Viðhaldi vega er verulega ábótavant og ætlað fjármagn dugar ekki einu sinni til að halda í horfinu

Voði blasir við á vegum landsins. Viðhaldi vega er verulega ábótavant og það fjármagn, sem ætlað er til þess að lappa upp á þá, dugar ekki einu sinni til að halda í horfinu.

Þetta er orðað svona á vef Vegagerðarinnar: „Ekki hefur tekist að fjármagna viðhald vegakerfisins á Íslandi í takt við þarfirnar og því hefur safnast upp svokölluð viðhaldsskuld sem víða má sjá á slitnum samgöngumannvirkjum.“

Í frétt í Morgunblaðinu á fimmtudag var farið yfir stöðuna. Þar kemur fram að lengd vega með bundnu slitlagi á Íslandi sé um 5.878 km. Viðhalda þurfi um 700 km af slitlagi á ári ef vel eigi að vera. Eftir bankahrunið hafi viðhaldið verið vanrækt og nú sé komin uppsöfnuð viðhaldsskuld sem nemi 2.250 km. Það er sú vegalengd sem er viðhaldsþurfi. Í fréttinni sagði að burðarþolsmælingar bentu til að 1.760 km af vegum með bundnu slitlagi hefðu takmarkað burðarþol. Það þýðir samkvæmt Vegagerðinni að ekki dugi að skipta um slitlag, heldur þurfi að leggja þá vegi að nýju.

Álag á vegi á Íslandi fer ört vaxandi. Íbúum fjölgar og ekkert lát er á straumi ferðamanna. Allir vilja komast leiðar sinnar. Í Morgunblaðinu í fyrradag kom fram að umferð um Hellisheiði og í Hvalfjarðargöngum hefði aukist um rúm 60% frá árinu 2010. Annars staðar hefur hún margfaldast. Á hringvegi um Reynisfjall vestan við Vík í Mýrdal hefur meðalumferð á dag yfir árið aukist um 300% á sama tíma.

Það er dýrt að vanrækja viðhald á vegum. Þegar dregst að laga slitlag aukast líkur á að undirlagið skemmist og kostnaðurinn margfaldast.

Um þessar mundir mæðir mikið á ríkissjóði og ekki vantar framúrkeyrslurnar svo notað sé líkingamál, sem hæfir efninu. Við sumt verður ekki ráðið. Þegar jarðhræringar valda því að við blasir að heilt byggðarlag verði óbyggilegt þarf að snúa bökum saman.

En hversu brýn er krafan um þjóðarhöll, svo dæmi sé tekið? Vegirnir skemmast ef viðhaldið er vanrækt. Þjóðarhöllin verður jafn glæsileg þótt hún bíði og er viðhaldsfrí á meðan.