Uppbygging Hótelið er farið að taka á sig mynd og gæti verið opnað á næsta ári.
Uppbygging Hótelið er farið að taka á sig mynd og gæti verið opnað á næsta ári.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kostnaður við byggingu lúxushótelsins Höfða Lodge á Grenivík við Eyjafjörð hefur aukist talsvert frá því sem upphaflega var áætlað, að sögn Björgvins Björgvinssonar eins eigenda verkefnisins. Hann rekur einnig þyrluskíðafyrirtækið Viking Heliskiing…

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Kostnaður við byggingu lúxushótelsins Höfða Lodge á Grenivík við Eyjafjörð hefur aukist talsvert frá því sem upphaflega var áætlað, að sögn Björgvins Björgvinssonar eins eigenda verkefnisins. Hann rekur einnig þyrluskíðafyrirtækið Viking Heliskiing og skíðaferðafyrirtækið Scandic Guides ásamt Jóhanni Hauki Hafstein. Þá hafa orðið tafir á opnun hótelsins.

Ástæðan er m.a. verðhækkanir vegna stríðsátaka og faraldurs.

„Þetta er búið að kosta töluvert meira en það átti að gera en við erum alveg rólegir út af því. Við höldum okkar striki. Við erum núna að bíða eftir húseiningum frá Lettlandi. Koma þeirra hefur tafist vegna vonds sjóveðurs. Þær koma vonandi eftir tvær vikur,“ segir Björgvin í samtali við Morgunblaðið. Upphaflega átti að opna hótelið árið 2022 en Björgvin segir að aðstandendur láti sig nú dreyma um að opna í mars-apríl á næsta ári, 2025.

„Þetta er gríðarlega flókin og mikil bygging en við erum farin að sjá til lands“ segir Björgvin.

Sex þúsund fermetrar

Hótelið verður 6.000 fermetrar og herbergin 40. Eins og áður hefur verið fjallað um í Morgunblaðinu eru herbergin öll mjög stór, allt upp í 180 fermetrar, hvert og eitt með útsýni út á Eyjafjörðinn. Meðal þess sem boðið verður upp á í hótelinu er golfhermir, stórt spa, fundarherbergi, veitingastaður, vínherbergi og bar á efstu hæð. Einnig verður byggt 900 fermetra starfsmannahús. Fimmtíu manns koma til með að starfa á hótelinu.

„Við erum búin að reisa starfsmannahúsið og hesthúsið og hótelið er í dag komið í fjórar hæðir. Okkur vantar bara þessar einingar frá Lettlandi til að loka húsinu. Það ætti að geta orðið fokhelt í maí nk.“

Einnig segir Björgvin að byrjað sé að búa til göngu- og hjólaleiðir í nágrenninu.

„Þegar húsið verður klárt verður afþreyingin einnig tilbúin. Fólk getur farið á þyrluskíði frá mars til júní en þá taka við hjóla- og gönguferðir, stangveiði, kajaksiglingar, paddleboard og fleira.“

Breskur fjárfestir

Björgvin vill aðspurður ekki tjá sig um hversu mikið kostnaður hafi aukist. Sömuleiðis vill hann ekki gefa upp hvaða breski fjárfestir á 49% hlut á móti þeim Jóhanni.

„Hann hefur óskað eftir að halda sér til hlés. Hann kemur reglulega og skíðar hjá okkur í Viking Heliskiing. Fulltrúar hans eru með okkur í stjórn.“

Spurður um bókanir segir Björgvin að byrjað sé að taka við bókunum frá viðskiptavinum Viking Heliskiing. Aðrir verði að bíða fram á haust.

„Þá verður heimasíðan klár og við sjáum nákvæmlega hvenær við getum opnað.“

Hóteluppbygging

Höfði Lodge er staðsettur á Þengilshöfða, 50 metra háum kletti, 800 metrum frá Grenivík í Eyjafirði.

Breskur fjárfestir á hlut á móti íslenskum fjárfestum.

Öll herbergi snúa að hafinu.

Boðið verður upp á margs konar afþreyingu eins og þyrluskíði, hestaferðir, kajakróður og stangveiði.