Anita Sauckel og Rebecca Merkelbach.
Anita Sauckel og Rebecca Merkelbach. — Morgunblaðið/Eyþór
Í dag er mikið talað um kvíða og þunglyndi sem heilsufarlegt vandamál og þetta sér maður líka í Íslendingasögunum þar sem kvíði og þunglyndi herjar á fólk.

Verið er að vinna að fyrstu heildarútgáfu Íslendingasagna og -þátta á þýsku í nýjum þýðingum. Saga forlag gefur út. Ritstjórar útgáfunnar eru tveir ungir þýskir fræðimenn, þær dr. Anita Sauckel, fornbókmennta- og fornleifafræðingur við Háskóla Íslands, og dr. Rebecca Merkelbach, prófessor í fornnorrænum bókmenntum við háskólann í Tübingen.

Í heildarútgáfunni verða sögurnar fjörutíu og fjörutíu og níu Íslendingaþættir. Ritstjórarnir benda á að Íslendingasögur eru einstök og sjálfstæð bókmenntagrein þar sem fjölmörg líkindi eru í orðfæri milli ólíkra sagna og þátta. Til að skila þeim einkennum til lesenda sagnanna í hinum nýju þýsku þýðingum verða kjarnahugtök úr merkingarheimi sagnanna og íslenska miðaldasamfélagsins samræmd í þýðingunum auk orðasambanda og frásagnarformúla sem koma víða fyrir.

Þýðendur eru tuttugu og fjórir. Í þeim hópi eru virtir fræðimenn á sviði norrænna og germanskra fræða og háskólakennarar við menntastofnanir á þýsku málsvæði, miðaldafræðingar, þjóðfræðingar, bókmenntafræðingar og atvinnuþýðendur jafnt á nútímabókmenntir sem miðaldaverk. Textar verða vandlega yfirlesnir með tilliti til nákvæmni við frumtexta og loks kallaðir til rithöfundar sem lesa þýðingarnar yfir með tilliti til læsileika, stíls og listræns yfirbragðs þannig að textarnir tali beint til nútímalesenda. Áþekkum vinnubrögðum var beitt við þrjár norrænar heildarútgáfur sem forlagið sendi frá sér fyrir tíu árum.

Anita Sauckel býr hér á landi og talar íslensku. Hún hefur unnið á vettvangi rannsókna og vísinda bæði í Þýskalandi og á Íslandi. Hún var um tíma lektor í forníslenskum bókmenntum við háskólann í Greifswald í Þýskalandi. Hérlendis vann hún hjá Háskóla Íslands sem nýdoktor og síðan sem verkefnisstjóri og stundakennari í alþjóðlegu meistaranámi í norrænum miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Rebecca Merkelbach stundaði nám í Tübingen í Þýskalandi, Dyflinni á Írlandi, við Háskóla Íslands og í Cambridge þar sem hún lauk doktorsprófi árið 2017. Hún hefur síðan starfað við háskóla í Zürich í Sviss og Tübingen þar sem hún hefur gegnt stöðu prófessors frá árinu 2021. Hún hefur skrifað um hrollvekjandi og yfirskilvitlega þætti í Íslendingasögum og í sumar er væntanleg frá henni bók um yngri Íslendingasögur.

Tenging við nútíma-ofurhetjur

Anita segir mikinn áhuga á Íslendingasögum í Þýskalandi. „Þessi nýja og metnaðarfulla útgáfa er frábært tækifæri til að kynna Íslendingasögurnar og -þættina. Þarna eru sögur sem hafa ekki áður verið þýddar á þýsku eins og Gunnars saga Keldugnúpsfífls og Kjalnesinga saga.

„Það er mikilvægt að sýna lesendum að þetta eru ekki bara gamlir textar, þarna er ýmislegt sem er mjög nútímalegt. Í sögunum snýst ekki allt um vald og valdabaráttu heldur líka tilfinningalíf. Margt í þessu gamla samfélagi minnir á nútímann. Í dag er mikið talað um kvíða og þunglyndi sem heilsufarlegt vandamál og þetta sér maður líka í Íslendingasögunum þar sem kvíði og þunglyndi herjar á fólk. Það er miklu meiri dýpt í þessum sögum en fólk kann að ætla og nútímaþýðing á að koma því til skila.“

„Nútímafólk ætti ekki að eiga í erfiðleikum með að lifa sig inn í sögurnar. Í Þýskalandi er mikill áhugi á víkingum og því sem tengist þeim og Egils saga ætti til dæmis að höfða sérstaklega til þess hóps,“ segir Rebecca. „Nemendur mínir hafa alltaf mikinn áhuga á því yfirskilvitlega, tröllum og afturgengnu fólki. Nútímafólk elskar ofurhetjur og sögur sem tengjast þeim. Slíkar hetjur eru í Íslendingasögunum, eins og Egill, Grettir og Finnbogi rammi og á nokkuð annan hátt Njáll og Snorri goði. Það er því margt í þessum persónum sem fólk getur tengt við nútíma-ofurhetjur.“

Sannkallað draumaverkefni

Blaðamaður forvitnast um það hvenær áhugi þeirra tveggja á Íslendingasögum hafi vaknað. „Þetta hljómar eins og klisja en ég var táningur þegar Hringadróttins-myndirnar voru sýndar. Ég hafði gleypt í mig allar bækur Tolkiens og ævisögur um hann og komst að því að hann hafði kynnt sér íslenska sagnaarfinn. Þetta vakti áhuga minn. Amma gaf mér síðan þýska þýðingu á Eddu,“ segir Rebecca. „Í námi las ég Íslendingasögur, eins og Hrafnkels sögu, Gísla sögu og Grettis sögu sem er uppáhalds-Íslendingasagan mín. Þá opnuðust fyrir mér aðrir heimar.“

„Ég fór í skandinavísk fræði þar sem maður þurfti að læra forníslensku. Þar las ég Hrafnkels sögu og eftir það fór ég að lesa fleiri Íslendingasögur,“ segir Anita. „Það er svo margt áhugavert við Íslendingasögurnar, ekki síst það að þær segja frá því hvernig samfélagið á Íslandi varð til. Þetta heillaði mig og mig langaði til að leggjast í frekari rannsóknir á því. Mér finnst einnig áhugavert hversu mikla áherslu höfundar sagnanna leggja á það hvernig persónur eru klæddar og hef skrifað bók um það efni.“

Anita segist ekki eiga uppáhalds-Íslendingasögu. „Ég hef mikið rannsakað Njálu en þær sögur sem eru öðruvísi en klassísku Íslendingasögurnar heilla mig mest, til dæmis Hávarðar saga Ísfirðings og Eyrbyggja.“

Flestir Íslendingar eiga sér uppáhaldspersónu úr Íslendingasögum. Anita og Rebecca eru spurðar um sín eftirlæti.

„Finnbogi rammi,“ segir Rebecca. „Hann er góður gæi sem reynir alltaf að gera sitt besta. Hann er mjög tilfinningaríkur og elskar konu sína og syni. Margir öfunda hann og hann er mjög misskilinn. Fræðimenn hafa talað um hann sem einvíðan og ýkta persónu en hann leynir á sér. Mér finnst hann mjög áhugaverður.“

„Mér finnst Snorri goði mjög athyglisverður karakter, margræður og spennandi,“ segir Anita. „Hann virðist vera góður maður en um leið er hann það alls ekki. Njáll er líka áhugaverður og synir hans. Hávarður Ísfirðingur er svo allt öðruvísi en allir aðrir.“

Anita og Rebecca segja mikinn heiður að fá að vinna að þessari merku útgáfu. „Þetta er sannkallað draumaverkefni, sem er óendanlega skemmtilegt að vinna að,“ segja þær.