Fjölskyldan Þóranna og Kristján ásamt börnunum sínum, Þórarni, Vilborgu og Guðbjarti.
Fjölskyldan Þóranna og Kristján ásamt börnunum sínum, Þórarni, Vilborgu og Guðbjarti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóranna Þórarinsdóttir er fædd 17. mars 1944 og verður því áttræð á morgun. Hún fæddist í Vestmannaeyjum og átti heima á Háeyri. Þóranna fór 16 ára gömul til Reykjavíkur að vinna á Hrafnistu í Reykjavík og orti einn af heimilismönnunum þar ljóð þegar hún ætlaði í jólafrí heim til Vestmannaeyja 1960

Þóranna Þórarinsdóttir er fædd 17. mars 1944 og verður því áttræð á morgun. Hún fæddist í Vestmannaeyjum og átti heima á Háeyri.

Þóranna fór 16 ára gömul til Reykjavíkur að vinna á Hrafnistu í Reykjavík og orti einn af heimilismönnunum þar ljóð þegar hún ætlaði í jólafrí heim til Vestmannaeyja 1960.

Þóranna sem þrekið ber,

þróttmikil hún starfar hér,

ætlar sér nú arka heim,

út í kaldan vetrargeim.

Unnusti Þórönnu var Samúel Ingvason, f. 19.2. 1942 á Akranesi, en hann fórst ungur í sjóslysi 22.3. 1963. Hún giftist síðan Kristjáni Guðbjartssyni Bergman 12.11. 1964.

Þóranna og Kristján bjuggu mest allan tímann í Reykjavík ef frá eru talin nokkur ár í Vestmannaeyjum þar sem Kristján var verkstjóri í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Þau voru síðustu kaupmennirnir sem ráku Turninn við Arnarhól.

Á yngri árum spilaði Þóranna handbolta með Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum og Þrótti Reykjavík. Það var mikið um íþróttaiðkun í fjölskyldunni og er enn. Faðir Þórönnu var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Týs í Vestmannaeyjum.

Þóranna tekur virkan þátt í kvenfélagsstarfi og er búin að vera formaður Kvenfélags Breiðholts í 40 ár. Þóranna hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Bandalag kvenna í Reykjavík. Einnig var Þóranna formaður safnaðarfélags Áskirkju í nokkur ár.

Þóranna hefur unnið ýmis störf um ævina, síðast á Hrafnistu Laugarási þar sem hún sá um verslun Hrafnistu í mörg ár.

„Mér finnst mjög gaman að vera með barnabörnunum og á yngsta barnabarnið mitt sama afmælisdag og ég en hann verður 20 ára. Ég nota hvert tækifæri til að hitta langömmubörnin en þau eru þrjú og fjórða á leiðinni.“

Þóranna er mikil prjónakona, á stóran vinkonuhóp sem hún nýtur að hitta ásamt því að hún hefur gaman af því að fara með gamansögur í góðra vina hópi.

Fjölskylda

Eiginmaður Þórönnu var Kristján Guðbjartsson Bergman, f. 12.11. 1942, d. 30.7. 2022, vélstjóri, matreiðslumaður, innheimtustjóri og kaupmaður. Þóranna og Kristján byggðu sér hús í Laugarásnum og býr Þóranna þar enn.

Foreldrar Kristjáns voru Vilborg Sveinsdóttir, frá Kambi í Flóa, f. 2.2. 1917, d. 23.12. 1979, og Guðbjartur Sigurgísli Bergmann Kristjánsson, f. 15.12. 1914, d. 20.6. 1967. Þau voru búsett í Reykjavík.

Börn Þórönnu og Kristjáns eru: 1) Þórarinn Jóhann Kristjánsson, f. 2.10. 1964, tölvufræðingur og framhaldsskólakennari, kvæntur Jónínu Gísladóttur, f. 9.10. 1965, verslunarkonu en þau eru búsett í Hafnarfirði. Börn þeirra eru a) Kristján Valgeir, f. 1987, kvæntur Sunnu Magnúsdóttur, f.1986. Þau eiga Karen, f. 2014, Magnús, f. 2017, og Stellu, f. 2022; b) Þóranna, f. 1989; c) Jóna Elísabet, f. 1997, sambýlismaður hennar er Birkir Þór Önnuson, f.1996; d) Þórarinn Sigurgísli, f. 2004, unnusta hans er Sóley Líf Sigurðardóttir, f. 2005; 2) Guðbjartur Kristján Kristjánsson Bergman, f. 3.4. 1966, tölvufræðingur og kennari, búsettur í Reykjavík; 3) Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir Bergman, f. 2.3. 1973, lögfræðingur, sáttamiðlari og formaður Bandalags kvenna í Reykjavík, búsett í Reykjavík. Dóttir hennar er Þóranna Bjartey Bergman, f. 1998, sambýlismaður hennar er Sigurjón Emil Ingólfsson, f. 1998.

Systkini Þórönnu: Guðmundur Hörður Þórarinsson, f. 10.12. 1936 í Vestmannaeyjum, d. 26.9. 1997, húsasmíðameistari í Vestmannaeyjum; Ásta Guðbjörg Þórarinsdóttir, f. 1.11. 1938 í Vestmannaeyjum, verslunarkona í Reykjavík; Óskar Þórarinsson f. 24. maí 1940 í Vestmannaeyjum, d. 2.11. 2012, skipstjóri og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum.

Foreldrar Þórönnu voru Þórarinn Anton Jóhann Guðmundsson frá Háeyri í Vestmannaeyjum, f. 4.7. 1910, d. 8.11. 1970, verkamaður, og Elísabet Bjarnveig Guðbjörnsdóttir, f. 14.10. 1914 í Bolungarvík, d. 2.7. 1990, húsfreyja. Þau voru búsett á Háeyri.