[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í miðri auglýsingatöku var ég að lesa Auðlesin eftir Adolf Smára þegar áhrifavaldurinn Sætistrákurjókkó kom til mín og sagði: „Nei, vá mar. Ég hef aldrei séð neinn lesa, geggja töff.“ Greinin í vikunni er tileinkuð þessum manni, og öðrum …

Í miðri auglýsingatöku var ég að lesa Auðlesin eftir Adolf Smára þegar áhrifavaldurinn Sætistrákurjókkó kom til mín og sagði: „Nei, vá mar. Ég hef aldrei séð neinn lesa, geggja töff.“ Greinin í vikunni er tileinkuð þessum manni, og öðrum þrítugum karlmönnum sem hafa greinilega aldrei farið á bókasafn.

Þegar ég vann í bókabúð átti ég erfiðast með að finna bækur handa 12-16 ára piltum. Það er lítið úrval bóka fyrir þá sem er vont, ef áhugamálin okkar myndast á þessu æviskeiði. Hvaða saga sem ég hef lesið myndi passa fyrir íslenskan unglingsstrák? Ég velti þessu fyrir mér, horfandi á sólsetrið undir trjálundi í París vitandi að ég er hvorki barn né drengur.

Fyrsta bókin sem mér datt í hug var smásöguvestrinn Montana 1948 (Watson). Fimmtugur karlmaður frá Ölpunum rétti mér hana dag einn og lofaði mér að hún væri klassík en bókin er um mann á sama aldri sem endurupplifir árið þar sem hann var tólf ára. Eftir þriggja klukkutíma lestur upplifði ég spennu sem ég þekkti ekki þar sem hugrekki og trúmennska stangast á. Mögulega klassík, takk Alpamaður.

Önnur heillandi saga fyrir gagnfræðakrakka er Paradis Perdus (Schmitt). Aðalpersónurnar eru ungar sem gerir það að verkum að maður dregst auðveldlega inn í ævintýraheiminn en fræðist í leiðinni um sögu mannkynsins, eins og í Sapiens (Harari), nema þessa bók les maður til enda. Ríkulegar rannsóknir liggja að baki þriggja bóka seríunni og hafa þær allar hlotið mikið lof gagnrýnenda.

En vitið þið hvað? Vandamálið er að þessar tvær kiljur hafa ekki verið þýddar á íslensku þannig að greinin er kannski til einskis … Hafið þið lesið Á vegum úti (Kerouac)? Ekki ég. Kannski ætti ég bara að hugsa um það sem mig langar til að lesa. Adolf Smári nefndi í bókinni sinni að flestir hafa lesið Laxness en aldrei klárað Laxness. Ég er hluti af þessum hópi en skáldsagan hans Vefarinn mikli frá Kasmír hefur þó lengi vakið áhuga minn. Hún er um ungan mann að leita að sannleika og kærleika. Bingó! Það er upplagt fyrir íslenskan unglingsstrák. Íslensk saga, á íslensku – en reyndar, á fornri íslensku og með sérviskulegri stafsetningu … Hjálp.