Egill Már fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 7. júní 1990. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á gjörgæsludeild Landspítalans 3. mars 2024.

Hann er sonur Guðrúnar Jónsdóttur og Unnsteins Halldórssonar, blóðfaðir er Kolbeinn Valsson. Systkini Egils Más eru: 1) Arna Vigdís, f. 27. apríl 1981. Hennar börn eru Arey Rakel, Darri Þór og Emil Víkingur. Sambýlismaður Örnu Vigdísar er Jón Hannes Karlsson. 2) Jón Elías, f. 27. desember 1984, og á hann þrjú börn; Guðrúnu Mörtu, Viktor Elías og Gabríel. 3) Unndís Ýr, f. 26. apríl 2000, maki Starri Reynisson.

Útför Egils Más fór fram í kyrrþey 11. mars 2024.

Lítill drengur ljós og fagur, var það fyrsta sem kom upp í huga minn við fyrstu sýn. Egill var oft veikur fyrsta árið sitt og lagðist inn á spítala í Reykjavík og einnig á Ísafirði. Alltaf var hann samt ljúfur og góður. Við undum hag okkar vel, mamman og börnin, í Fjarðarstræti 6 á Ísafirði. Við fórum á skíði daglega á veturna, það fannst honum gaman, síðar kom brettið og þegar voraði var það fótboltinn.

Þegar stjúpi hans kom inn í líf okkar var minn maður sáttur og sagði öllum frá hvað hann ætti góðan pabba. Unnsteinn og Egill áttu einstaklega náið samband. Held að fáir hafi verið eins spenntir og hann þegar við fluttum til hans á Hlíðarveg 21 á Ísafirði. Egill átti marga vini fyrir vestan æfði fótbolta af krafti og undi hag sínum vel. Egill var mikill dýravinur, átti kisu sem hann skírði Mjámjá og síðar komu kanínur, eðlur og á endanum kom tíkin Lady og fleiri dýr.

Því miður lenti hann í áföllum sem enginn ætti að upplifa ungur að aldri og þá fóru dökku skýin smám saman að koma. Þau urðu oft ofan á, þó að mörg árin hafi honum gengið vel þá biðu þessi ógnarský alltaf handan við hornið og á endanum tóku þau yfir.

Núna hugsum við um allar góðu stundirnar sem við áttum með Agli, fótboltamótin, utanlandsferðirnar, útskriftir, Aðalvík og svo miklu meira. Egill var vel gefinn og átti auðvelt með að læra, hann tók stúdentspróf á stuttum tíma með 120% vinnu en samt með nærri 9 í meðaleinkunn. Egill var mjög laginn til allra verka. Hvort sem það var múrverk, flísalögn, smíðar eða að hugsa um hina minnstu bræður þar sem hann vann í Gistiskýlinu. Það voru ófá símtölin til mín til að spyrja hvernig ætti að gera matinn, fá uppskriftir svo hann gæti eldað góðan mat fyrir þá. Egill minn hafði allt til að bera.

Það er svo erfitt og sárt fyrir okkur að sjá á eftir góðum syni, bróður og frænda. Ég trúi að það hafi verið tekið á móti þér með opinn faðminn þar sem þú ert núna.

Þar til næst, elsku sonur minn.

Þín

mamma.

Elsku Egill minn.

Það er ótrúlega sárt að rita til þín þessi kveðjuorð. Aðeins 33 ára, elsku bróðir. Þú varst sem barn lítið ljóshært krútt sem var auðvelt að plata í alls konar skemmtilegheit og hafðir gaman af. Þegar ég lít yfir farinn veg þá verða það góðu stundirnar sem munu ylja okkur. Þú bjóst yfir svo miklu meiri mannkostum og hæfileikum en þú gerðir þér grein fyrir. Þetta er hörð áminning um að við sjálf og allt samferðafólk okkar eigum bara eitt líf og góðu minningarnar eru það dýrmætasta sem við eigum að lokum. Ég minnist ferðalagsins til Rhodos þar sem Darri frændi þinn sá ekki sólina fyrir þér. Kvöldverðirnir í Drápuhlíð og Rauðavaði ylja sömuleiðis, þú varst þakklátur fyrir matarboðin og samverustundirnar. Veiðiferðina, sem var því miður bæði sú fyrsta og síðasta, verð ég ævinlega þakklát fyrir. Við áttum eftir að fara saman á hálendið, en þangað langaði þig að fara.

Vil enda þessi orð á bæninni sem amma Jóhanna kenndi okkur:

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson)

Ég veit að amma, afi og Palla hafa tekið vel á móti þér.

Hvíldu í friði, elsku bróðir,

Arna systir.

Elsku hjartans vinur minn.

Það helltist yfir mig ólýsanleg sorg þegar mér var sagt að þú værir farinn.

Ég kynntist þér þegar við vorum rúmlega tvítug. Ég fann þá hvernig sálir okkar snertust eins og við hefðum alltaf þekkst.

Við sköpuðum svo mikið af ógleymanlegum og skemmtilegum minningum saman.

Það er svo ótal margt sem við brölluðum. Utanlandsferðir og ferðalög innanlands eins og vestur á Ísafjörð, héldum jólin saman, fögnuðum afmælum, fórum í fallhlífarstökk, flúðasiglingar og á Wim Hof-kuldanámskeið og margt fleira.

Það sem einkenndi þig var dugnaður, hjálpsemi, kjarkur og fókus. Allt sem þú gerðir, gerðir þú svo afskaplega vel. Þú varst svo mikill afreksmaður í því sem þú tókst þér fyrir hendur.

Þó svo að það kæmu tímar þar sem við heyrðumst sjaldnar þá vorum við alltaf bestu vinir og við minntum hvort annað reglulega á það. Þú sagðir: „Alltaf vinir, bestu vinir, ég og þú. Við getum þetta, þú getur þetta, við ætlum að sigra alheiminn saman, elsku Bíbí mín.“ Stundum vorum við saman upp á dag í mánuði eða ár og minna þess á milli. Við vissum alltaf að við áttum hvort annað að. Orðin þín til mín eru mér svo dýrmæt og ég mun alltaf muna þau. Þú studdir mig þegar ég þurfti sem mest á því að halda og varst mér við hlið eins og klettur.

Síðasta sumar var ég að labba með strákinn minn í kerru niðri í bæ hjá Ingólfstorgi. Mamma, Erla systir og Maríus voru með mér. Svo gengur þú að okkur með þitt breiða fallega bros og heilsar okkur. Mikið var ég glöð yfir að sjá þig því það hafði verið of langt síðan síðast. Ég knúsaði þig innilega og bað þig um að taka Henry Kristal úr kerrunni því ég vildi kynna ykkur og fá mynd af ykkur saman. Það skipti mig hjartans máli að þú fengir að halda á stráknum mínum því ég veit að það sem ég elska og skiptir mig máli, það skiptir þig máli og þú elskar. Þetta var í síðasta skiptið sem ég sá þig ljóslifandi. Þessi minning mun aldrei frá mér hverfa.

Það var snemma á þessu ári sem ég heyrði í þér röddina í síðasta sinn, ég heyri ennþá glaða fallega tóninn þinn. Við hlógum og spjölluðum einlæglega. Ég hugsa svo sárt til þess af hverju ég krafðist þess ekki að fá að hitta þig.

Um kvöldið 3. mars sá ég þig á Landspítalanum. Þú varst nýbúinn að draga andann í síðasta sinn. Elsku fallega sál, ég hef aldrei upplifað slíkan sársauka sem fór um mig. Og dagarnir á eftir voru eintóm sorg. Ég vil ennþá ekki trúa þessu. Við útför þína fékk ég að kveðja þig í allra hinsta sinn og lagði bréf við hjarta þitt.

Elsku hjartans engillinn minn og allra besti vinur, ég sakna þín og mun minnast að eilífu.

Ég elska þig 158%, elsku ástin mín.

Þín BB,

Bergdís Brá Sverrisdóttir.