Dagur heilags Patreks er á morgun, sunnudaginn 17. mars. Af þessu tilefni hafa tvær írskar krár í Reykjavík, Dubliner og Irishman Pub, fengið leyfi borgarráðs til að hafa opið til klukkan þrjú aðfaranótt mánudagsins 18

Dagur heilags Patreks er á morgun, sunnudaginn 17. mars. Af þessu tilefni hafa tvær írskar krár í Reykjavík, Dubliner og Irishman Pub, fengið leyfi borgarráðs til að hafa opið til klukkan þrjú aðfaranótt mánudagsins 18. mars.

Heilagur Patrekur var kristniboði á miðöldum og verndardýrlingur Írlands. Hann er talinn ásamt fleirum hafa kristnað Írland á 5. öld. Dánardægur Patreks, 17. mars, er þjóðhátíðardagur Íra og haldið er upp á hann víða um heim.

Í borgarráði var lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar. Veitingastaðirnir tveir, Dubliner, Naustinni 1, og Irishman Pub, Klapparstíg 25-27, hafi sótt um leyfið vegna dags heilags Patreks.

Á þessum stöðum í borginni er óheimilt að veita áfengi lengur en til kl. 01.00, nema aðfaranætur laugardaga, sunnudaga og almennra frídaga. Þó er heimilt að veita viðbótarleyfi við sérstök tilefni. „Verður talið að sá viðburður sem hér er um rætt geti fallið að þeirri heimild, sérstaklega þar sem um er að ræða veitingastaði á svæði þar sem gilda rúmar miðborgarheimildir,“ segir í umsögninni. sisi@mbl.is