— Morgunblaðið/Eggert
Hvaða óperu eruð þið að fara að sýna? Óperan heitir Póst-Jón og er frekar lítið þekkt frönsk gamanópera sem fjallar um póst sem er nýgiftur og fær tækifæri til að gerast óperusöngvari. Hann yfirgefur konu sína á brúðkaupsnóttina án þess að láta hana vita

Hvaða óperu eruð þið að fara að sýna?

Óperan heitir Póst-Jón og er frekar lítið þekkt frönsk gamanópera sem fjallar um póst sem er nýgiftur og fær tækifæri til að gerast óperusöngvari. Hann yfirgefur konu sína á brúðkaupsnóttina án þess að láta hana vita. Tíu árum síðar, þá orðinn frægur óperusöngvari, kynnist hann konu sem hann biður að giftast sér. Það er, án þess að hann viti af því, konan hans sem að einhverju leyti vill ná sér niðri á honum. Svo er gert grín að óperuforminu sjálfu en það er verið að æfa óperu í óperunni. Það er heil sena sem fjallar um hve sé erfitt að vera óperusöngvari; það sé alltof mikið álag.

Hefur þú starfað lengi sem óperusöngkona?

Ég kláraði nám 2013 og hef starfað við óperusöng síðan en ég er líka kórstjóri. Okkur hjá Óði langaði að búa eitthvað til því okkur fannst vanta að óperur væri aðgengilegar almenningi; að lækka aðeins þröskuldinn því fólk afskrifar óperur oft auðveldlega. Við höfum grínast með að við séum að draga óperuna aftur niður í svaðið, þaðan sem hún kom.

Sviðslistarhópurinn Óður, hefur hann verið til lengi?

Síðan 2021, en þá frumsýndum við Ástardrykkinn og í fyrra sýndum við Don Pasquale. Við erum komin til að vera og markmiðið er að vera með að minnsta kosti eina uppfærslu á ári. Í ár verðum við jafnvel með eitthvað fleira því við erum Listhópur Reykjavíkur árið 2024. Við höfum fengið glimrandi dóma og okkur óraði ekki fyrir að geta sýnt jafn oft og varð raunin. Viðtökurnar hafa verið ótrúlega góðar. Þetta er greinilega eitthvað sem fólk vill sjá.

Er þetta ekki ótrúlega skemmtilegt?

Jú, þetta er mjög gaman! Við getum ekki hætt. Þetta er það sem við viljum vera að gera.

Sólveig Sigurðardóttir sópran er í sviðslistahópnum Óði sem setur upp í Þjóðleikhúskjallaranum óperuna Póst-Jón. Frumsýning er 16. mars og er verkið sýnt til 11. apríl. Miðar fást á tix.is.