Týnd taska Biðin eftir að ferðataskan skilaði sér var þrír mánuðir.
Týnd taska Biðin eftir að ferðataskan skilaði sér var þrír mánuðir. — Ljósmynd/Colourbox
Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur úrskurðað í deilu farþega við flugfélag um upphæð bóta sem farþeginn átti rétt á vegna ferðatösku sem týndist en fannst þremur mánuðum síðar. Farþeginn átti bókað flug með flugfélaginu í júlí 2022 en taska hans skilaði sér ekki þegar á áfangastað var komið

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur úrskurðað í deilu farþega við flugfélag um upphæð bóta sem farþeginn átti rétt á vegna ferðatösku sem týndist en fannst þremur mánuðum síðar.

Farþeginn átti bókað flug með flugfélaginu í júlí 2022 en taska hans skilaði sér ekki þegar á áfangastað var komið. Hann sagðist hafa haft samband við flugfélagið þremur vikum síðar og þá verið sagt, að þar sem taskan hefði verið týnd í meira en þrjár vikur ætti hann rétt á að fá hana bætta, jafnvel þótt taskan kæmi í leitirnar síðar. Þá hefði farþeginn verið upplýstur um að hann ætti rétt á að fá greiddan kostnað við kaup á nauðsynjavöru vegna tafa farangursins. Flugfélagið greiddi farþeganum 10 þúsund krónur og bauð einnig 20 þúsund krónur til viðbótar og 70 þúsund króna inneign en því hafnaði farþeginn.

Taskan kom í leitirnar í október sama ár og sagði farþeginn að munir hefðu verið horfnir úr töskunni. Einnig hefðu föt í henni verið óhrein og ferðataskan sjúskuð. Þá hefði hann þurft að kaupa nauðsynjavörur í stað þeirra sem voru í töskunni fyrir rúmlega 51 þúsund krónur. Krafðist hann bóta sem námu samtals um 260 þúsund krónum.

Því hafnaði flugfélagið og benti á að farþeginn færi fram á fullar skaðabætur eins og að taskan hefði alveg týnst. Á ferðatímanum hefðu flestir flugvellir verið undirmannaðir og þjónusta því miður í lágmarki. Því hefði taska farþegans skilað sér seint.

Í niðurstöðu kærunefndarinnar segir að ljóst þyki að farþeginn hafi orðið fyrir óþægindum og fjárhagslegu tjóni vegna þess að farangurinn skilaði sér ekki eins lengi sem raun bar vitni. Sannanlegt fjártjón farþegans hafi verið rúmar 59 þúsund krónur en nefndin telur að lækka eigi kröfuna vegna þess að þær vörur sem farþeginn festi kaup á væru nýjar og hafi notagildi fyrir hann í framtíðinni. Einnig yrði að líta til þess að farþeginn var á heimleið þegar ferðataskan týndist auk þess sem taskan kom síðar í leitirnar. Þá liggi fyrir að flugfélagið hafi þegar greitt 10 þúsund krónur í bætur vegna farangurstafanna. Í þessu ljósi voru bæturnar taldar hæfilegar 34.000 krónur.