— Morgunblaðið/Eggert
Clinton forseti hóf ræðu sína, eins og ekkert hefði í skorist, og þótt hann væri viss um að tækniliðið, sem sat í sjokkinu, myndi koma þessu í lag, gat hann ekki vitað nákvæmlega hvaða tíma það tæki.

Í síðasta bréfi var stiklað á stóru um hefðbundna ræðu forseta Bandaríkjanna um stöðu alríkisins. Forsetinn talar þá einn í rúma klukkustund og les textann af spjöldum, eins og fyrirrennarar hans gerðu einnig eftir að tæknin bauð upp á það. Hinn kosturinn væri að lesa af ræðublöðum liggjandi í púlti ræðumanns. En sá gerningur myndi minna áheyrendur á það, að sennilega hefði fjöldi textagerðarmanna lagt til spekina og forsetinn verið þjálfaður í upplestri marga daga röð, svo að í flutningi hefðu áheyrendur þá tilfinningu, að forsetinn hefði dundað sér í ræðuskrifunum síðustu vikurnar. Áheyrendur vita betur, þegar rafspjöldin eru notuð, en það virkar ekki eins og að forsetinn sé að lesa heldur tala við hvern og einn.

Patið sem komst ekki upp

En þetta minnir á, að í tíð Bills Clintons forseta gerðist það, eftir að forsetinn hafði ávarpað gestina í þinghúsinu, að þá leit hann í átt til „spjaldanna“ sinna. Á sama augnabliki áttuðu tæknimenn embættisins sig á því, að þeir voru að senda inn á ræðuspjöld forsetans „tímamótaræðuna“ frá árinu áður. Orðréttan texta, en ári of seint!

Forsetinn hugsaði um það hversu margir í salnum, sem voru langflestir þeir sömu og núna, myndu sjá að eitthvað skrítið væri að gerast, ef hann léti sig hafa að fara að mestu í gegnum þann texta. Sennilega fáir. En úti í bæ voru vinir og ekki síður óvinir forsetans að einblína á það, hvar hann hefði farið efnislega út af, með réttu eða röngu. Þeir voru atvinnumenn og yrðu ekki plataðir. Clinton horfði á víxl til spjaldanna, eins og til að kanna hvort sú ræða sem birtist væri hin rétta, að minnsta kosti á öðru hvoru spjaldinu. Honum var vissulega brugðið, sagði hann síðar, en áhorfendur tóku ekki eftir því að neitt væri að. Clinton forseti hóf ræðu sína, eins og ekkert hefði í skorist, og þótt hann væri viss um að tækniliðið, sem sat í sjokkinu, myndi koma þessu í lag, gat hann ekki vitað nákvæmlega hvaða tíma það tæki. En þegar forsetinn hafði talað í svo sem 5 mínútur upp úr sér og forðast að horfa til spjaldanna, svo hann ruglaðist ekki á rununum, sem fóru þar hratt yfir, þá gjóaði hann þó augunum þangað og nú sá hann ekki betur en að loks væri nýja ræðan að koma á „spjöld sögunnar“.

Í sjálfu sér er það ekkert stórmál fyrir þrautþjálfaðan og yfirvegaðan ræðumann að tala hjálparlaust í 4-5 mínútur og jafnvel í 45 mínútur, ef hann veit fyrirfram að það eigi hann að gera. En það er óneitanlega flóknara við þessar aðstæður en virðist við fyrstu sýn.

Og það var ekki aðeins svo, að bæði spjöldin, sem áttu að tryggja mikið öryggi og þægindi fyrir forsetann þegar hann var að flytja sennilega mikilvægustu ræðu ársins, væru ekki að virka. Þvert á móti. Gamla ræðan „frá því í fyrra“ var í fátinu spiluð hratt yfir á skermunum tveimur, allt til þess tíma, að stutt var í „nýju ræðuna“ og óhætt að hægja á. Þannig að hjálpartækin voru á þessari stundu fremur fallin til að rugla ræðumanninn rækilega, en að auðvelda honum leikinn. En Clinton fipaðist hvergi og það var ekki fyrr en nokkru eftir að ræðunni lauk sem út spurðist hvað hefði gerst. Almannamál var að ræðumaðurinn hefði komist myndarlega frá málinu.

Hvernig hefðu sumir brugðist við?

Það var ekki laust við að spurningar vöknuðu um hvernig núverandi forseti Bandaríkjanna hefði brugðist við og hvort hann hefði komist óstuddur úr klemmu af þessu tagi. Joe Biden, sem á það til að ráfa óljóst um sviðið og benda út í loftið, snúa við og fara í öndverða stefnu og hefja bendingar þar, þar til einhver hleypur til og vísar á rétta leið, sem kemur undarlega út og jafnvel óþægilega. Ekki er víst að Biden hefði náð að bjarga sér eins og Clinton. En Biden komst í gegnum ræðuna núna. Og hann datt ekki, né tók einn af þessum göngutúrum, fram og til baka í hálfum hring um konung Jórdaníu í Hvíta húsinu, sem enginn vissi og veit ekki enn hvað þýddu, en bentu óneitanlega til þess að Biden væri ekki fyllilega ljóst, hvort hann væri að koma eða fara, og þá hvert. En hitt er jafn rétt sem sagt var, að Biden þótti komast klakklaust í gegnum ræðuna um stöðu ríkisins. Sú ræða fjallaði þó lítið um fundarefnið og stöðu þess, enda var hún fyrst og síðast gagnrýni á andstæðingana, og einkum þó Donald Trump, sem komst formlega í framboð fyrir sinn flokk tæpri viku síðar, þegar nægum fjölda kjörmanna var náð. Biden fékk einnig sambærilega stöðu í sínum flokki um líkt leyti.

Bjargaði sér fyrir horn

Dagana á eftir sást að flokksbræðrum og -systrum forsetans var mjög létt eftir fundinn í þinghúsinu. Og það stóð ekki á þeim að segja fulltrúum fjölmiðla, hversu einstæð, frábær og grípandi ræða foringjans hefði verið. En auðvitað var stjórnarandstaðan til staðar og maldaði í móinn. Þetta hefði verið einhæf og flokkspólitísk ræða og sérkennilegt hefði verið að engin færi hefðu verið eða stikkorð sem gæfi þingheimi tilefni til að rísa á fætur og sýna samheldni og fagna saman yfirlýsingum forsetans um ágæti Bandaríkjanna. Hefðbundnum og mikilvægum köflum höfðu ræðuskrifarar Hvíta hússins gleymt. En forsetarnir á undan Biden, allir sem einn, höfðu ætíð gætt þess rækilega, að slík tilefni gæfust, enda er mikilvægt, einkum fyrir þjóðina við tækin heima, að sjá nokkur góð dæmi um samstöðu og samheldni, sem troðfullt þinghúsið myndi fagna eins og einn maður. Eins og alltaf biðu stjórnendur flokksskrifstofanna eftir könnunum sem teknar voru alla vikuna eftir fundinn. Þá kom í ljós að ræðan hefði ekki aukið fylgi forsetans. Það kom andstæðingum hans einnig á óvart. En hitt, sem flestir nefndu, var hversu önugur og reiður forsetinn hefði virst við flutning ræðu sinnar. Sérfræðingar sögðu, um þetta atriði sem mest var nefnt sem skýring á því að Biden hefði ekki styrkt stöðu sína, líklegast að þessi hróp hefðu verið hluti af ráðleggingum sem forsetinn fékk frá hjálparkokkum sínum. Þeir vildu forða forsetanum frá að leggjast í muldur sem enginn heyrði eða skildi. Verulegar áhyggjur hefðu verið í þau fáu skipti sem forsetinn talaði til almennings.

Matthías Johannessen

Morgunblaðið birti þá frétt á forsíðu sinni sl. þriðjudag að Matthías Johannessen væri látinn. Hann hefur verið lengst allra ritstjóri blaðsins eða í 41 ár og árin þar á undan og jafnan síðan athafnasamur og kraftmikill blaðamaður. Og þess utan lét hann til sín taka víða í þjóðfélaginu, þar sem sóst var eftir ráðum hans og atbeina og þar sem áhugamál hans lágu, auk aðalstarfans, sem auðvitað tengdust um margt.

Í forsíðufréttinni um andlát þessa einstæða samstarfsmanns eru tilgreindar nefndir, ráð og félög, svo sem Hið íslenska þjóðvinafélag, bókmenntaráð Almenna bókafélagsins, Félög rithöfunda, blaðamanna og Menntamálaráðs, auk Þjóðhátíðarnefndar 1974. Matthías sat í stjórn Hjartaverndar og Kabbameinsfélagsins og er fátt eitt nefnt til sögu, þar sem menn sóttu fast að fá að njóta elju hans, hreinskilni og brennandi áhuga. Þegar skrif hans utan veggja blaðsins eru skoðuð, þótt ekkert vantaði upp á að þar væri mikið skrifað, bættust við tugir bóka af fjölbreyttu efni og í bókasafni bréfritara eru flestar ef ekki allar ljóðabækur hans og fjölmargar aðrar bækur, allt frá áhugaverðum samtalsbókum til hinnar miklu ævisögu sem hann skrifaði um Ólaf Thors, forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins. Fyrsta bók hans, Borgin hló, kom út 1958 og hin síðasta, Undir mjúkum væng, kom út í fyrra!

Árið 1973 var bréfritari sendur af Matthíasi sem blaðamaður á „heimsmót æskunnar“ í Austur-Berlín. Þá átti kommúnisminn austantjalds í Evrópu enn eftir 17 ára líftíma. Þar hitti ég fyrst Carl Bildt, sem varð forsætisráðherra Svíþjóðar 1991, fimm mánuðum síðar en bréfritari fékk sinn stól. Matthías skrifaði sjálfur undir blaðamannapassann og færði inn í hann verkefnin sem bréfritari var sagður sinna á blaðinu. Var sá stoltur af þessum passa, og á hann enn, en það var ekki endilega betra að lesa skrift Matthíasar en pár blaðamannsins sem var brugðið við landamærin þegar alvopnaðir hermenn lögðust yfir passann frá Matthíasi og voru ekki líklegir til að samþykkja pilt og sífellt komu nýir menn inn í yfirheyrsluherbergið til að rýna í passann. Var Matthíasi sagt þetta allt, þegar heim var komið, og hann sagði: „Svona eiga passar að vera,“ og fól blaðamanninum svo að skrifa heila grein um þetta ævintýri. Er nú hálf öld síðan. Margt mætti segja gott að leikslokum, um og við Matthías, en hugurinn leitar líka til hans ágætu eiginkonu, svo elskuleg, góð og dugleg sem hún var. Hún tengdist hárgreiðslustofu í húsi Guðrúnar Petersen, ömmu Ástríðar minnar, í Skólastræti 3 og var í miklu áliti hjá því fólki öllu.

Blessuð sé minning þeirra beggja.