Þóra Hildur Jónsdóttir fæddist 25. júní 1950. Hún lést 12. febrúar 2024.

Útför Þóru Hildar fór fram 14. mars 2024.

Hjartkær vinkona Þóra Hildur Jónsdóttir er látin eftir erfið veikindi. Margs er að minnast og þakka. Þóra og Steini eiginmaður hennar hafa verið okkur hjónunum tryggustu ævivinir og með þeim eigum við óteljandi kærleiksríkar gleðistundir bæði hér á landi og erlendis. Þóra Hildur var uppalin á Borgarhóli í Eyjafjarðarsveit, sveitin var henni einkar kær og þangað fannst henni gott að koma og njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar. Það var gott og gefandi að vera í návist Þóru, hún var trygg og trú, sönn í orði og verki. Þóra var með hjarta úr gulli, naut þess að hafa margt fólk í kringum sig og var rausnarleg heim að sækja. Fengum við hjónin að njóta þess ríkulega og hefur það fært okkur ljúfar minningar sem aldrei verða frá okkur teknar. Hún var kletturinn í fjölskyldu sinni, börnin og barnabörnin áttu hug og hjarta hennar. Þeirra samband var einstakt. Ég held að mér sé óhætt að segja að Þóra hafi verið hamingjusömust þegar hún hafði allan fallega hópinn sinn hjá sér. Þóra bar lítilmagna þjóðfélagsins fyrir brjósti og veit ég að hún lagði mikið af mörkum í þágu þeirra, allt var það gert án þess að flíka því.

Elsku Þóra, ég á erfitt með að trúa því að þú sért horfin frá okkur. Ég kveð þig með sárum söknuði og sé þig fyrir mér í glitrandi bandaskóm með bleikar neglur, í hvítum kjól svífandi um grænar grundir sumarlandsins.

Elsku Steini, Laufey, Vilhelm, Hildur, Brynja, Jón Víðir, Stefán og fjölskyldur, ykkar missir er mestur og síðustu mánuðir hafa verið erfiðir. Samúð okkar er öll hjá ykkur. Megi fallegu minningarnar um yndislegu Þóru Hildi gefa ykkur gleði og frið í hjarta. Guð geymi þig, elsku vinkona.

Í vináttunni virðing felst

væntumþykja og gleði.

Í minningunum mætum dvelst

þær merla á þínum beði.

(Fríða Einars)

Aðalbjörg og Gísli Már.