Snorri Sturluson (1178/9-1241) mótaði sér þá bókmenntastefnu fyrir 800 árum að setja saman á bók sögur og kvæði sem hann hafði alist upp við í munnlegum flutningi. Málverk af Snorra eftir Hauk Stefánsson, frá 1930.
Snorri Sturluson (1178/9-1241) mótaði sér þá bókmenntastefnu fyrir 800 árum að setja saman á bók sögur og kvæði sem hann hafði alist upp við í munnlegum flutningi. Málverk af Snorra eftir Hauk Stefánsson, frá 1930. — Snorrastofa, Reykholti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar bókmenntafræðingar láta sig dreyma um heimsyfirráð benda þeir á að það séu engir atburðir, bara frásagnir; að við skynjum það sem við teljum veruleikann í kringum okkur í gegnum frásagnarform. Utan frásagnar okkar er heimurinn merkingarlaus…

Tungutak

Gísli Sigurðsson

gislisi@hi.is

Þegar bókmenntafræðingar láta sig dreyma um heimsyfirráð benda þeir á að það séu engir atburðir, bara frásagnir; að við skynjum það sem við teljum veruleikann í kringum okkur í gegnum frásagnarform. Utan frásagnar okkar er heimurinn merkingarlaus óreiða eins og stjörnurnar á himninum – sem hefur þó ekki aftrað fólki frá að gefa stjörnunum nöfn, raða þeim upp í mynstur og skálda merkingu inn í ljósdeplana sem blasa við á himni – sum eru jafnvel ginnt til að lesa skilaboð út úr þeim tíðindum sem sagt er frá af himninum eins og Gylfi konungur talar um í Gylfaginningu.

Helsti skáldjöfur og bókmenntafræðingur síðustu aldar, Jorge Luis Borges, skrifaði skemmtilega ritgerð sem Sigrún Á. Eiríksdóttir þýddi fyrir Tening árið 1989 og kallaði Hógværð sögunnar. Þar segir Borges að dagurinn þegar Haraldur harðráði og Tósti jarl réðust með sína menn gegn her Englandskonungs, Haralds Guðinasonar bróður Tósta, árið 1066 hafi ekki verið sögulegur – heldur dagurinn þegar Snorri Sturluson skrifaði söguna af þessari innrás í Heimskringlu og bjó þannig til atburðinn og hetjuandann með frásögn af tilsvörum og viðbrögðum persóna sinna.

Mörgum hættir til að klóra sér í kollinum yfir þessari yfirtöku bókmenntanna á veruleikanum – en þá rifjast upp spurning Pílatusar í Jóhannesarguðspjalli: „Hvað er sannleikur?“ – eftir að Jesús hafði sagt honum: „Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.“ Pílatus fékk ekkert svar og fleiri en honum hefur reynst örðugt að fá svar við sömu spurningu.

Allt vekur þetta til umhugsunar um mikilvægi tungutaksins þegar kemur að vandamálum samtímans. Oft er vandinn fólginn í frásögninni fremur en veruleikanum, þ.e. ekki í neinum vanda heldur í því hvernig við tölum um vandann – í því sem kallað er orðræða um t.d. orkuskort og útlendingavanda. Þannig eru landsmenn bæði orðnir logandi hræddir við orkuskort (þótt við framleiðum meiri orku en nokkurt annað land og lokun álversins í Straumsvík sé yfirvofandi með allri þeirri orku sem þá losnar um) og við útlendinga (þótt mannlíf, menning, veitingahúsaflóra og öll þjónusta hafi stökkbreyst til hins betra vegna allra þeirra útlendinga sem hér eru, ýmist búsettir eða sem ferðamenn). Stór hluti vandans er m.ö.o. fólginn í því hvernig við tölum um hann, sbr. að það er aldrei of seint að eiga hamingjuríka æsku vegna þess að við ráðum sjálf frásögninni af því hvernig hún var.

Mikilvægi frásagnarinnar fyrir skynjun okkar á svokölluðum veruleika var mönnum ljós að fornu þegar málsmetandi menn réðu hirðskáld og sagnameistara til að láta yrkja um sig og segja af sér frægðarsögur. Undanfarið hefur loksins komist í hámæli að hér hafi ekki verið nein söguleg gullöld á þjóðveldistímanum. En gullöld bókmennta um þjóðveldið hófst þegar Snorra datt í hug að skapa hina glæstu fortíð með Eddunni og fornsögunum.