Til er app sem fylgist nefnilega með þér í svefni; hvað þú snýrð þér oft, hvenær þú ert í djúpsvefni, hvort þú talir upp úr svefni og já, hversu oft þú leysir vind á meðan þú sefur.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Um daginn rakst ég á skopmynd af manni sem gekk áhyggjulaus eftir götunni með hendur í vösum flautandi lagstúf. Fyrir ofan í texta stóð að þar færi maður sem vissi ekki hvað hann mældist með hátt kólesteról, vissi ekki hvað hann væri með í BMI, ekki hvers virði hann væri í peningum, hvað hann væri með í greindarvísitölu eða hvaðan úr heiminum hann væri ættaður. Sem sagt, ekki nútímamaður.

Þessi skopmynd sat í mér og ég fór að hugsa hvort við værum komin yfir strikið í því að þurfa að skrásetja allt í lífinu. Þurfum við virkilega að vita allt um okkur sjálf? Skilar það okkur hamingju eða kannski bara stressi og streitu? Í dag viljum við helst vita allt; allt sem hér er talið upp að ofan og miklu meira. Sumt er kannski ágætt að vita upp á heilsuna að gera, eins og þetta með kólesterólið, og jafnvel er ágætt að vita blóðþrýstinginn sinn, en þurfum við að vita nákvæmlega hvað við göngum mörg skref á dag? Ég fæ yfirleitt samviskubit að vinnudegi loknum þegar ég sé að ég hef aðeins stigið nokkur hundruð skref yfir daginn og því aðeins brennt 50 kalóríum. Ég held ég sé engu bættari með þessa vitneskju sem veitir mér satt að segja enga gleði. Nema kannski einstaka sinnum þegar ég dríf mig í göngutúr, og þá samt er ég yfirleitt svekkt. Ég er kannski fullviss að ég hafi gengið fjóra kílómetra en þeir kannski reyndust bara 2,7. Enn og aftur vonbrigði. Fólk í gamla daga var ábyggilega ekkert að pæla í hvað það brenndi mörgum kalóríum eða gekk mörg skref. Það gat bara flautað lagstúf á meðan það gekk og notið göngutúrsins.

Annað sem er að trufla nútímamanninn er þörf okkar fyrir að fylgjast með öllu og öllum í kringum okkur. Tíminn sem við eyðum í að glápa á skjáinn á símanum er svakalegur og það eru ekki bara börnin sem stunda þann ósið. Sjálf er ég ekkert skárri. Og síminn lætur mig reglulega vita hvað ég hef eytt miklum tíma í að glápa á vini mína á Facebook og Instagram, myndbönd af köttum og hundum, grínistum og alls konar vitleysu. Ég sem gæti notað tímann í að lesa Laxness eða skrifa kvikmyndahandrit! Enn og aftur fæ ég samviskubit.

Óteljandi eru öppin sem hægt er að hlaða í símana okkar sem fylgjast með okkur. Hitastig líkamans, blóðsykur, kalóríur inn og út, blóðþrýstingur, hjartsláttur og svo framvegis. Og eins og það sé ekki nóg að þurfa að stressast upp í lífinu yfir öllum þessum upplýsingum sem dynja á okkur, þá er líka hægt að fylgjast með okkur á nóttunni. Til er app sem fylgist nefnilega með þér í svefni; hvað þú snýrð þér oft, hvenær þú ert í djúpsvefni, hvort þú talir upp úr svefni og já, hversu oft þú leysir vind á meðan þú sefur.

Mjög nauðsynleg vitneskja, eða hitt þó heldur!