Uni Hrafn Karlsson á verkstæðinu sem hann reisti á Kirkjubæjarklaustri.
Uni Hrafn Karlsson á verkstæðinu sem hann reisti á Kirkjubæjarklaustri. — Brynjólfur Löve Mogensson
Það væri því svolítið heimskulegt að vera úti í Jökulsárlóni að skipta um dekk ef það er einhver í neyð í Vík. Þannig að maður verður að forgangsraða svolítið.

Við rennum inn á Klaustur þar sem nunnur héldu klausturstarf frá 1186 og fram á miðja sextándu öld. Kirkjubær var landnámsjörð þar sem Ketill fíflski nam land, sonur Jórunnar mannvitsbrekku, dóttur Ketils flatnefs.

Í þá daga var ekkert bifreiðaverkstæði á staðnum en nú er öldin önnur og segja má að landnám hafi átt sér stað þegar Uni Hrafn Karlsson haslaði sér völl á sínu sérsviði með stofnun fyrirtækisins UniCars, Hann sá gloppu á markaðnum á Klaustri þar sem engar bílaviðgerðir höfðu verið í boði í tvö ár. Hann var þá í leit að tækifærum eftir góð ár í Danmörku þar sem hann hafði numið og starfað ásamt konu sinni.

Og leiksviðið er stórt, um 300 kílómetra þjóðvegur sem teygir sig frá Vík í vestri og allt austur á Höfn í austri. Gríðarlegur fjöldi bíla fer um svæðið á degi hverjum, árið um kring. Flestir klakklaust, en aðrir verða fyrir skakkaföllum eða bila. Þá kemur til kasta Una og samstarfsmanna hans.

„Það er bara allt. Öll bílaþjónusta og neyðarþjónsta og vegaþjónusta. Bara það sem dettur inn,“ útskýrir hann þegar við Moggamenn tökum hús á honum rétt upp úr hádegi.

Fljótlega í spjallinu kemur í ljós að Uni er alls ekki frá Klaustri. Hann er raunar uppalinn í Keflavík.

„Það var bara að prófa eitthvað nýtt. Bróðir minn er með gistiheimili í Meðallandi og þá datt þessi hugmynd inn því það vantaði þessa þjónustu hérna. Hún hafði ekki verið til staðar í tvö ár.

Þetta felst í því að gera bara það sem þarf að gera,“ útskýrir hann áfram og viðurkennir að verkefnið sé stórt í sniðum. „Þetta er botnlaust, bókstaflega,“ segir hann og glottir í kampinn þar sem hann situr í forstjórastólnum, umkringdur varahlutum og pappírum sem hann nýtir til þess að feta einstigið sem felst í því að þjónusta allar tegundir bíla, á öllum tímum sólarhringsins.

„Við erum farin að reyna að skilgreina þetta út frá því hvað er neyð. Ef þú ert stopp og kemst ekki neitt þá er það neyð. En ef þú ert með sprungið dekk og varadekk um borð þá ertu ekki í neyð.“

Hann bendir á að bifreiðaverkstæðið í Vík hafi hætt að bjóða upp á neyðarþjónstu fyrir alllöngu og að ekki sé mikla þjónustu að fá á Höfn. „Þannig að svæðið okkar er helvíti stórt. Það væri því svolítið heimskulegt að vera úti í Jökulsárlóni að skipta um dekk ef það er einhver í neyð í Vík. Þannig að maður verður að forgangsraða svolítið.“

Liðsauki borist

Lengst af hefur Uni rekið verkstæðið við annan mann en nú hefur þriðji völundurinn bæst í hópinn sem hann segir breyta miklu. Nú þurfi menn ekki að standa bakvaktir aðra hverja viku heldur sé hægt að dreifa álaginu betur. Þá hefur eiginkona Una einnig hætt störfum á leikskólanum í þorpinu og er nú í móttökunni. UniCars er því sannkallað fjölskyldufyrirtæki. Það eru nefnilega fleiri á kreiki. Þau eiga fjóra gjörvilega syni og sá elsti þeirra er 14 ára að aldri. Sá er farinn að starfa með föður sínum á verkstæðinu og líkar það vel.

„Ef það fæst ekki starfsfólk þá verður bara að búa það til,“ segir Uni í hálfum hljóðum og hlær. Húmorinn er til staðar en honum er ekki slengt framan í gestina. Þar gætir kannski helst áhrifa af umhverfinu. Skaftfellingar eru ekki mikið að bera sitt á borð og okkur aðkomumönnum er sagt að þeir segi helst aldrei nei eða já. Þjónustustigið hjá okkar manni gefur þó til kynna að þar hallist menn fremur að hinu síðarnefnda.

Við færum aftur talið að verkefnastöðunni. Við spyrjum Una hvort þeir félagar nái að anna öllum þörfum svæðisins.

„Eiginlega ekki. Það dugar til þess að sinna þessu venjulega flæði, heimamönnum og vegaþjónustunni en mjög lítið auka. Maður gæti alveg stækkað og fjölgað og sinnt öllum ferðaþjónustubílunum líka.“

Hann viðurkennir að stækkunarmöguleikar séu fyrir hendi. Þá sé hann búinn að teikna upp.

„Já, það er búið að hanna það allt en það er frekar tilgangslaust að stækka ef maður getur ekki mannað það.“

Hraðvirk þjónusta

Uni og hans menn gera við allar tegundir af bílum. Þeir þurfa í raun að vera jafnvígir á allan bílaflota landsmanna og gesta okkar að utan. En er ekki oft löng og ströng bið eftir varahlutum í þessa fjölbreyttu bílaflóru?

„Nei, nei. Oftast er flest til í bænum og ef það er pantað fyrir þrjú á daginn þá er það komið daginn eftir hingað. Póstþjónustan er mjög hraðvirk.“

Sérhæfingin á þessu sviði hefur aukist mikið, sem er áskorun fyrir alhliða þjónustu. Blaðamenn tóku t.d. eftir því þegar þeir mættu á staðinn að þá var Uni að greina bilun í lögreglubifreið og þá notaðist hann við stóreflis tölvu við verkið.

„Það erfiðasta við þetta er að þar sem maður getur ekki sérhæft sig í einni tegund gerir það að verkum að það fer mjög mikill tími í að afla sér upplýsinga, að læra á hlutina og að klára skólann hjálpaði mjög mikið með þetta því þá voru þeir farnir að fara meira út í rafbílana og þessa nýju tækni.“

Eru miklar áskoranir sem þið sjáið í rafbílunum?

„Nei, svo sem ekki. Þetta eru bara tæki eins og önnur. Ef maður þekkir ekki hvernig þetta virkar þá er þetta ógnvekjandi. En þetta er bara eins og allt annað drasl.“

En ertu ekki orðinn tölvunarfræðingur?

„Jú. Þetta er svoleiðis. Svo er þetta orðið þannig að flestar bilanir eru sambandleysi eða skemmdir vírar. Það er mjög mikið um svoleiðis,“ útskýrir Uni.

Sá vitlausasti ókominn

Og útköllin eru margskonar og sum þeirra hreinlega lygileg. „Held ég gæti skrifað heila bók um það,“ segir hann.

En hvernig má lýsa „dæmigerðu“ og óvenjulegu útkalli. Þá reikar hugurinn einhverja mánuði aftur í tímann.

„Það gerðist úti í Geirlandi að það var ferðamaður á Land Rover sem ákvað að keyra undir brúna að fossinum og fór ofan í eina hylinn á svæðinu og það var bara vatn upp á topp. Hvað var maðurinn að gera þarna, af hverju? Það var engin ástæða til að standa í þessu. Maður heldur að maður hafi séð það vitlausasta en svo kemur bara næsti.“

Hann segir að umferðarmenningin á þjóðveginum sé oft svakaleg og því hafa blaðamennirnir sannarlega fengið að kynnast – og kannski lagt eitthvað af mörkum einnig fyrir sína parta.

„Fólk er bara agndofa yfir umhverfinu. Maður tekur mjög eftir þessu þegar maður er að aka á eftir fólki og það kemur eitthvað flott. Þá fer fólk að rása eftir veginum, glápa og negla niður og taka myndir þannig að maður þarf að vera mjög vel vakandi.“

Uni hafði búið í Danmörku ásamt konu sinni, rétt fyrir utan Kaupmannahöfn, áður en leiðin lá á Kirkjubæjarklaustur.

„Ég byrjaði á því að fara í skóla og svo fór ég að vinna á bílaverkstæði og bátaþjónustu. Þegar það var orðið venjulegt og leiðinlegt þá ákváðum við að flytja hingað.“

Tekið opnum örmum

Hann segir þá ákvörðun hafa verið mjög góða. Samfélagið hafi tekið þeim opnum örmum en á Klaustri búa innan við 200 manns.

„Hér er yndislegt að vera. Þetta er svo lítið samfélag. Allir svo nánir, fáir krakkar í skólanum. Þetta er allt lítið í samanburði við Keflavík þegar maður var að alast upp þar. Krakkarnir eru miklu opnari og þora að tala þannig að það er stór munur á.“

En samfélagið stækkar. Verið er að skipuleggja lóðir og byggja. Uni segir þróunina góða en hann vonast þó eftir því að vöxturinn verði ekki of hraður eins og reyndin hefur verið í Vík. Það vanti fólk í störf af öllum toga.

„Miðbærinn er að eflast. Vona að hann springi þó ekki eins og gerðist í Vík. Það er verið að fara að byggja fleiri íbúðir hérna og þá er vonandi að það komi fleiri íbúar og að það stækki. Þetta er ekki bara mannaflaþörf tengd ferðaþjónustunni. Það vantar alstaðar mannskap. Smiði, rafvirkja, verkstæðið, hjúkrunarheimilið, leikskólinn. Það vantar bara mannskap. Það vantar húsnæðið og það er komið í ferli.“

Framtíðin er björt á Klaustri og ljóst að einkaframtakið, í formi UniCars eða annarra fyrirtækja, skapa aðstæður til vaxtar í þorpi sem fyrr á tíð bjó við talsverða einangrun, fjarri höfuðstaðnum. Nú er Klaustur í þjóðbraut og þjónar mikilvægu þjónustuhlutverki við stóran hluta þeirra ferðamanna sem landið sækir heim.