áskorunin en Po þarf líka að berjast við göldrótt kameljón (Viola Davis) sem hefur þann hæfileika að geta breytt sér í hvern sem er, þar á meðal helstu óvini Po úr fyrri myndum. Líkt og Köngulóarmaðurinn í Köngulóarmaðurinn: Engin leið heim (2021) þá fær Po að hitta aftur gömul illmenni. Þarna nælir Kung Fu Panda 4 sér í nokkur nostalgíustig hjá aðdáendum en hins vegar fengum við lítið sem ekkert að sjá fimmeykið frækna, en þau eru Tígrisynja (Angelina Jolie), Api (Jackie Chan), Lausprettur (Seth Rogen), Höggorma (Lucy Liu) og Krani (David Cross) sem er mikill missir af því að áhorfendur fara ekki í bíó til að sjá fjórðu myndina út af sögunni heldur persónunum sem þeir hafa lært að elska í gegnum tíðina. Í staðinn er áhorfendur kynntir fyrir nýrri persónu, Zhen (Awkwafine).

Po hittir Zhen fyrst þegar hún rænir musterið í þorpinu hans og sendir hana í kjölfarið í fangelsi. Zhen reynist síðan vera sú eina sem veit eitthvað um göldrótta kameljónið. Po og Zhen leggja því saman af stað í ferðalag að finna og sigra kameljónið. Það sem er virkilega vel gert hjá handritshöfundunum, Jonathan Aibel, Glenn Berger og Darren Lemke, er hvernig þeir stilla upp innra ferðalagi beggja persónanna, þ.e. hjá Po og Zhen, sem andstæðum en líka samstæðum. Po þarf að læra að sleppa tökunum og treysta á sjálfan sig, þ.e. að hann sé nógu hæfur til að gerast andlegur leiðtogi og Zhen þarf að endurheimta völdin yfir eigin lífi og læra að treysta öðrum. Í gegnum baráttu sína við kameljónið á sér stað innra ferðalag sem er í raun saga myndarinnar, frekar en enn ein baráttan við dýrslegt illmenni með reiðivandamál. Innra ferðalag Zhen og Po samræmist líka ferðalagi feðra Po (Bryan Cranston og Bryan Cranston) en þrátt fyrir að Po sé ósigraður stríðsmaður eiga þeir enn erfitt með að sleppa tökunum og leyfa Po að fljúga úr hreiðrinu sem er bæði mjög krúttlegt og fyndið en þeir feðurnir eru án efa senuþjófar myndarinnar.

Á heildina litið er Kung Fu Panda 4 skemmtileg teiknimynd en hún er ekki sambærileg fyrri myndunum. Ef myndin væri ekki hluti af seríunni, heldur sjálfstæð, væri hún sterkari, en af því að um er að ræða Kung Fu Panda-mynd eru kröfurnar háar hjá áhorfendum og henni tekst ekki að standast þær væntingar. Po eða Jack Black stendur alltaf fyrir sínu en hann getur ekki haldið uppi allri myndinni einn síns liðs. Áður en dómurinn klárast er vert að nefna lokalagið en þegar myndinni lýkur heyrist lagið „Baby One More Time“, sem Britney Spears gerði frægt á sínum tíma, í flutningi Jack Black og er það dásamlegt.