Þær verða ekki öllu þjóðlegri myndirnar; leigubíll með þjóðfánann blaktandi í móðublásaranum og Útvarp Sögu malandi í hátölurunum, rennur í gegnum mugguna í Miðbænum í leit að farþegum og nagladekk atvinnulífsins snúast.
Þær verða ekki öllu þjóðlegri myndirnar; leigubíll með þjóðfánann blaktandi í móðublásaranum og Útvarp Sögu malandi í hátölurunum, rennur í gegnum mugguna í Miðbænum í leit að farþegum og nagladekk atvinnulífsins snúast. — Morgunblaðið/Eggert
Til landsins komu 72 Palestínuarabar frá Gasasvæðinu á vegum utanríkisráðuneytisins, en þeir höfðu fengið landvist hér í nafni fjölskyldusameiningar við ættingja, sem þegar hafa hlotið hæli hér á landi

9.3-16.3.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Til landsins komu 72 Palestínuarabar frá Gasasvæðinu á vegum utanríkisráðuneytisins, en þeir höfðu fengið landvist hér í nafni fjölskyldusameiningar við ættingja, sem þegar hafa hlotið hæli hér á landi.

Björn Zoëga, fráfarandi forstjóri Karolinska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi, mun í apríl taka við stjórn stærsta sjúkrahúss Sádi-Arabíu, sem kennt er við Faisal konung.

Fjármálaráðherra sagði byggingu nýrrar Þjóðarhallar fyrir handboltaþjóðina vera forgangsfjárfestingu af hálfu hins opinbera.

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn tóku andköf þegar meirihlutinn samþykkti óvænt tillögu þeirra um frekari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Úlfarsárdal.

Kirkjuþing samþykkti að taka budduna af biskupi, en framvegis mun ný stjórn þjóðkirkjunnar og framkvæmdastjóri hennar fara með fjárreiður þjóðkirkjunnar í umboði kirkjuþings.

Selfyssingar kættust mjög þegar heitt vatn fannst í borholu utan við herbergi 226 á Hótel Selfossi, alveg við árbakka Ölfusár. Veitir ekki af, enda hefur íbúum Árborgar fjölgað mjög á liðnum árum.

Erlendur maður, sem fengið hefur hæli hér, stakk tvo menn með hnífi við verslun í Valshverfinu. Hann hefur töluverðan sakaferil hér á landi og krafðist lögregla gæsluvarðhalds yfir honum.

Höskuldur Ólafsson, fv. bankastjóri Verzlunarbankans, lést 96 ára.

Stórbruni varð á Selfossi, en Hafnartúnshúsið við suðurenda nýja en gamla miðbæjarins þar er ónýtt eftir. Unglingar lögðu eld
að húsinu, þó ekki sé talið að þeir hafi ætlað sér að valda þvílíkum skaða.

Verkalýðsfélögin VR og LÍV sendu fulltrúa sína til samningafunda við Samtök atvinnulífsins (SA) í Karphúsinu, frekar vopnlausa eftir að breiðfylkingin hafði án þeirra náð stöðugleikasamningnum við SA.

Fagfélögin, Rafiðnaðarsambandið, Matvís, VM og Grafía sömdu við SA í anda fyrrnefnds stöðugleikasamnings.

Áhöld voru um samkrull og samstarfsslit Krónunnar við veitingakeðjuna Wok On, sem er til rannsóknar í tengslum við fjölþætt sakamál og fjölskrúðugt dýralíf.

Forstjóri Festar, sem á Krónuna, kvartaði undan því að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar væri tregt til þess að veita upplýsingar og lokaði ekki rekstri Wok On þrátt fyrir afleita einkunn skv. athugun eftirlitsins.

Á daginn kom að árásarmaðurinn í Valshverfinu hefur árum saman haft uppi líflátshótanir við vararíkissaksóknara og fjölskyldu hans.

Laufey Lín Jónsdóttir hélt tónleika í Hörpu og fyllti Eldborg þrisvar við mikið lof og prís.

Forstjóri Happdrættis Háskólans lét í ljós miklar áhyggjur af spilafíkn landsmanna og hvatti stjórnvöld til þess að grípa í taumana. Óþolandi væri að fólk tapaði fé sínu í erlendum netspilum en ekki til sín.

Páll Bergþórsson, fv. veðurstofustjóri, lést 100 ára gamall.

Upp komst að útlendingar hafa komist upp með víðtækt svindl í prófum Ökuskólans til leigubílaaksturs og ná þar hæstu einkunnum eftir námskeið á íslensku án þess að kunna málið. Þeir hafa mátt hafa síma með sér í prófum og þannig notið aðstoðar.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði að kjaraviðræðum væri langt í frá lokið og hótaði verkfallsaðgerðum á Keflavíkurflugvelli.

Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands á Íslandi, telur óvissutíma ríkja í Evrópu sem ekki sjái fyrir endann á. Hann segir Atlantshafsbandalagið (NATO) sem fyrr gegna lykilhlutverki við að verjast ágangi Rússa.

Ríkisútvarpið eyddi óvissunni og greindi frá því að Hera Björk Þórhallsdóttir myndi flytja sigurlag söngvakeppni Rúv. í söngvakeppni Evrósjón í Málmhaugum í vor.

Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins í rúma fjóra áratugi, lést 94 ára.

Tveir menn voru sýknaðir af ákæru um hryðjuverkaáform, en hins vegar sakfelldir fyrir brot á vopnalögum.

Greina má aukna spennu á leigubílamarkaði, þar sem íslenskir bílstjórar hafa sumir tekið að auðkenna sig með íslenskum fána í framrúðunni.

Samgöngustofa lét í ljós áhyggjur af prófsvindli í Ökuskólanum og harðneitaði minnstu ábyrgð á því að unnt væri að afla sér atvinnuréttinda með þeim hætti.

Leigubílstjóri á Hreyfli lýsti því í viðtali við Morgunblaðið hvernig hún hefði hjálpað útlendingum við prófsvindl, þeir hefðu sent sér myndir af prófinu, en hún sent þeim myndir til baka með krossunum á réttum stöðum.

Lögregla segir að hún taki í auknum mæli á leyfislausri ferðaþjónustu, en mest eru það útlendingar sem hingað koma til þess að aka með ferðamenn, leigja þeim húsbíla og þess háttar.

Greiningardeild Íslandsbanka athugaði kaffibolla sína og gaumgæfði flug fugla áður en hún spáði því að Seðlabankinn myndi lækka stýrivexti um 0,25% í komandi viku.

SA boðaði allsherjarverkbann á félagsmenn VR ef félagið léti verða af verkfallsaðgerðum á Keflavíkurflugvelli, en heyra mátti loftið fara úr blöðru VR um allt höfuðborgarsvæðið.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, var sökuð um trúnaðarbrot gagnvart stjórn sambandsins.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra lét í ljós þá skoðun að það væri lágmark að menn færu að lögum um leigubílstjóranám. Helstu lögspekingar þjóðarinnar voru sammála þessu mati ráðherrans.

Sjaldséð sjón blasti við Reykvíkingum þegar þar birtist götusópur upp úr þurru.

Íbúar í nágrenni bensínstöðvar N1 á Ægisíðu lýstu vanþóknun á framkomu borgarinnar og Festar, eiganda N1, sem létu lóðina drabbast niður árum saman og ráðgerðu lóðabrask með hana án minnsta samráðs við íbúa.

Íslenskt hey er flutt út til Noregs, þar sem það er eftirsótt þó það sé tvöfalt dýrara en norskt hey. Þar hefur heyskorts gætt undanfarin ár.

Félag atvinnurekenda sakar þáverandi stjórnendur og stjórnarmenn Íslandspósts um að lækkað verðskrá fyrirtækisins í samráði við embættismenn en í trássi við lög og þannig niðurgreitt þjónustuna.

VR lúffaði fyrir SA og samdi um hið sama og breiðfylkingin. Hafa þá 120 þúsund launþegar samninga til næstu fjögurra ára. Staða formanns VR er talin ótrygg.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, boðaði frumvarp um að íslenskukunnátta verði skilyrði leigubílaleyfa.

Ársreikningar Félagsbústaða Reykjavíkurborgar sýna að reksturinn er ósjálfbær og óvíst að úr rætist næsta áratuginn.

Reykjavíkurskákmótið hófst í Hörpu.

Mikil brögð hafa verið að vasaþjófnaði meðal ferðamanna, sem er ný sprotagrein í glæpastéttinni hér á landi.

Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur kvaðst ekki mundu gefa kost á sér til forsetaframboðs. Það gerði hins vegar forstjóri Persónuverndar, sem blaðamaður man ekki í svipinn hvað heitir.

Einar Ólafsson, íþróttakennari og körfuboltafrömuður, dó 96 ára.