Júní Síðasti landsleikur Alberts var gegn Ronaldo og félögum í Portúgal.
Júní Síðasti landsleikur Alberts var gegn Ronaldo og félögum í Portúgal. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta sem kemur saman í Búdapest á mánudaginn til undirbúnings fyrir leikinn mikilvæga gegn Ísrael næsta fimmtudagskvöld er mjög svipað því liði sem mætti Slóvakíu og Portúgal í tveimur síðustu leikjum undankeppni EM í nóvember

Ísrael/Ísland

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta sem kemur saman í Búdapest á mánudaginn til undirbúnings fyrir leikinn mikilvæga gegn Ísrael næsta fimmtudagskvöld er mjög svipað því liði sem mætti Slóvakíu og Portúgal í tveimur síðustu leikjum undankeppni EM í nóvember.

Albert Guðmundsson og Mikael Anderson bætast þó í hópinn hjá Åge Hareide ásamt Patrik Sigurði Gunnarssyni markverði.

Út úr hópnum fara Aron Einar Gunnarsson, Stefán Teitur Þórðarson og Rúnar Alex Rúnarsson markvörður. Einnig Andri Fannar Baldursson sem var kallaður inn fyrir Portúgalsleikinn vegna meiðsla en hann spilar með 21-árs landsliðinu þegar það mætir Tékkum 26. mars.

Hákon Arnar Haraldsson tók ekki þátt í leikjunum við Slóvakíu og Portúgal eftir að hafa meiðst á æfingu fyrir fyrri leikinn en hann er tilbúinn í slaginn á ný.

Albert hefur ekki leikið með landsliðinu síðan í júní vegna meints kynferðisbrots en eftir að málið var fellt niður var Hareide heimilt að velja hann á ný. Albert hefur leikið mjög vel með Genoa í vetur og er sjötti markahæsti leikmaður ítölsku A-deildarinnar á tímabilinu með 10 mörk.

Albert spilar með Genoa gegn Juventus á morgun en hann hefur einmitt verið orðaður við stórveldið Juventus undanfarnar vikur.

Verður að gefa honum frelsi

Åge Hareide landsliðsþjálfari sagði á fréttamannafundi í gær að það væri gott að fá Albert aftur inn. „Hann leggur mikið á sig og þú verður að gefa honum frelsi til að fá það besta út úr honum. Hann er nógu sniðugur knattspyrnumaður til að gera sína hluti og koma með góð hlaup,“ sagði norski þjálfarinn.

Það er líka mikill fengur að fá Mikael Anderson inn í hópinn á ný en hann hefur leikið mjög vel með AGF í dönsku úrvalsdeildinni í vetur og talsvert verið rætt um að hann yrði seldur til stærra félags í sumar.

Gylfi Þór Sigurðsson er ekki í hópnum en hann sagði í viðtali við 433.is í fyrrakvöld að það hefðu verið sér mikil vonbrigði að vera ekki valinn því hann væri í betra formi nú en þegar hann lék með liðinu í október og sló markamet landsliðsins með tveimur mörkum gegn Liechtenstein.

Lengi frá keppni

Hareide sagði á fundinum að Gylfi væri búinn að vera lengi frá keppni og hefði ekkert spilað á árinu. „Við vitum ekki stöðuna á honum. Það er ekki hægt að taka hann inn í hópinn ef hann hefur ekkert spilað. Það er ósanngjarnt fyrir hina sem hafa lagt mikið á sig. Vonandi getum við valið hann fljótlega. Ég er ánægður með að hann sé ósáttur,“ sagði Hareide.

Eins kemur fjarvera Rúnars Alex markvarðar á óvart en hann varði mark Íslands í sjö af tíu leikjum í undankeppni EM á síðasta ári. Hareide sagði að það hefði verið erfitt fyrir sig að tilkynna Rúnari að hann yrði ekki í hópnum að þessu sinni en hann hefði einfaldlega ekki spilað neitt að ráði undanfarna mánuði með Cardiff eða FC Köbenhavn.

Elías Rafn Ólafsson lék tvo leiki og Hákon Rafn Valdimarsson einn á lokaspretti undankeppninnar. Elías er í bestri æfingu af markvörðunum þremur í hópnum, hann spilar alla leiki Mafra í portúgölsku B-deildinni á meðan Hákon hefur ekki spilað mótsleik síðan sænsku deildinni lauk í nóvember.

Sigurliðið í leiknum í Búdapest leikur til úrslita við annaðhvort Úkraínu eða Bosníu um sæti á EM og sá leikur fer fram 26. mars. Ef Úkraína verður mótherjinn verður spilað í Wroclaw í Póllandi. Ísland mun þó mæta öðru hvoru liðanna, sama hvernig fer í Búdapest, því liðin sem tapa undanúrslitaleikjunum tveimur mætast í vináttuleik sama dag.

Höf.: Víðir Sigurðsson