Við eigum að keyra Ísland á grænni innlendri orku eins og kostur er, fremur en að kaupa hana með gjaldeyri okkar fyrir 170 milljarða króna.

Úr ólíkum áttum

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

thordiskolbrun@althingi.is

Landsvirkjun er, að öðrum ólöstuðum, mikilvægasta fyrirtækið í opinberri eigu. Fyrir forsjárhyggju og hugrekki þeirra sem á undan okkur komu hefur verið byggt upp öflugt fyrirtæki sem nýtir endurnýjanlegar orkuauðlindir með hagkvæmum hætti. Árangurinn á síðasta ári var framúrskarandi góður – 45 milljarða króna hagnaður og tillaga um 20 milljarða króna arðgreiðslu til ríkisins. Slík fjárhæð skiptir verulegu máli í ríkisfjármálunum. Vonandi munu slíkar greiðslur skila sér á næstu árum í áfallasjóð en ekki hefðbundin útgjöld ríkissjóðs. Það væri skynsamleg ráðstöfun og frumvarp þess efnis verður lagt fram á Alþingi á næstu dögum.

Viðbúin áföllum

Á Iðnþingi fyrir sex árum fjallaði ég um bók Stefans Zweig, „Veröld sem var“. Ég minnti á að óvíða hefur fólk það betra en á Íslandi. Við getum nefnt hvern listann á fætur öðrum yfir lífsgæði, hagsæld og velferð þar sem við erum í efstu tíu til fimmtán sætum í heiminum. Við hljótum að hafa fullan rétt til að spyrja okkur eins og Stefan Zweig gerði upp úr aldamótunum 1900, erum við ekki hér að lifa gullöld lífsgæða? Gullöld velferðar? Gullöld öryggis? Ég velti því þá upp hvort eitthvað væri við sjóndeildarhringinn, sem ógnar grundvelli okkar og góðri stöðu.

Síðan kom heimsfaraldur, jarðhræringar á Reykjanesi og stríð Rússa í Úkraínu, sem hefur umturnað veruleika Evrópu síðastliðin tvö ár. Allt þetta kallar á að við sem förum með ábyrgð tökum hana alvarlega; hvort sem það er á vettvangi stjórnmála, viðskipta, menningar eða í stjórnsýslunni. Við lifum ekki á tímum þar sem við getum leyft okkur að horfa bláeyg inn í framtíðina og halda að allt muni reddast og fara vel að lokum.

Öryggi, verðmætasköpun og samkeppni

Ákvarðanir í orkumálum eru mikilvægar og stórar. Þær eiga að miðast sérstaklega við þrennt, raforkuöryggi, verðmætasköpun og samkeppni. Þegar kemur að öryggi okkar þá blasir við nýr veruleiki á Reykjanesskaga sem hefur mikil áhrif á nauðsynlega orkuinnviði okkar, heitt vatn og raforku, og er veruleiki sem kallað hefur á mikil útgjöld. Meira gæti komið til enda stendur atburðarásin enn yfir. Náttúran hefur þannig minnt okkur á í hvaða landi við búum. Við getum hvorki verið værukær gagnvart innviðauppbyggingu almennt né orkuframleiðslu sérstaklega.

Varðandi efnahagsleg tækifæri og verðmætasköpun er Ísland í færi um að vera leiðandi í grænni orku, sem við erum sannarlega í jarðvarma og vatnsafli. Við getum þó hæglega glatað forystu okkar ef við höfum ekki skýra sýn og látum ekki hug fylgja máli. Við eigum að keyra Ísland á grænni innlendri orku eins og kostur er, fremur en að kaupa hana með gjaldeyri okkar fyrir 170 milljarða króna, eins og við gerðum á síðasta ári. Þetta er augljóst.

Aukin raforkuframleiðsla í þágu stærri hóps viðskiptavina stuðlar að betri nýtingu orkuauðlinda og minni sóun á þeim, sem er því miður umtalsverð í dag. Dýrmæt þekking mun byggjast upp á Íslandi sem hægt verður að flytja út. Sprotar og nýsköpunarfyrirtæki munu spretta fram og vaxa, rétt eins og gerst hefur í kringum sjávarútveginn til dæmis, ef við tryggjum opin gögn og opinn og gagnsæjan markað svo snjallir hlutir geti orðið til. Við búum á grænu batteríi og látum það ekki gerast að búa við skort á raforku.

Loks verðum við að tryggja heilbrigða samkeppni en rétt er að hafa hugfast að hér hefur verið komið á frjálsu markaðsumhverfi í framleiðslu og sölu á rafmagni. Í frjálsu markaðsumhverfi þarf samkeppni að þrífast og hana þarf að auka á orkumarkaði. Samkeppni er nauðsynleg, hún ýtir við öllum á markaði, er nauðsynlegt aðhald og stuðlar að jafnari leik. Landsvirkjun framleiddi rúmlega 70% af raforkuframleiðslu landsins í fyrra. Það er því mikilvægt að félagið stuðli að samkeppni og hafi samkeppnisgleraugun á í öllum sínum ákvörðunum. Tryggja þarf að byggður sé upp skilvirkur heildsölumarkaður sem ýtir undir samkeppni, gagnsæja verðmyndun og jafnræði.

Lögmætt brottkast

Einangrað orkukerfi sem byggist á sveiflukenndri náttúruauðlind eins og vatnsafli hefur alla jafna í för með sér töluverða sóun. Sóunin felst í því að aðeins er hægt að selja versta vatnsárið á gefnu viðmiðunartímabili. Í meðalári fer afgangsorka til spillis. Það er ekki hægt að selja hana af því að það er ekki hægt að tryggja að hún verði til reiðu í óvenjulega þurrum árum. Svokallað „lögmætt brottkast“ sem er um átta milljarða virði. Í meðalári nemur árlegt brottkast um það bil tveimur teravatt-stundum eða um 10% af okkar raforkuframleiðslu. Það er meira en tvöföld ársnotkun allra heimila landsins. Með sveigjanlegri viðskiptavinum, sem væru tilbúnir til að slaka á notkun sinni í slæmum vatnsárum, væri hægt að minnka þessa sóun. Afgangsorka sem er „hent“ og kallar ekki á nýjar virkjanir, heldur aðeins að aðilar séu tilbúnir til að veðja á líkurnar á lélegum vatnsárum og nái samningum um hvernig beri að skipta ávinningnum. Það er til mikils að vinna í raforkumálum – fyrir okkur öll.